Frumkvöðull Björn Pálsson var frumkvöðull í sjúkraflugi á Íslandi og oft eina von sjúkra og slasaðra úti á landi.
Frumkvöðull Björn Pálsson var frumkvöðull í sjúkraflugi á Íslandi og oft eina von sjúkra og slasaðra úti á landi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fyrsta sjúkraflug Björns Sjúkraflug Björns Pálssonar hófst fyrir hreina tilviljun. Hann hafði stundum flogið til Reykhóla með menn eða farangur, því þar var sæmilegur lendingarstaður. Svo bar við að prestskonan á Reykhólum fékk illt botnlangakast

Fyrsta sjúkraflug Björns

Sjúkraflug Björns Pálssonar hófst fyrir hreina tilviljun. Hann hafði stundum flogið til Reykhóla með menn eða farangur, því þar var sæmilegur lendingarstaður. Svo bar við að prestskonan á Reykhólum fékk illt botnlangakast. Þetta var í desember 1949. „Þá flaug mönnum þar vestra í hug að hringja til mín. Ég sótti konuna og flaug með hana til Reykjavikur, þar sem hún var skorin upp og allt fór vel. Blöðunum fannst þetta einhver matur og sögðu frá því og þá losnaði skriðan. Síðan kom þetta af sjálfu sér. Það var sífellt farið að leita til mín og ég gat ekki neitað slíkri hjálp, stæði það með nokkru móti í valdi mínu að veita hana, þótt ég hefði í raunar engin hæfileg flugtæki í höndum til þess að veita þessa þjónustu.“

Með tvö lík, veikt barn og móður þess

„Eitt sinn var ég beðinn um að sækja vestur á Rauðasand lík af sjómanni, er drukknaði af mótorbátnum Særúnu út af Vestfjörðum,“ sagði Björn. „Flaug ég þangað og sótti líkið, en fékk þá skilaboð um, að ég væri beðinn um að sækja annað lík, er rekið hafði á fjörur í Breiðuvík. Hélt ég því þangað og sótti það einnig, en hélt síðan rakleiðis til Reykjavíkur. Er ég hafði verið nokkrar mínútur á flugi, var ég kallaður upp og var nú beðinn um að koma til Reykhóla og taka þar mjög alvarlega veikt barn, og jafnframt fékk ég að vita, að þetta þyldi enga bið. Ekki var þetta nú gott, en hvað skyldi gera? Tók ég þegar stefnu á Reykhóla. Er ég lenti þar á flugbrautinni reyndist hún öll í svellbólstrum og komu unglingarnir á staðnum til móts við vélina á skautum. Ég tók þar meðvitundarlaust barnið og móður þess og flaug síðan beint til Reykjavíkur, þar sem lækninum tókst að bjarga lífi þess.“

Erfið lending

„Ég man að eitt sinn var hann kallaður til að sækja mjög sjúkan mann að Breiðabólstað á Fellsströnd,“ sagði Sveinn, sonur Björns. „Þar var um að ræða lendingarsvæði sem var afgirt tún, 4-500 metrar að lengd, sem hafði verið merkt og settur upp vindpoki. Þar sem svartamyrkur var lagði hann fyrir viðkomandi hvernig þeir skyldu standa að því að lýsa upp lendingarstaðinn. Hann flaug tveggja hreyfla flugvélinni TF-VOR í þetta sinn og þegar þangað kom höfðu menn raðað bílum við enda túnsins sem lýstu upp fyrirhugað lendingarsvæði. Þegar hann setti niður vængbörðin í aðfluginu til að geta komið hægar inn til lendingar snerist flugvélin mjög skyndilega á aðra hlið. Drifarmurinn í tjakknum hægra megin hafði þá brotnað þannig að vængbarðið sat eftir þeim megin á miðri niðurleið. Hann gerði sér strax grein fyrir hvert vandamálið var, brást hart við og náði að draga vinstra barðið strax upp þar til að jafnvægi náðist. Eftir á taldi hann sig hafa komist í hann krappan þarna.

Þar sem túnið var allt of stutt til lendingar án vængbarðanna varð hann að snúa frá og það tókst vel. Hann hafði þá samband við flugstjórn og sagði þeim hvernig komið var. Einnig að hann myndi reyna lendingu á Kambsnesi við Búðardal þar sem var litlu lengri flugbraut og bað um að þeim skilaboðum yrði komið til fólksins á Breiðabólstað. Hann flaug þangað og náði að gerðum nokkrum tilraunum að lenda heilu og höldnu á Kambsnesi í myrkrinu, án lýsingar á svörtum melnum og auðvitað án vængbarðanna. Þar beið hann svo sjúklingsins og flutti hann til Reykjavíkur.

Súrefnistækin björguðu konunni

Í byrjun september 1950 var Björn Pálsson beðinn um að fljúga með súrefnistæki frá Slökkviliðinu á Reykjavíkurflugvelli vestur á Reykhóla vegna konu í barnsnauð. Flugið tók 55 mínútur og var lent skammt frá húsinu þar sem konan lá. Hún var þá „orðin blá, svo var af henni dregið". En skömmu eftir að tækin voru tekin í notkun var konunni auðveldara um andrardráttinn. Læknirinn á Reykhólum sagði við Morgunblaðið að það hefði „bjargað lífi hinnar ungu konu hve skjótt tækin komu".

