Útsýnispallur Svarrandi brimlöður og kolsvartir sjávarhamrarnir.
Útsýnispallur Svarrandi brimlöður og kolsvartir sjávarhamrarnir. — Ljósmynd/Ferðamálastofa
Á dögunum fékk Reykanes jarðvangur umhverfisverðlaun Ferðamálastofu ársins 2023 fyrir uppbyggingu við Brimketil skammt vestan við Grindavík. Með uppsetningu útsýnispalls og fleiri aðgerðum hefur á svæðinu verið skapaður áhugaverður ferðamannastaður…

Á dögunum fékk Reykanes jarðvangur umhverfisverðlaun Ferðamálastofu ársins 2023 fyrir uppbyggingu við Brimketil skammt vestan við Grindavík. Með uppsetningu útsýnispalls og fleiri aðgerðum hefur á svæðinu verið skapaður áhugaverður ferðamannastaður þar sem sést þegar svarrandi sjávarbrim skellur á klettum.

Öldugangur hefur mótað bolla og katla í basaltið í klettóttri strönd við Grindavík. Og þarna er Brimketill, sérkennilegur pottur neðan við hátt hamrabelti. Áður en aðstaða var útbúin þarna á ströndinni gat stundum skapast hætta þegar fólk fór út á úfið hraunið og sprungið. Nú er sú hætta að mestu úr sögunni.

Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu hafa verið veitt frá 1995. Þau fóru nú í áttunda sinn til verkefnis sem áður hafði hlotið styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Þá er miðað við að framkvæmd hafi verið til fyrirmyndar; það er að vinnu sé lokið, reglum sjóðsins hafi verið fylgt og allt unnið skv. umhverfisstefnu Ferðamálstofu og áherslum um sjálfbæra þróun og fleira slíkt.