Franska lögreglan handtók í gær 33 ára gamlan franskan pípulagningamann sem grunaður er um að hafa myrt eiginkonu sína og fjögur börn þeirra. Hefur maðurinn verið í meðferð vegna þunglyndis og geðrofseinkenna frá árinu 2017 en árið 2019 stakk hann eiginkonu sína í bakið og var í kjölfarið handtekinn

Franska lögreglan handtók í gær 33 ára gamlan franskan pípulagningamann sem grunaður er um að hafa myrt eiginkonu sína og fjögur börn þeirra. Hefur maðurinn verið í meðferð vegna þunglyndis og geðrofseinkenna frá árinu 2017 en árið 2019 stakk hann eiginkonu sína í bakið og var í kjölfarið handtekinn. Konan var þá ófrísk að þriðja barni þeirra og neitaði að leggja fram kæru. Hjónin kynntust í menntaskóla en giftu sig í október síðastliðnum. Er þetta morðmál það nýjasta í röð átakanlegra voðaverka í París undanfarna mánuði þar sem karlmenn eru sagðir hafa myrt fjölskyldur sínar.

Yfirvöld fundu líkin á jóladag eftir að grunsemdir vöknuðu hjá áhyggjufullum vinum og vandamönnum fjölskyldunnar. Var eiginkona hins grunaða 35 ára gömul og börn þeirra níu mánaða, fjögurra ára, sjö ára og tíu ára. Morðin voru framin í bænum Meaux sem er austur af París en hinn grunaði var hand­tek­inn skammt frá, í bæn­um Sevr­an.