[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Dulstirni og Meðan glerið sefur eftir Gyrði Elíasson eru seldar saman sem ein heild. Ljóðmálið í bókunum er tært, dregur upp náttúrumyndir og varpar upp spurningum um…

Dulstirni og Meðan glerið sefur eftir Gyrði Elíasson eru seldar saman sem ein heild. Ljóðmálið í bókunum er tært, dregur upp náttúrumyndir og varpar upp spurningum um lífið og tilgang tilverunnar. Það bergmálar í ljóðunum kyrrð og hugsun þó stundum dragi ský fyrir sólu. Þetta eru skyldar bækur og freistandi að nefna þær saman, en Dulstirni hefur þó vinninginn.

Lesið líka Vandamál vina minna eftir Hörpu Rún Kristjánsdóttur og Flagsól eftir Melkorku Ólafsdóttur með myndum Hlífar Unu Bárudóttur.

Nanna Rögnvaldardóttir hefur mikla reynslu af skrifum og ritstýringu en frumraun hennar á sviði skáldsögunnar er bókin Valskan. Þar skrifar hún sögulega skáldsögu um ástir og örlög sem byggð er á lífi formóður hennar Valgerðar Skaftadóttur sem fædd var 1762. Sögusviðið, Ísland og Danmörk, er hrífandi og vendingarnar í sögu Valgerðar, eða Völku eins og hún er gjarnan kölluð, eru vægast sagt ótrúlegar.

Lesið líka Taugatrjágróður eftir Aðalheiði Halldórsdóttur og Mannakjöt eftir Magnús Jochum Pálsson.

Í bókinni Bannað að drepa lýkur þrennunni um Alexander Daníel Hermann Dawidsson og með miklum þunga, því ekkert er eins bannað og það að drepa. Í fyrri bókum um Alexander hefur Gunnar Helgason lagt áherslu á að sýna hve Ísland er orðið fjölmenningarlegt samfélag, en hann hefur líka birt lesendum ýmislegt óþægilegt og jafnvel hræðilegt, þó bækurnar séu líka fullar af fjöri og gamansemi.

Lesið líka Mömmuskipti eftir þær Arndísi Þórarinsdóttur og Huldu Sigrúnu Bjarnadóttur og Skrímslavinafélagið eftir Tómas Zoëga og Sólrúnu Ylfu Ingimarsdóttur.

Skáldsagan DJ Bambi eftir Auði Övu Ólafsdóttur segir frá Logni, 61 árs trans konu sem komin er í hormónameðferð og bíður eftir leiðréttingaraðgerð, enda vill hún ekki deyja nema það sé rétt hulstur í kistunni. Undirliggjandi strengur í sögunni er loftslagsbreytingar, sem birtist meðal annars í því hvernig farfuglar verða staðfuglar, en eitt aðalinntakið er þó einsemdin, hvernig maður fer að því að vera einn og lifa einn.

Lesið líka Armeló eftir Þórdísi Helgadóttur og Náttúrulögmálin eftir Eirík Örn Norðdahl.

Bókin Með verkum handanna, íslenskur refilsaumur fyrri alda byggist á áratuga rannsóknum Elsu E. Guðjónsson textíl- og búningafræðings á þeim íslensku refilsaumsklæðum sem varðveist hafa. Elsa skrifar skilmerkilega um sögulegt og listrænt samhengi hvers klæðis og fjallar um þau frá mörgum hliðum. Fjölmargar ljósmyndir af klæðunum njóta sín vel í framúrskarandi hönnun bókarinnar og draga það vel fram hve mikil listaverk þau eru.

Lesið líka Samfélag eftir máli eftir Harald Sigurðsson og Andlit til sýnis eftir Kristínu Loftsdóttur.

Kennarinn sem sneri aftur er fimmta og síðasta bókin í bókaröð Bergrúnar Írisar Sævarsdóttur um krakka í BÖ-bekknum sem lenda í ýmsum hremmingum. Börnin skiptast á að vera í aðalhlutverki í hverri bók og fyrir vikið ná lesendur kynnast ólíkum persónum með ólíkar áskoranir og gefst þá líka kostur á að mæta sjálfum sér í bókunum. Í þetta sinn eru erfiðar heimilsaðstæður og vangaveltur um kynhneigð og kyngervi í forgrunni.

Lesið líka Á eftir dimmum skýjum eftir Elísabetu Thoroddsen og Hrím eftir Hildi Knútsdóttur.

Arfur og umhverfi eftir norska rithöfundinn Vigdisi Hjorth, sem út kom í vandaðri þýðingu Ísaks Harðarsonar heitins, fjallar um mikið fjölskylduuppgjör. Verkið er að einhverju leyti byggt á reynslu höfundar en þar er tekist á við eina af stórum siðferðisspurningum samtímans, hvort trúa skuli þolendum þegar ekki er hægt að sanna að glæpur hafi verið framinn.

Lesið líka Paradísarmissi eftir John Milton í þýðingu Jóns Erlendssonar og Bernsku eftir Tove Ditlevsen í þýðingu Þórdísar Gísladóttur.

Á níunda áratug síðustu aldar tók hópur kvenna sig saman um að gerbylta íslensku samfélagi. Ein þeirra var Guðrún Jónsdóttir sem gegndi lykilhlutverki í að koma Stígamótum á laggirnar, tók þátt í Kvennaframboðinu í Reykjavík og stofnun Kvennalistans og kvennaathvarfsins. Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir ritar sögu Guðrúnar á aðgengilegan hátt í Ég verð aldrei ungfrú meðfærileg.

Lesið líka Séra Friðrik og drengirnir hans eftir Guðmund Magnússon og Að deyja frá betri heimi eftir Pálma Jónasson.

Sæluríkið er tuttugasta og sjöunda skáldsaga Arnaldar Indriðasonar. Hún er sú sjötta í glæpasagnaröðinni um rannsóknarlögreglumanninn Konráð og um leið sjötta bókin í nánast samfelldri frásögn af Reykjavík sem var, enda er Konráð að glíma við óuppgerð sakamál frá sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar. Honum miðar áfram með seiglunni og smám saman raknar fléttan upp, flett er ofan af gamalli spillingu og gömlum hryllingi.

Lesið líka Borg hinna dauðu eftir Stefán Mána og Blóðmeri eftir Steindór Ívarsson.

Hjörleifur Hjartarson og Rán Flygenring, sem áður hafa gefið út bækur um fugla og hesta, tóku höndum saman á ný og sköpuðu fyrir þessi jólin bók um íslenska álfa. Verkið ber einfaldlega titilinn Álfar og þar fléttast fræðandi texti og líflegar myndir skemmtilega saman, en sérstakar huldumyndir úr álfableki ríma einstaklega vel við umfjöllunarefnið.

Lesið líka Íslensk myndlist eftir Margréti Tryggvadóttur og Ég þori! Ég get! Ég vil! eftir Lindu Ólafsdóttur.