Söngur Kórarnir Huldur og Ægisif undir stjórn Hreiðars Inga Þorsteinssonar á æfingu í Landakotskirkju fyrir helgi.
Söngur Kórarnir Huldur og Ægisif undir stjórn Hreiðars Inga Þorsteinssonar á æfingu í Landakotskirkju fyrir helgi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Vetrarkyrrð á jólum er yfirskrift tónleika sem Kammerkórinn Huldur og blandaði kórinn Ægisif verða með í Landakotskirkju annað kvöld, fimmtudaginn 28. desember, og hefjast þeir klukkan 20.00. Á dagskrá verða þekktar jólaperlur og frumflutningur tveggja kórverka

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Vetrarkyrrð á jólum er yfirskrift tónleika sem Kammerkórinn Huldur og blandaði kórinn Ægisif verða með í Landakotskirkju annað kvöld, fimmtudaginn 28. desember, og hefjast þeir klukkan 20.00. Á dagskrá verða þekktar jólaperlur og frumflutningur tveggja kórverka. Hreiðar Ingi Þorsteinsson, stofnandi kóranna, stjórnar þeim sem fyrr. Alda Úlfarsdóttir og Halldóra Björk Friðjónsdóttir eru einsöngvarar og Eyrún Úa Þorbjörnsdóttir meðleikari á þverflautu.

„Ég er mjög spenntur fyrir þessum tónleikum,“ segir Kormákur Logi Bergsson, tónskáld og söngvari í Huldi frá stofnun kórsins 2021. Hreiðar Ingi, sem stofnaði Ægisif 2016, tók við Kór Menntaskólans við Hamrahlíð 2017 og þá var Kormákur Logi í kórnum. „Þá kynntist ég Hreiðari Inga og hef sungið undir hans stjórn síðan.“ Kormákur Logi bætir við að hann hafi aldrei sungið fyrr en 2016. „Þá fór ég í prufur hjá Þorgerði Ingólfsdóttur vegna Skólakórsins og söng síðar í Hamrahlíðarkórnum.“

Frumflutningur

Í Huldi eru 29 ungmenni. Kórinn hefur haldið marga tónleika og frumflutt 28 kórverk á tveimur árum. Á tónleikunum frumflytur hann kórverkið „Ljósin“ eftir Móeiði Unu Ingimarsdóttur. „Það er sérstaklega flott verk,“ segir Kormákur Logi. „Við syngjum mjög spennandi verk,“ leggur hann áherslu á. Hann segir að kórinn hafi ýtt undir sköpunina hjá sér og öðrum og bendir á að átta kórfélagar hafi samið verk, sem kórinn hafi frumflutt. „Huldur er eins og bílskúrsband,“ segir hann og vísar til þess að margir kórfélaganna séu í Listaháskóla Íslands og opnir fyrir straumum og stefnum.

Kormákur Logi hefur samið nokkur stór verk. „Það að vera í kór er gott nám í tónsmíðum og góð leið til að læra að skrifa fyrir kór,“ segir hann, en kórinn frumflutti verkið „Brim gnýr við hamra“ eftir hann í október. Hann er jafnframt djasspíanóleikari og er í framhaldsnámi í faginu. „Við hugsum langt fram í tímann og hugmyndin er að taka upp plötu í náinni framtíð, jafnvel með nýrri, íslenskri kórtónlist.“

Hreiðar Ingi lærði tónsmíðar og kórstjórn í Finnlandi og Eistlandi og stofnaði Ægisif til að vekja athygli á austurevrópskri kórtónlist og ekki síst tónlist frá Rússlandi. Kormákur Logi segir að það hafi gefið góða raun. „Hann flutti með sér strauma frá Austur-Evrópu og Ægisif frumflytur kórverkið „Á jólum“ eftir Hreiðar Inga. Það er áhugavert og mér finnst það vera ný stefna hjá honum.“

Höf.: Steinþór Guðbjartsson