Glaður Portúgalski sóknarmaðurinn Diogo Jota sneri aftur eftir meiðsli og gulltryggði 2:0-sigur Liverpool á útivelli gegn Burnley í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í gær. Með sigrinum fór Liverpool upp í toppsæti deildarinnar.
Glaður Portúgalski sóknarmaðurinn Diogo Jota sneri aftur eftir meiðsli og gulltryggði 2:0-sigur Liverpool á útivelli gegn Burnley í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í gær. Með sigrinum fór Liverpool upp í toppsæti deildarinnar. — AFP/Paul Ellis
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Liverpool fór í gær upp í toppsæti ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta, í bili hið minnsta, með afar sannfærandi 2:0-útisigri á Burnley. Hefðu mörkin getað orðið mun fleiri, í leik þar sem Liverpool var með völdin frá fyrstu mínútu

England

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Liverpool fór í gær upp í toppsæti ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta, í bili hið minnsta, með afar sannfærandi 2:0-útisigri á Burnley. Hefðu mörkin getað orðið mun fleiri, í leik þar sem Liverpool var með völdin frá fyrstu mínútu.

Darwin Núnez gerði fyrra markið á 6. mínútu eftir góðan undirbúning frá Cody Gakpo og Diogo Jota gulltryggði sigurinn með marki á lokamínútunni. Var Jota að spila sinn fyrsta deildarleik í mánuð, þar sem hann er að jafna sig á meiðslum.

Er Liverpool ekki aðeins í toppsætinu, heldur hefur liðið ekki tapað í deildinni frá leiknum skrautlega gegn Tottenham 30. september. Þá er liðið að endurheimta afar sterkan leikmann í Jota og því nokkrar ástæður fyrir stuðningsmenn Liverpool til að fara bjartsýnir inn í nýtt ár.

Jóhann Berg Guðmundsson sneri aftur eftir meiðsli og kom inn á sem varamaður hjá Burnley um miðjan seinni hálfleik. Fékk hann gott færi til að jafna í 1:1 en skallaði fram hjá.

Ungu mennirnir hetjurnar

Stuðningsmenn Manchester United gátu loks tekið gleði sína á ný, þrátt fyrir að liðið lenti 0:2 undir gegn Aston Villa á heimavelli. Með tvennu frá Alejando Garnacho og sigurmarki frá Rasmus Höjlund tókst United að snúa taflinu sér í vil. Var markið það fyrsta í deildinni hjá þeim danska.

Benti fátt til annars en að Villa færi með öruggan sigur af hólmi þegar Leander Dendoncker skoraði annað mark liðsins á 26. mínútu, fimm mínútum eftir að John McGinn skoraði það fyrra. Voru hálfleikstölur 2:0, en United bauð upp á endurkomu sem hefur sjaldan sést á Old Trafford frá því Sir Alex Ferguson stýrði liðinu á sinn einstaka hátt.

Þá er lífið á bak við tjöldin að breytast hjá félaginu og stuðningsmenn geta látið sig dreyma um að United verði aftur í allra fremstu röð fyrr frekar en síðar.

Newcastle í miklu basli

Newcastle, sem endaði í fjórða sæti deildarinnar á síðustu leiktíð, hefur ekki tekið góða gengið með sér yfir í þetta tímabil. Liðið fékk 1:3-skell á heimavelli gegn Nottingham Forest. Chris Wood, sem Nottingham-félagið keypti af Newcastle, skoraði þrennu gegn sínu gamla liði.

Hefur Newcastle nú tapað sex leikjum af síðustu sjö í öllum keppnum og er næsti leikur gegn Liverpool á nýársdag.

Luton að vakna til lífsins

Þá eru nýliðar Luton aðeins einu stigi frá öruggu sæti eftir 3:2-útisigur á botnliði Sheffield United. Hefur Luton nú unnið tvo leiki í röð og byrjað að læra á deild þeirra bestu eftir erfiða byrjun.

Sheffield United, sem er sjö stigum frá öruggu sæti, aðstoðaði Luton-liðið í leiknum með tveimur sjálfsmörkum og er lítið að ganga hjá liðinu úr Jórvíkurskíri. Þrátt fyrir að Luton sé að vakna til lífsins er staðreyndin sú að liðin sem komu upp úr B-deildinni á síðustu leiktíð eru í þremur neðstu sætunum. Virðist bilið á milli deildanna því aðeins vera að aukast.

Loks vann Bournemouth sinn fjórða sigur í röð og þann sjötta í síðustu sjö leikjum er liðið vann sannfærandi 3:0-heimasigur á Fulham. Eftir erfiða byrjun áttu fáir von á öðru en að Bournemouth yrði í mikilli fallbaráttu, en liðið er nú um miðja deild.

Höf.: Jóhann Ingi Hafþórsson