Risatíðindi bárust í byrjun júlí þegar tilkynnt var um sölu Kerecis til Coloplast.
Risatíðindi bárust í byrjun júlí þegar tilkynnt var um sölu Kerecis til Coloplast. — Morgunblaðið/Kristófer Liljar
Yfirleitt er það nú þannig að hlutirnir róast í viðskiptalífinu yfir sumarmánuðina en það var ekki tilfellið í ár. Yfir sumarið bárust fréttir af sátt Íslandsbanka við Fjármálaeftirlit Seðlabankans, Brim bauð Samkeppniseftirlitinu birginn og bar…

Yfirleitt er það nú þannig að hlutirnir róast í viðskiptalífinu yfir sumarmánuðina en það var ekki tilfellið í ár. Yfir sumarið bárust fréttir af sátt Íslandsbanka við Fjármálaeftirlit Seðlabankans, Brim bauð Samkeppniseftirlitinu birginn og bar sigur úr býtum, Reginn gerði yfirtökutilboð í Eik og stærstu viðskipti ársins áttu sér stað þegar Kerecis var selt til danska fyrirtækisins Coloplast.

Á vormánuðum tilkynnti Icelandair um risapöntun í nýjar Airbus-vélar og í lok sumars lagði Samkeppniseftirlitið risasekt á Samskip fyrir meint samráð við Eimskip. Samhliða öllu þessu hélt Seðlabankinn áfram baráttu sinni við þráláta verðbólgu, baráttu sem hann háði að mestu einn, undir gagnrýni frá forsvarsmönnum verkalýðshreyfingarinnar og á haustmánuðum frá þáverandi fjármálaráðherra. Verðbólgan gaf lítillega eftir undir lok árs en verðbólguþrýstingurinn er þó enn til staðar og virðist ætla að fylgja okkur inn í nýtt ár.

Hampiðjan og Amaroq Minerals færðu sig yfir á Aðallista Kauphallarinnar og undir lok árs fór Ísfélagið á markað eftir vel heppnað hlutafjárútboð. Einhverjir voru svartsýnir í aðdraganda útboðsins en allt kom fyrir ekki og eftirspurnin í útboðinu var nær fimmföld. Og talandi um hlutabréfamarkaðinn, þá höfðu háir vextir sitt að segja auk þess sem erlendir sjóðir voru duglegir við að losa um stöður í skráðum félögum án þess að íslenskir fjárfestar, þ.m.t. lífeyrissjóðir, tækju þau bréf til sín. Allt hafði þetta áhrif til lækkunar á mörkuðum. Á árinu var líka óvenjumikil hreyfing á forstjórastólum skráðra fyrirtækja.

Undir lok árs urðu vandræði Marels öllum ljós þegar forstjóri félagsins lét óvænt af störfum. Nú er í gildi yfirtökutilboð í félagið sem enn á eftir að taka afstöðu til en þá eru málefni Eyris Invest enn óleyst.