Varð að skilja móðurina eftir

Snemma á sjötta áratugnum sótti Björn Pálsson litla stúlku til Borgarfjarðar eystra á „Kásetunni“ (TF-KZA). Barnið var með botnlangabólgu og mjög veikt. Móðirin vildi koma með en það var ekki pláss fyrir hana í vélinni. „Það var afskaplega erfitt að þurfa að skilja móðurina eftir,“ sagði Björn síðar í viðtali. „Og upp úr þessu var farið að gera ráðstafanir til að fá stærri flugvél.“

Heypokarnir komu sér vel

Að vetrarlagi var Björn Pálsson beðinn að sækja fullorðinn mann austur á Bakkafjörð. Á leiðinni þaðan var óskað eftir því að hann færi til Fáskrúðsfjarðar að sækja veika konu. Þegar þangað var komið var „vandinn að koma fyrir öðrum sjúklingi í þessari litlu vél,“ sagði Björn síðar. „Nú var komið með heypoka, hvern á fætur öðrum, og þeim hlaðið upp þangað til sjúklingarnir voru eiginlega komnir í axlarhæð á mér í vélinni, til þess að geta legið heldur frjálsari aftur í. Og til Reykjavíkur komumst við.“

Með aðra hönd á stýri

Sunnudaginn 19. júlí 1959 slasaðist átta ára drengur frá Hvammstanga á sveitabæ í Miðfirði í Vestur-Húnavatnssýslu. „Hafði hann setið á dráttarvél hjá manni sem var að slá með henni en fallið með einhverjum hætti af henni og á ljáinn. Meiddist hann mjög illa á fæti og handleggsbrotnaði og hlaut auk þess önnur meiðsli á hlið,“ sagði Tíminn.

Skömmu eftir að þetta gerðist lenti Björn Pálsson við Hvammstanga til að sækja konu sem átti að fara á sjúkrahús í Reykjavík. Áður en af því varð kom læknir með drenginn. Vísir sagði svo frá í forsíðufrétt: „Varð nú sjúklingurinn að bíða og drengurinn fluttur suður og var hann milli heims og helju á leiðinni og aðstoðaði Björn lækninn við að halda lífinu í drengnum og voru aðstæður til þess erfiðar og kveðst hann ekki hafa getað haft nema aðra hönd á stýri mikinn hluta leiðarinnar og mætti næstum segja að stundum hafi flugvélin flogið sjálf.“

Ári síðar birtist auglýsing í dagblöðunum þar sem móðir drengsins þakkaði þeim sem „skutu saman álitlegri fjárupphæð“ til þess að sonur hennar „gæti fengið sér gervifót þegar hann í fyrrasumar missti annan fótinn af slysförum".

Skorið upp í skyndi

Í byrjun júlí 1963 flaug Björn Pálsson með Árna Björnsson skurðlækni og Valtý Bjarnason svæfingalækni vestur í Dali til að skera upp konu sem var of veik til að hægt væri að fljúga með hana suður. „Höfðu þeir meðferðis blóð, súrefnistæki, svæfingatæki og annað sem þurfti til uppskurðar,“ að sögn Morgunblaðsins. Lent var á Breiðabólsstað á Fellsströnd og farið beint að Staðarfelli, þar sem konan var. Eftir meira en tveggja tíma uppskurð var konan flutt flugleiðis til Reykjavíkur. „Lánaðist aðgerðin vel og líður konunni eftir vonum,“ sagði í Tímanum daginn eftir.Dreymdi fyrir flugslysi

Björn Pálsson var 65 ára þegar hann fórst með flugvél sinni, Vorinu, þann 26. mars 1973, eða fyrir fimmtíu árum, á leiðinni frá Akureyri til Reykjavíkur eftir vinnuferð þangað norður. Hann var ekki að fljúga í það skiptið en sat í farþegasæti. Með Birni fórust flugmaður hans og þrír samverkamenn frá Flugmálastjórn.

Skúli Jón Sigurðarson: „Dagurinn 26. mars 1973 er mér ennþá mjög óþægilega minnisstæður. Ég var nýkominn í vinnuna og sat við skrifborðið á 3. hæð í byggingu flugturnsins á Reykjavíkurflugvelli og dyrnar voru opnar fram á ganginn. Haukur heitinn Claessen, flugvallastjóri og varaflugmálastjóri, kemur greinilega á hraðferð inn ganginn og átti erindi við mann sem var í skrifstofu sinni innar á ganginum. Haukur heilsaði mér og sagði: „Við sjáumst seinna í dag!“ Ég vissi að hann átti 55 ára afmæli þennan dag og að hann hafði boðið okkur starfsfólkinu til tertuveislu með síðdegiskaffinu í kaffistofunni á 2. hæð.

Þegar hann skömmu seinna hefur snúið til baka og gengur fram ganginn lítur hann inn til mín aftur og segir: „Mig dreymdi í nótt, að það yrði flugslys í dag!“ Ég vissi að hann var að fara skotferð til Akureyrar og sagði eitthvað á þessa leið: „Heldurðu að það sé rétt að fljúga í dag?“ Þá sagði hann: „Mig dreymir nú varla fyrir mínu eigin flugslysi!“ Mér varð hálfilla við þetta. Ég vissi að Haukur, sem ég þekkti vel og mat mikils, var berdreyminn, en hann hafði sagt mér frá því þegar hann dreymdi stundum fyrir um ókomna atburði svo sem flugslys.

Hið hörmulega flugslys, þegar TF-VOR fórst í Búrfjöllum norðan Langjökuls, varð svo seinni partinn þennan dag. Ég sat við skrifborð mitt rétt fyrir klukkan þrjú og var um það bil að fara niður í kaffistofu í tertuveisluna, þegar Sveinn Björnsson snaraðist fölur inn til mín og sagði: „Ég hef áhyggjur af honum pabba - ég frétti frá einum flugmanni okkar, sem var að lenda, að það væri mjög mikil ísing í lofti þarna og ég bað flugstjórn um skilaboð til þeirra að þeir skyldu snúa við. Þeir kvittuðu fyrir, en síðan er ekkert samband við flugvélina!"