Seðlabankinn hefur staðið í eldlínunni á árinu.
Seðlabankinn hefur staðið í eldlínunni á árinu. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði undir lok síðasta árs að hann vonaðist til þess að vaxtahækkunarferli Seðlabankans væri lokið, en tók þó fram að hann væri óhræddur við að hækka vexti frekar ef þörf væri á

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði undir lok síðasta árs að hann vonaðist til þess að vaxtahækkunarferli Seðlabankans væri lokið, en tók þó fram að hann væri óhræddur við að hækka vexti frekar ef þörf væri á. Það verður ekki annað sagt en að hann hafi staðið við stóru orðin. Stýrivextir Seðlabankans voru þá 6% en eru í dag 9,25%. Vextir hækkuðu skarpt í vor, um eitt prósentustig í mars eftir að 12 mánaða verðbólga fór yfir 10% í febrúar, og um 1,25 stig í maí. Stýrivextir héldust óbreyttir við síðustu vaxtaákvörðun bankans í nóvember, sem aðeins má rekja til þeirrar óvissu sem jarðhræringar á Reykjanesskaga ollu. Verðbólgan gaf lítillega eftir undir lok árs og mælist nú 7,7%.

Líkt og í fyrra hefur Seðlabankinn verið í eldlínunni á árinu og útlit er fyrir að svo verði áfram. Miðað við þau skilaboð sem bankinn hefur gefið, með beinum eða óbeinum hætti, má telja líklegt að stýrivextir hækki enn frekar á nýju ári. Ákvarðanir peningastefnunefndar bankans hafa ekki verið óumdeildar en af verkum bankans að dæma – sem og ummælum seðlabankastjóra árinu – má ætla að bankinn sé óhræddur við að hækka vexti enn frekar í þeim tilgangi að vinna bug á verðbólgunni. Seðlabankinn hefur svarað þeirri gagnrýni sem komið hefur fram hverju sinni og ítrekað að vextir kunni að hækka enn frekar.

Háir vextir hafa þó afleiðingar og þær hafa komið fram með ýmsum hætti. Þeir hafa það meðal annars í för með sér að fleiri hafa leitað í verðtryggð lán en óverðtryggð á árinu, innlán í bönkum hafa aukist og hægst hefur á hækkun íbúðaverðs. Þá hefur hlutabréfamarkaður ekki farið varhluta af þessari stöðu og markaðsvirði skráðra félaga í Kauphöllinni hefur lækkað um rúma 200 milljarða króna á árinu.

Við vitum ekki enn hvað nýtt ár ber í skauti sér. Greiningaraðilar gera ráð fyrir því að verðbólgan hjaðni um mitt næsta ár þó að verðbólguþrýstingur nú sé enn mikill. Það er þó ýmislegt sem þarf að ganga upp til að svo verði. Hagvöxtur þarf að minnka, hemja þarf ríkisútgjöld, kjarasamningar þurfa að byggjast á raunsæi og gengi krónunnar þarf að halda jafnvægi svo fátt eitt sé nefnt. Í ljósi þess sem á undan er gengið eru allar líkur á því að Seðlabankinn láti ekki gagnrýni hafa áhrif á ákvarðanatöku sína.