Aflaskip Bárður SH er á dragnót.
Aflaskip Bárður SH er á dragnót. — Morgunblaðið/Alfons Finnsson
Þótt hátíð væri létu nokkrir harðsæknir sjómenn slíkt ekki koma í veg fyrir að róa í gær, á öðrum degi jóla. Fáeinir bátar voru á vesturmiðum, svo sem út af Arnarfirði og aðrir á Breiðafirði. Á Fláka rétt suður af Látrabjargi var dragnótabáturinn Bárður SH 81

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Þótt hátíð væri létu nokkrir harðsæknir sjómenn slíkt ekki koma í veg fyrir að róa í gær, á öðrum degi jóla. Fáeinir bátar voru á vesturmiðum, svo sem út af Arnarfirði og aðrir á Breiðafirði. Á Fláka rétt suður af Látrabjargi var dragnótabáturinn Bárður SH 81. „Núna síðdegis erum að detta í níu tonnin. Þetta er stór og góður þorskur sem kallað var eftir svo hægt væri að setja vinnslu af stað milli hátíða. Við fórum út klukkan fimm í nótt og komum inn einhvern tíma þegar líða tekur á kvöld,“ sagði skipstjórinn Pétur Pétursson yngri í samtali við Morgunblaðið síðdegis. Þá var blíðuveður á Breiðafirði; vindur um 5 m/sek.

„Áhuginn er mikill og aflabrögðin góð. Aldrei stóð annað til en að róa í dag. Við erum sex í áhöfn og strákarnir vissu með margra mánaða fyrirvara að við færum út á í annan í jólum,“ sagði Pétur.

Stóru útgerðarfyrirtækin senda nokkur sinna skipa á sjó nú milli hátíða. Akurey RE togari Brims átti að fara út nú síðla nætur skv. vef Faxaflóahafna. Þá fara Samherjaskipin fyrir norðan á miðin á næstu sólarhringum og ná í hráefni svo vinnsla í landi geti hafist strax eftir nýár. sbs@mbl.is