Páll Gunnar Pálsson, forstjóri SKE, hélt því fram að SKE hefði átt frumkvæði að rannsókninni. Það var þó ekki alveg þannig.
Páll Gunnar Pálsson, forstjóri SKE, hélt því fram að SKE hefði átt frumkvæði að rannsókninni. Það var þó ekki alveg þannig. — Morgunblaðið/Eggert
Morgunblaðið greindi frá því um miðjan apríl að Samkeppniseftirlitið (SKE) hefði krafið 30 sjávarútvegsfyrirtæki um ítarlegar upplýsingar um rekstur þeirra. Í daglegu tali var talað um veiðiferð SKE, en krafan um ­upplýsingarnar var hluti af…

Morgunblaðið greindi frá því um miðjan apríl að Samkeppniseftirlitið (SKE) hefði krafið 30 sjávarútvegsfyrirtæki um ítarlegar upplýsingar um rekstur þeirra. Í daglegu tali var talað um veiðiferð SKE, en krafan um ­upplýsingarnar var hluti af kortlagningu stjórnunar- og eignatengsla í sjávarútvegi, sem framkvæmd var að beiðni Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra. Fyrir þessa vinnu ætlaði matvælaráðuneytið að greiða SKE 35 m.kr. samkvæmt sérstökum verktakasamningi sem gerður var.

Sjávarútvegsfyrirtækin fengu erindi í byrjun apríl þar sem þeim var gefinn skammur tími til að veita þær upplýsingar sem SKE krafðist. Mörg fyrirtækjanna efuðust um lögmæti þessa og hvort að það að beita rannsóknarheimildum eftirlitsstofnunar í pólitískum tilgangi líkt og lagt var upp með stæðist lög. Aðeins eitt fyrirtæki, Brim, tók þó ákvörðun um að veita ekki þær upplýsingar sem krafist var. SKE lagði í kjölfarið dagsektir á Brim, 3,5 milljónir króna á dag, þar til kröfu eftirlitsins hefði verið svarað með fullnægjandi hætti.

Úrskurðarnefnd samkeppnismála komst þó um miðjan september að þeirri niðurstöðu að fella bæri ákvörðun SKE um dagsektirnar úr gildi. Í úrskurði nefndarinnar kom fram að verktakasamningur SKE við matvælaráðuneytið um að vinna að sérstakri úttekt gegn greiðslu samræmdist ekki hlutverki SKE.

Morgunblaðið greindi einnig frá því að Fiskistofa, Skatturinn og Seðlabankinn hefðu, ólíkt því sem fram kemur í fyrrnefndum samningi, ekki verið í samstarfi við SKE um úttektina. Forstjóri SKE og matvælaráðherra undirrituðu því samning þar sem í upphafi kom fram að úttektin færi fram í samstarfi við þessar stofnanir, þótt það væri ekki raunin. Þá kom einnig í ljós að matvælaráðuneytið hefði átt frumkvæði að úttektinni, en ekki SKE. Það stangast á við ummæli sem Páll Gunnar Pálsson, forstjóri SKE, hafði áður látið falla um málið.

Þá greindi Morgunblaðið einnig frá því að SKE hefði neitað að eyða eða skila gögnum sem útgerðarfélögin höfðu afhent eftirlitinu við hina ólöglegu úttekt. Rökin voru þau að umrædd gögn væru orðin „skjöl“ og leita þyrfti samþykkis þjóðskjalavarðar áður en ákvörðun yrði tekin um það hvernig farið væri með gögnin.