Ólafur Tryggvason fæddist í Vestmannaeyjum 5. desember 1939. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands í Vestmannaeyjum 16. desember 2023.

Foreldrar Ólafs voru hjónin Tryggvi Ólafsson málarameistari frá Garðhúsum, f. 8. ágúst 1911, d. 9. apríl 1985, og Þórhildur Stefánsdóttir frá Gerði, húsfreyja, f. 19. mars 1921, d. 20. september 2011.

Bræður Ólafs voru Stefán Þór málarameistari, f. 21. apríl 1944 á Helgafellsbraut 20, d. 19. júní 2015 á Landspítalanum og Sævar málarameistari, f. 1. júní 1947 á Helgafellsbraut 20, d. 26. ágúst 2005.

Ólafur var tvíkvæntur.

Eftirlifandi eiginkona Ólafs er Sigurveig Júlía Tryggvadóttir húsfreyja, f. 29. október 1951. Þau gengu í hjónaband 20. maí 1989.

Dóttir þeirra er Þórhildur, íþróttafræðingur og kennari, f. 9. september 1990, maður hennar Jonathan R. Glenn, f. 27. ágúst 1987, saman eiga þau dótturina Amelíu Grace, f. 23. ágúst 2019.

Fyrir á Júlía soninn Tryggva Má Sæmundsson, útflutningsstjóra Leo Fresh Fish í Eyjum, f. 26. apríl 1976, kona hans Arnbjörg Harðardóttir, f. 25. febrúar 1978, saman eiga þau dótturina Hrafntinnu, f. 13. desember 2014. Fyrir á Arnbjörg dótturina Birtu Lóu, f. 2. maí 2002.

Fyrri kona Ólafs var Kristín Ester Sigurðardóttir frá Vatnsdal, húsfreyja, f. 5. febrúar 1939, d. 11. maí 1988. Þau gengu í hjónaband 30. desember 1961.

Börn Ólafs og Kristínar Esterar eru:

1. Tryggvi Þór, vélvirki hjá Marel, f. 11. febrúar 1958, kona hans er Brynhildur Baldvinsdóttir, f. 28. september 1958 og eiga þau tvö börn: a) Ólaf Aron, f. 17. júlí 1987, sambýliskona hans er Rakel Ingvarsdóttir, f. 8. ágúst 1994, saman eiga þau soninn Tryggva Berg, f. 27. ágúst 2022. Fyrir á Rakel dótturina Birnu, f. 23. ágúst 2018. b) Bergnýju Eddu, f. 13. október 1992.

2. Sigurður Ómar, iðnverkamaður hjá Marel, f. 16. október 1962, kona hans er Sædís Steingrímsdóttir, f. 17. nóvember 1970, saman eiga þau soninn Sæþór Dalmann, f. 28. ágúst 2009.

3. Linda Björk næringarráðgjafi, f. 18. september 1973, maður hennar Hjalti Jónsson, f. 8. mars 1979, og eiga þau þrjá drengi: a) Jón Jökul, f. 9. apríl 2001, b) Ólaf Dan, f. 23. júlí 2005 og c) Kristian Þór, f. 5. ágúst 2008.

Ólafur stundaði sjómennsku á unglingsárum. Hann nam málaraiðn hjá föður sínum 1957-1961, lauk prófi í Iðnskólanum 1963 og sveinsprófi 18. mars 1967. Hann fékk meistarabréf afhent 1. nóvember 1970 og starfaði lengst af sem húsmálari. Ólafur bjó alla sína tíð í Vestmannaeyjum að undanskildum stuttum tíma vegna eldgossins á Heimaey 1973.

Útför Ólafs verður gerð frá Landakirkju í Vestmannaeyjum í dag, 27. desember 2023, kl. 13.

Elsku besti pabbi minn, sem öllum var svo kær, lést 16. október síðastliðinn eftir erfið veikindi. Þær voru erfiðar fyrstu vikurnar í desember, eftir að ég hafði fengið símtalið um það að nú væri útlitið svart og að heilsu þinni hefði hrakað verulega. Þó svo að þú hefðir lengi vel barist við hina ýmsu sjúkdóma og heilsukvilla þá náðir þú einhvern veginn alltaf að lenda á báðum fótum og sigrast á því sem herjaði á þig. Með jákvæðni, dugnaði, elju og heilsusamlegum venjum tókst þér að sigrast á þeim veikindum sem höfðu bankað upp á hver á fætur öðrum í um áratug. Því vorum við fjölskyldan orðin því vön að hörkutólið þú myndir ekki láta neitt stoppa þig.

