Það voru óvenjumörg forstjóraskipti hjá skráðum félögum á þessu ári. Strax í byrjun janúar var tilkynnt að Helgi Bjarnason, forstjóri VÍS, hefði látið af störfum hjá félaginu eftir tæp sex ár í starfi, samhliða því sem stjórn VÍS hefði markað sér…

Það voru óvenjumörg forstjóraskipti hjá skráðum félögum á þessu ári. Strax í byrjun janúar var tilkynnt að Helgi Bjarnason, forstjóri VÍS, hefði látið af störfum hjá félaginu eftir tæp sex ár í starfi, samhliða því sem stjórn VÍS hefði markað sér nýja stefnu um „ákveðin kaflaskil í rekstri félagsins“, eins og það var orðað. Guðný Helga Herbertsdóttir, framkvæmdastjóri sölu og þjónustu, tók tímabundið við starfinu en mánuði síðar var tilkynnt um samrunaviðræður milli VÍS og Fossa fjárfestingarbanka.

Helgi S. Gunnarsson, forstjóri Regins, óskaði eftir því um miðjan febrúar að láta af störfum. Hann hafði þá gegnt starfi forstjóra frá stofnun félagsins árið 2009. Í lok mars var tilkynnt að Halldór Benjamín Þorbergsson myndi láta af störfum sem framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, eftir sjö ár í því starfi, og taka við starfi forstjóra Regins um sumarið.

Eftir að hafa gegnt starfinu í tæp 15 ár lét Birna Einarsdóttir af störfum sem bankastjóri Íslandsbanka í lok júní í kjölfar sáttar bankans við Fjármálaeftirlit Seðlabankans, eins og fjallað er um hér á opnunni. Jón Guðni Ómarsson, sem hafði gegnt stöðu fjármálastjóra frá 2011, var ráðinn bankastjóri í kjölfarið.

Marinó Örn Tryggvason lét af störfum sem forstjóri Kviku undir lok ágúst. Hann lét af störfum að eigin frumkvæði eftir að hafa starfað sem forstjóri í rúm fjögur ár. Ármann Þorvaldsson, þá aðstoðarforstjóri, tók við starfinu af Marinó. Marinó Örn hefur þó ekki setið auðum höndum frá því að hann lét af störfum. Hann er í dag stjórnarformaður Mílu og Gallons (dótturfélags Skeljar fjárfestingafélags).

Bjarni Ármannsson lét af störfum sem forstjóri Iceland Seafood í lok september eftir að hafa gengt starfinu í um fimm ár. Ægir Páll Friðbertsson, sem þá hafði starfað sem framkvæmdastjóri Brims í um fimm ár, tók við starfinu af honum. Samhliða því var tilkynnt að Sjávarsýn, fjárfestingarfélag í eigu Bjarna, hefði selt allan hlut sinn í Iceland Seafood, um 10,8% hlut, til Brims.

Yngvi Halldórsson, forstjóri Sýnar, gerði um miðjan október samkomulag við stjórn félagsins um starfslok. Hann hafði þá aðeins gegnt starfinu í rúmt ár, eftir að hafa starfað áður sem framkvæmdastjóri rekstrarsviðs. Páll Ásgrímsson, framkvæmdastjóri lögfræðisviðs, var tímabundið ráðinn forstjóri en nýr forstjóri hefur ekki enn verið ráðinn.

Eins og fjallað er um hér á opnunni lét Árni Oddur Þórðarson af störfum sem forstjóri Marels í byrjun nóvember, eftir að hafa gegnt starfinu í tíu ár. Árni Sigurðsson tók við starfinu, fyrst tímabundið en var fastráðinn nú fyrr í desember. Hann var áður aðstoðarforstjóri félagsins.

Þá tilkynnti Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita, nú um miðjan desember að hann hygðist láta af störfum sem forstjóri að loknum aðalfundi í mars nk. Hann hefur þá gegnt starfinu í tæp 14 ár.