Rússneskur floti Úkraínumönnum tókst að eyðileggja rússneska herskipið Nóvótsérkassk sem var í höfn í borginni Feódósíu á Krímskaga.
Rússneskur floti Úkraínumönnum tókst að eyðileggja rússneska herskipið Nóvótsérkassk sem var í höfn í borginni Feódósíu á Krímskaga. — AFP
Rússar hafa viðurkennt að árás Úkraínumanna í gær hafi skemmt herskip þeirra sem var í höfn í borginni Feódósíu á Krímskaga. Sögðust Úkraínumenn hafa eyðilagt skipið Nóvótsérkassk en liðsmenn hersveita Úkraínu töldu að svokallaðir…

Anna Rún Frímannsdóttir

annarun@mbl.is

Rússar hafa viðurkennt að árás Úkraínumanna í gær hafi skemmt herskip þeirra sem var í höfn í borginni Feódósíu á Krímskaga. Sögðust Úkraínumenn hafa eyðilagt skipið Nóvótsérkassk en liðsmenn hersveita Úkraínu töldu að svokallaðir Shahed-árásardrónar Rússa, sem þeir hafa notað til árása á úkraínskar borgir, væru um borð í skipinu.

Árás frá óvininum

Í Feódósíu á Krímskaga er stór flotastöð Rússa en Úkraínumenn hafa heitið því að ná Krímskaga aftur á sitt vald eftir að Rússar innlimuðu hann árið 2014. Sagði Volodimír Selenskí forseti Úkraínu á samfélagsmiðlum að skipið væri nú hluti af rússneskum neðansjávarflota Svartahafs en Sergei Aksjónov, leiðtogi Rússa á Krímskaga, sagði í yfirlýsingu í gær að óvinurinn hefði gert árás í borginni.

Aksjónov sagði að hafnarsvæðið hefði verið girt af og að íbúar nokkurra húsa yrðu fluttir á brott. Samkvæmt heimildum úr rússneska varnarmálaráðuneytinu voru það flugskeyti sem ollu eyðileggingunni. Myndbönd sem birt voru á samfélagsmiðlum sýndu eld á hafnarsvæðinu og á þeim mátti heyra háværar sprengingar.

Þá var einnig haft eftir Aksjónóv að einn maður hefði verið drepinn og tveir hefðu særst í árásinni auk þess sem skemmdir hefðu orðið á sex byggingum á svæðinu, aðallega vegna þess að fjölmargar rúður hefðu brotnað.

Yfirráðum Rússa mótmælt

Í kjölfar árásarinnar vakti varnarmálaráðherra Bretlands Grant Shapps athygli á henni í færslu á samfélagsmiðlinum X.

„Þessi nýjasta eyðilegging á sjóher Pútíns sýnir að þeir sem trúa því að það sé pattstaða í Úkraínustríðinu hafa rangt fyrir sér. Þeir hafa ekki tekið eftir því að undanfarna fjóra mánuði hafa 20% af Svartahafsflota Rússa verið eyðilögð,“ skrifaði hann og bætti því einnig við að nú hefði yfirráðum Rússa á Svartahafi verið mótmælt.

Höf.: Anna Rún Frímannsdóttir