En svo kemur sá tími að álagið á líkama og sál er orðið of mikið. Það er afar erfitt að fylgjast með einstaklingi sem þú elskar svo heitt glíma við fjölþátta langvinna sjúkdóma sem tæta sálarlíf viðkomandi. Síðastliðin ár átti ég þá ósk heitasta að þú myndir sigra í þinni baráttu, elsku pabbi minn. En í stað þess þá neyðist ég til þess að kveðja þig með miklum trega og sorg í hjarta því ég er, jú, litla stelpan þín.

Við pabbi áttum alltaf einstakt samband enda hef ég alltaf verið mikil pabbastelpa. Hann hafði einstaka nærveru og veitti manni alla sína athygli í því sem við vorum að gera hverju sinni. Sem barn á ég aragrúa minninga af pabba enda vorum við alltaf að sýsla eitthvað saman. Þegar við fórum að gefa kindunum og hestunum, fjöruferðirnar í Brimurðina, pylsupartíin í Klaufinni og göngutúrarnir suður á eyju, öll laugardagskvöldin sem fóru í það að teikna eða spila og ég tala nú ekki um öll ferðalögin til útlanda, sumarbústaðar-, báts- og veiðiferðirnar. Þá varstu alltaf boðinn og búinn þegar kom að íþróttaiðkun minni en þú lést þig aldrei vanta, hvort sem það vantaði fararstjóra, rútubílstjóra eða annað. Allt þetta eru minningar sem munu ylja mér um hjartarætur nú þegar þú ert farinn.

Ég verð þér ævinlega þakklát fyrir þá æsku sem þú gafst mér og alla þá ást, umhyggju og stuðning sem þú hefur ávallt sýnt mér, elsku besti pabbi minn. Þá var samband þitt við dóttur mína, litlu afastelpuna þína, einnig einstakt og er ég einnig þakklát fyrir ykkar samband og þín áhrif á hennar æsku. Hún hefur frá því að hún kom í þennan heim haldið mikið upp á afa sinn og mun alltaf gera.

Við eigum minningar um brosið bjarta,

lífsgleði og marga góða stund,

um mann sem átti gott og göfugt hjarta

sem gengið hefur á guðs síns fund.

Hann afi lifa mun um eilífð alla

til æðri heima stíga þetta spor.

Og eins og blómin fljótt að frosti falla

þau fögur lifna aftur næsta vor.

(Guðrún Vagnsdóttir.)

Við trúum því vart að þú sér farinn okkur frá og mun það taka einhvern tíma að venjast tilhugsuninni að þú sért ekki hér. Ég mun alltaf geyma þig í hjarta mér hvert sem ég fer, elsku engillinn minn.

Þín dóttir,

Þórhildur Ólafsdóttir.

Elsku besti pabbi minn.

Líf mitt verður aldrei eins án þín. Þú varst mér svo mikils virði. Þú varst kletturinn minn og hetjan í mínu lífi alla tíð. Einstakur pabbi, svo ofur hlýr og góður sem kenndi mér svo margt um lífið og tilveruna. Viskubrunnur þinn var óþrjótandi um náttúruna og dýrin sem þú elskaðir svo heitt. Þú varst alltaf til staðar fyrir mig þegar ég þurfti á þér að halda – og oft þegar ég vissi það ekki einu sinni sjálf.

Ég ylja mér við allar góðu minningarnar sem við náðum að skapa saman. Sunnudagsgöngutúrana okkar um fjörur og fjöll Heimaeyjar. Þar sem þú þuldir upp nöfnin á öllum úteyjunum og hvað einkenndi þær hverja og eina. Um dýralífið, náttúruna og fiskimiðin, sem þú varst sérfræðingur í. Veiðiferðirnar, hvort sem það var á trillunni þinni Venus, lundaveiði í Elliðaey, silungsveiði í Skorradalsvatni eða öðrum vötnum landsins.

Þú hafðir ótrúlegt aðdráttarafl á bæði manneskjur og dýr. Sérstaklega barngóður og afar umhyggjusamur við alla þína nánustu. Ævintýrin sem ég upplifði með þér í barnæsku, fékk mín eigin fjölskylda að kynnast eftir að ég varð fullorðin. Afastrákarnir þínir, þeir Jón Jökull, Ólafur Dan og Kristian Þór dýrkuðu þig og dáðu frá fyrstu kynnum. Enda einstakur afi, sem var hugulsamur og fullur af áhuga um líf þeirra og áhugamál.

Ef hægt er að kalla einhvern gull af manni þá varst það þú. Það held ég að flestir sem kynntust þér geti staðfest. Þú varst eiginmanni mínum frábær fyrirmynd á svo mörgum sviðum lífsins.

Elsku tengdapabbi, ég mun verða þér ævinlega þakklátur fyrir allar þær stundir sem við áttum saman og allt það sem þú hefur kennt mér og minni fjölskyldu í gegnum árin.

