Jóhannes Þór Skúlason Framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar Fyrir skömmu birtust tvær tölur sem sýna svart á hvítu hversu mikilvæg ferðaþjónustan er fyrir samfélagið. Annars vegar að skattspor ferðaþjónustu var 155 ma.kr árið 2022

Jóhannes Þór Skúlason
Framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar

Fyrir skömmu birtust tvær tölur sem sýna svart á hvítu hversu mikilvæg ferðaþjónustan er fyrir samfélagið. Annars vegar að skattspor ferðaþjónustu var 155 ma.kr árið 2022. Það er jafnhá upphæð og allir tekjuskattar lögaðila í landinu, launaskattar og eignarskattar. Þetta sýnir að fullyrðingar um að ferðaþjónusta skili litlu til samfélagsins eru vitleysa.

Hins vegar stóð ferðaþjónusta undir 35% af útflutningstekjum þjóðarinnar á fyrstu níu mánuðum 2023. Það þýðir að meira en þriðjungur gjaldeyrisins sem þjóðin notar til að greiða fyrir innfluttar vörur og styðja við gengi krónunnar verður til í ferðaþjónustu.

Það er augljós sannleikur að enn stærra framlag greinarinnar til sameiginlegra sjóða og gjaldeyrisöflunar þjóðarinnar byggist fyrst og fremst á bættu rekstrarumhverfi og aukinni samkeppnishæfni. Bætt samkeppnishæfni ferðaþjónustu er því hagsmunamál allrar þjóðarinnar. Eftir fjárlagahaustið veltir fjöldi fólks í ferðaþjónustu því hins vegar fyrir sér hvort stjórnmálamenn geri sér grein fyrir þessu.

Nýbirt farþegaspá Isavia sýnir að nú þegar fólk hefur tekið út uppsafnaða ferðaþörfina eftir faraldurinn hægir á fjölgun ferðamanna. Fjölgunin fer úr 29% niður í 9% milli ára og nálgast því sjálfbæran vöxt eins og greinin leggur áherslu á. Ótti við mikla offjölgun ferðamanna er því ástæðulaus. Spáin sýnir einnig að vöxturinn verður mestur yfir veturinn, sem er afar jákvæð þróun sem mun minnka árstíðasveiflu, styðja við heilsársatvinnu og bæta nýtingu innviða um allt land.

Samantekið er þróun ferðaþjónustunnar afar jákvæð þrátt fyrir nær stöðug áföll síðustu ár, sem sýnir vel ótrúlega seiglu og sveigjanleika greinarinnar. Fram undan er að klára vinnu við ferðaþjónustustefnu til 2030. Þar skiptir miklu máli bæði að stjórnvöld og atvinnugreinin gangi í takt, og að ríkisstjórnin sameinist um framgang markmiða og aðgerða sem þar verða sett fram. Takist vel til verður framtíð ferðaþjónustu og lífskjara fólks í landinu enn bjartari en ella.