Efnahagsárið 2023 einkenndist af mikilli verðbólgu, háu vaxtastigi, hægari hagvexti og kröftugri einkaneyslu fyrri hluta árs en síðan dró úr henni þegar leið á árið. Í byrjun árs mældist verðbólgan 9,9 prósent og rauf tveggja stafa múrinn í febrúar þegar hún mældist 10,2 prósent

Efnahagsárið 2023 einkenndist af mikilli verðbólgu, háu vaxtastigi, hægari hagvexti og kröftugri einkaneyslu fyrri hluta árs en síðan dró úr henni þegar leið á árið.

Í byrjun árs mældist verðbólgan 9,9 prósent og rauf tveggja stafa múrinn í febrúar þegar hún mældist 10,2 prósent. Verðbólgan mældist lægst 7,6% í júlí, fór síðan aðeins upp á ný en nýjar verðbólgutölur sem birtar voru í síðustu viku sýna að verðbólgan er komin niður í 7,7%. Þó ber að hafa í huga að mikil óvissa er fram undan í tengslum við kjarasamningana.

Í byrjun árs voru stýrivextir 6% en eru nú í 9,25% og telja greiningaraðilar líklegt að þeir hafi náð hámarki. Í síðustu tveimur vaxtaákvörðunum ákvað Seðlabankinn að halda vöxtum óbreyttum.

Hagvöxtur mældist kraftmikill í byrjun árs og var hann að mestu leyti keyrður áfram af ferðaþjónustunni og kröftugri einkaneyslu. Nýjustu tölur sýna að hægt hefur á einkaneyslu og þó að tölur yfir hagvöxt á árinu hafi ekki verið birtar þegar þetta er ritað þá búast greiningaraðilar við að hann verði í kringum 3%.

Erfiðlega hefur gengið að ná verðbólguvæntingum niður en í byrjun árs var verðbólguálag á skuldabréfamarkaði til næstu tveggja ára um 5%, toppaði í kringum 7% á fyrri hluta árs og enda árið í tæplega 6%. Verðbólguálag á skuldabréfamarkaði til lengri tíma, þ.e. til fimm ára, til tíu ára og til fimm ára eftir fimm ár endaði árið á mjög svipuðum stað og það var í byrjun árs.

Greinendur sem ViðskiptaMogginn ræddi við eru á einu máli um að verðbólgan á árinu hafi reynst mun þrálátari en þeir gerðu ráð fyrir.

Aðlögunin verið hraðari

Kári S. Friðriksson, hagfræðingur hjá Arion banka, segir að verðbólguþróunin hafi komið sér á óvart.

„Það hefur verið merkilegt hvað einkaneyslan hefur verið sterk framan af miðað við hversu háir stýrivextir hafa verið, þó svo að þróunin sé að snúast við núna. Það er meðal annars það sem hefur gert verðbólguna erfiða viðureignar,“ segir Kári.

Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, segir að aðlögunin í hagkerfinu hafi verið heldur hraðari en gert var ráð fyrir í ársbyrjun. Hagvöxtur ætli að reynast nokkru minni en spáð var þrátt fyrir að útflutningurinn vaxi í takt við væntingar. Viðsnúningurinn í einkaneyslunni hafi verið öllu skarpari og fjárfesting heldur minni en vænt var, ekki síst í íbúðarhúsnæði.

„Þótt hagvöxturinn hafi reynst heldur minni og krónan aðeins sterkari en við spáðum í ársbyrjun hefur verðbólga þó reynst öllu þrálátari. Þar vegur þyngst að laun hafa hækkað nokkru meira en við væntum og verðbólga erlendis var meiri framan af ári. Það hefur svo leitt til meiri hækkunar stýrivaxta en við bjuggumst við í byrjun þessa árs,“ segir Jón Bjarki.

Hjalti Óskarsson, hagfræðingur í Hagfræðideild Landsbankans, segir að stóra myndin í hagkerfinu sé í takt við spár Landsbankans í ársbyrjun.

„Hagkerfið hefur kólnað eftir því sem á árið hefur liðið, útflutningur að sama skapi tekið við sem meginaflvaki vaxtar en verðbólgan reynst þrálát og vaxtastigið hækkað umtalsvert á árinu. Árið er ekki alveg búið, og mælingar fyrir hagvöxt á fjórða ársfjórðungi liggja ekki fyrir, en það er gaman að fara yfir það helsta sem komið er á árinu,“ segir Hjalti.