Af öllum þeim mannkostum sem þú hafðir að geyma þykir mér einna aðdáunarverðast hvernig þú lagðir þig allan fram við að mynda djúpstæð tengsl við barnabörnin, sem ég tel vera eina fallegustu gjöf sem þú hefur gefið okkur sem eftir standa. Með þinni einskæru einlægni, virðingu og hjartahlýju hefur þú skapað ótal góðar minningar og gildi sem er ómetanlegt veganesti út í lífið fyrir afkomendur þína. Þessar minningar eru okkur huggun í sorginni.

Við viljum þakka starfsfólki sjúkrahússins í Vestmannaeyjum fyrir einstaklega góða umhyggju og hlýju í þinn garð. Þú varst þeim alltaf svo þakklátur fyrir alla umönnunina og virðinguna sem þau sýndu þér.

Megi þú hvíla í friði heimsins besti pabbi, tengdapabbi og afi. Við þökkum þér ekki aðeins fyrir það sem þú hefur kennt okkur eða gefið okkur, heldur einfaldlega fyrir að vera þú – það er bara eitt eintak af þér.

Með ást þinni kenndir þú mér að elska.

Með trausti þínu kenndir þú mér að treysta.

Með örlæti þínu kenndir þú mér að gefa.

Með styrk þínum kenndir þú mér þrautseigju.

Þín dóttir og tengdasonur,

Linda Björk
og Hjalti.

Elsku afi Olli.

Þú varst fyrirmynd okkar allra og við söknum nú þegar allra þeirra góðu stunda sem við fengum saman. Hvort sem það var úti í náttúrunni sem þú dýrkaðir, eða bara heima i rólegheitum þá nutum við hlýlegrar nærveru þinnar og lífsgleðin þín skein alltaf í gegn.

Í hvert einasta skipti sem við mættum til Eyja tókst þú heilu dagana í að sýna okkur eyjuna og við vorum alltaf svo spenntir að hitta afa og sjá hvaða fjör væri á dagskránni í þetta skiptið. Þú tókst okkur í veiðiferðir á trillunni, í pysjuleit og sýndir okkur dönsku vörðuna sem þú bjóst til fyrir okkur á gönguleiðinni þinni við Brimurð.

Þú sýndir okkur fuglasafnið þitt og á meðan hlustuðum við á allar góðu sögurnar þínar. Þegar við vorum í Danmörku sýndir þú líka alltaf mikinn áhuga á lífi okkar og vildir vita allt sem gerðist i boltanum hjá okkur. Þú hafðir það fyrir hefð að senda okkur öllum áletraðan bikar þegar við skoruðum okkar fyrsta mark. Allar þessar minningar eru alveg einstakar og sýna hversu mikinn kærleika þú sýndir öllum þínum barnabörnum. Þú varst alveg einstakur afi og við erum svo stoltir og þakklátir að þú varst afi okkar. Við munum bera það með okkur að eilífu.

Jón Jökull, Ólafur Dan og Kristian Þór.

Elsku besti afi. Ég mun alltaf geyma í hjarta mér þær góðu stundir sem við áttum saman. Allar fjöruferðirnar, allar teikningarnar sem við gerðum saman. Máluðum á steina sem eiga sinn stað í fjörunni. Nú, eða að leika með Perlu sem gaf okkur báðum svo mikið.

Ég mun sakna þín, elsku afi. Þú munt alltaf eiga stað í hjarta mínu, kæri afi. Takk fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig.

Afi minn góði sem guð nú fær,

hann gerði svo mikið,

hann gerði svo margt

og því miður get ég ekki nefnt það allt.

Að tala við hann var svo gaman

á þeim stundum sem við
eyddum saman

Hann var svo góður, hann var
svo klár

æ, hvað þessi söknuður er sár.

En eitt er þó víst

og það á við um mig, ekki síst,

að ég sakna hans svo mikið, ég
sakna hans svo sárt

hann var mér góður afi, það er
klárt.

En alltaf í huga mínum verður hann

afi minn góði sem ég ann.

Í himnaríki fer hann nú

þar verður hann glaður, það er mín trú.

Því þar getur hann vakið yfir okkur dag og nótt

svo við getum sofið vært og rótt.

Hann mun ávallt okkur vernda,

vináttu og hlýju mun okkur senda.

Elsku afi, guð mun þig geyma

yfir okkur muntu sveima.

En eitt vil ég þó að þú vitir nú

minn allra besti afi, það varst þú.

Þín

Hrafntinna.

Í dag kveðjum við félaga okkar úr Veiðifélagi Elliðaeyjar, Ólaf Tryggvason eða Olla málara eins og við kölluðum hann.