Verðbólgan muni hjaðna

Óhætt er að segja að mikil óvissa sé uppi um þessar mundir. Kjaraviðræður eru fram undan og óvíst er um áhrif jarðhræringa á Reykjanesskaga.

Greinendur sem ViðskiptaMogginn ræddi við eru á einu máli um að verðbólgan muni hjaðna á næsta ári en benda þó á kjarasamningana sem óvissuþátt. Þeir eru jafnframt sammála um að hægja muni á hagvexti en það verði þó ekki samdráttur.

Kári segir að hann telji að það muni hægja verulega á hagkerfinu, einkum þegar kemur að einkaneyslu.

„Ég tel ljóst að heimilin muni halda að sér höndum. Við erum farin að sjá það nú þegar að fólk er að draga úr sinni neyslu. Sem dæmi þá sjáum við að á leitarvélum er fólk minna að leita að orðum sem tengjast ferðalögum og bílasölu en það er oft það fyrsta sem fólk dregur úr.“

Kári bendir á að á þessu ári hafi raunstýrivextir orðið jákvæðir í fyrsta sinn í langan tíma.

„Það þýðir að nú eru stýrivextirnir farnir að bíta. Þeir eru nú yfir 2 prósent, en það fer eftir á hvaða mælikvarða maður horfir.“

Spurður hvaða áhrif jarðhræringarnar á Reykjanesskaga hafi í efnahagslegu tilliti segir hann ólíklegt að þær hafi teljandi áhrif.

„Ég tel að jarðhræringarnar hafi ekki teljandi efnahagsleg áhrif nema einhver breyting verði á.“

Betra jafnvægi á næsta ári

Jón Bjarki segir að búast megi við að á næsta ári verði betra jafnvægi í hagkerfinu en verið hefur síðustu árin.

„Við búumst við því að hagvöxtur verði hægur framan af ári en taki nokkuð við sér þegar lengra líður á árið og verði 2,6% á árinu 2024 í heild. Útflutningurinn, sér í lagi ferðaþjónustan, verður ein helsta undirstaða vaxtar en eftirspurnarvöxtur innanlands tekur nokkuð við sér á ný síðar á árinu,“ segir Jón Bjarki og bætir við að íbúðamarkaður sé að komast í þokkalegt jafnvægi, verðbólga erlendis hafi hjaðnað hratt undanfarna mánuði og hann telji að krónan muni styrkjast fremur en hitt á árinu 2024.

„Útkoma kjarasamninga í upphafi árs mun slá tóninn fyrir hvernig þeir þættir þróast. Við erum þó vongóð um að verðbólga verði talsvert minni að jafnaði á komandi ári og spáum tæplega 5% verðbólgu í árslok 2024.“

Hjalti Óskarsson, hagfræðingur hjá Landsbankanum, segir að hann telji að hægja muni á flestum hliðum efnahagsins á næsta ári en þó geri Landsbankinn ráð fyrir vexti þótt hann verði minni en í ár.

„Í spánni gerum við ráð fyrir 2,1% hagvexti á næsta ári. Þar hafa háir stýrivextir mest áhrif sem við teljum að muni koma skýrar fram á næsta ári.“

Hjalti segir enn fremur að hann telji að verðbólgan muni hjaðna en stýrivextir hafi náð hámarki í 9,25% og að þeir muni ekki lækka fyrr en í kringum mitt næsta ár. Hann segir að erfitt sé að segja til um þróun íbúðaverðs næstu mánuði.

„Þrátt fyrir hátt vaxtastig hefur verið nokkur kraftur í eftirspurninni síðustu mánuði og ekki farið að bera á viðvarandi nafnverðslækkunum. Fyrstu kaupendum hefur fjölgað á síðustu mánuðum og hlýtur það að skýrast að einhverju leyti af fjölgun hlutdeildarlána. Einnig getur umræða um íbúðaskort og ónóga uppbyggingu hreyft við fólki. Óbreytt stýrivaxtastig í vetur og kaupmáttaraukning gætu líka haft áhrif á markaðinn.”