Það eru tæp fjörutíu ár síðan ég kynntist Olla málara þegar ég gerðist félagi í Veiðifélagi Elliðaeyjar. Var svo heppinn að dvelja með Olla við lundaveiðar og eggjatöku í Elliðaey. Það kom fyrir oftar en einu sinni að við félagarnir vorum aðeins tveir úti í eyju (Elliðaey) við lundaveiðar, yndislegir tímar sem gott er að rifja upp núna því Olli hafði svo góða nærveru. Þessir tímar við lundaveiðar í Elliðaey og samverustundir í veiðihúsinu eru ómetanlegar og minningarnar hlaðast upp þegar komið er að kveðjustundinni. Olli var veiðimaður af guðs náð, hvort sem var við lundaveiðar, skotveiði eða fiskveiðar. Hann var svo sannarlega veiðimaður í eðli sínu. Til dæmis á hann safn af fuglaafbrigðum, sem einstakt er, og er til varðveislu á Byggðasafni Vestmannaeyja. Þegar haldið var til lundaveiða í Elliðaey var veðuráttin tekin ásamt flugi lundans og lundaveiðistaðurinn valinn eftir því. Sjaldnast er um marga veiðistaði að ræða þar sem von er á lundaveiði og samkeppni um þá fáu veiðistaði sem koma til greina ef margir lundaveiðimenn voru í eynni. Hvernig sem á því stóð, þá sóttist Olli ekkert eftir því að ná bestu veiðistöðunum. Hann sagði oftast: „Peyjar, þið veljið ykkur veiðistaðina en ég fer á eitthvert rölt um eyna með lundaháfinn, hafið ekki áhyggjur af mér.“ Síðan fór hann með háfinn, eina veifu eða poka ásamt appelsínu eða öðru litlu nesti eitthvað út á eyju. Í lok dags, þegar lundaveiðin var gerð upp, þá kom það ekki fyrir, heldur alltaf, að Olli væri með mestu veiðina. Svona var Olli veiðimaður.

Eitt sinn þegar við vorum aðeins tveir úti í Elliðaey við lundaveiðar kom svo gott veður, já það koma stundum mjög góð veður í Vestmannaeyjum, blankalogn, sól og hiti. Í þannig veðri heldur lundinn sér á sjónum og er ekkert að fljúga og þar af leiðandi ekki hægt að stunda lundaveiðar. Olli kemur með þá hugmynd að fara með veiðistöng austur á Stampa og renna fyrir fisk. Við skiptumst á að veiða. Það skal tekið fram að ég fékk ekki einn einasta fisk en Olli veiddi náttúrlega nokkra. Um var að ræða karfa, sem síðan um kvöldið var kryddaður og steiktur á pönnu a la Olli málari, þvílík veisla í veiðihúsinu í Elliðaey!

Olla þakka ég allar góðu samverustundirnar og votta aðstandendum hans mína dýpstu samúð.

Ívar Atlason.

Elsku hjartans vinur okkar hjóna er búinn að fá hvíldina frá veikindum og þjáningum. Að kynnast öðrum eins öðlingi og Ólafi Tryggvasyni og hans konu eru forréttindi. Þau hjónin hafa búið í Vestmannaeyjum allan sinn búskap. Við kynntumst þeim á Kanaríeyjum og skemmtum okkur ávallt þar saman. Við konurnar náðum strax vel saman og ekki síður strákarnir okkar eins og við kölluðum þá. Vinátta okkar hélt síðan áfram að þróast síðastliðin ár með tíðum heimsóknum þeirra hjóna til okkar upp á meginlandið. Þessi stopp þeirra hjóna voru okkur mjög kær þótt þau voru ekki endilega löng. Þessum heimsóknum fylgdu að sjálfsögðu frábærar sögur frá honum Olla eins og sönnum Vestmannaeyingi sæmir. Olli var mikið náttúrubarn og tók vel eftir í kringum sig, bæði fuglum og öðrum dýrum.

Okkur hjónunum fannst ákaflega gaman að kíkja í heimsókn til þeirra í Vestmannaeyjum. Tekið var á móti okkur eins og við værum börn þeirra hjóna með dýrindis mat, rjómatertum, heitum réttum og allskonar drykkjum sem voru á boðstólum. Ekki má gleyma öllum bílferðunum um eyjuna fögru. Öll kennileiti sagði hann okkur og alls staðar hafði hann gengið um með vinkonu sinni, henni Perlu.

Takk fyrir allar góðu og skemmtilegu stundirnar sem við höfum átt saman. Góðar minningar eigum við frá því í haust og erum þakklát fyrir að þú hafðir heilsu til að sjá hjá okkur þar sem við vorum að brölta upp í Seli og góðu ráðin sem þú hafðir fyrir okkur um efni til að fúaverja, mála og ráðleggingar um lekann á glerinu. Algjör öðlingur sem þú varst á svo mörgum sviðum, elsku Olli.

Takk fyrir allt kæri vinur og góða ferð í sumarlandið.

Kær kveðja,

Sigríður og Sigmar
á Selfossi.