Sprettur Kirkja í sókn, segir Guðrún Karls Helgudóttir sem tók á rás í gærmorgun með skokkhópi úr Grafarvogi.
Sprettur Kirkja í sókn, segir Guðrún Karls Helgudóttir sem tók á rás í gærmorgun með skokkhópi úr Grafarvogi. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Sennilega er fátt meira hressandi en að byrja daginn á hlaupi. Veðrið var líka eins og best mátti verða þarna rétt fyrir hádegið; milt en svolítil snjókoma,“ segir Guðrún Karls Helgudóttir sóknarprestur í Grafarvogskirkju í Reykjavík

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Sennilega er fátt meira hressandi en að byrja daginn á hlaupi. Veðrið var líka eins og best mátti verða þarna rétt fyrir hádegið; milt en svolítil snjókoma,“ segir Guðrún Karls Helgudóttir sóknarprestur í Grafarvogskirkju í Reykjavík. Hún var í gær meðal nærri 50 þátttakenda í svonefndu Kirkjuhlaupi skokkhóps íþróttafélagsins Fjölnis, sem jafnan er tekið á öðrum degi jóla.

Lagt var upp frá kirkjunni í Grafarvogi og svo hlaupið milli kirkna í Árbæ og Breiðholti. Hörðustu hlaupararnir fóru einnig að Bústaðakirkju og þaðan í Grafarvog. Hringur þeirra var 17,5 km en vegalengdir annarra voru skemmri.

Á mbl.is í gær lýsti sr. Helga Soffía Konráðsdóttir, sóknarprestur við Háteigskirkju og prófastur í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra, því yfir að hún gæfi kost á sér í biskupskjöri sem fram undan er. Það sama gerir sr. Guðrún og því má segja að biskupsefnin hlaupi fram á sjónarsviðið.

„Ég elska að skíra börn, ferma, messa, veita fólki sálgæslu, gefa saman fólk og vera með fólki í gleði og harmi,“ segir sr. Helga Soffía sem kveðst munu áfram sinna prestsstörfum þótt til þess komi að hún verði kjörin biskup.

Gangurinn í væntanlegu biskupskjöri er að prestar og djáknar tilnefna allt að þrjá kandídata sem þeir gætu hugsað sér í embættið háa. Þau þrjú sem flestar tilnefningar fá verða svo í kjöri þar sem atkvæðisrétt hafa prestar, djáknar, fulltrúar í sóknarnefndum, kjörfulltrúar prestakalla og þau sem sæti eiga á Kirkjuþingi. Tilnefningar verða sendar inn dagana 1.-6. febrúar og kosið einum mánuði síðar.

„Já, ég er tilbúin ef ég fæ nægan fjölda tilnefninga. Kirkja í sókn, er meðal kjörorða minna,“ segir Guðrún sem þjónað hefur Grafarvogssöfnuði um langt árabil.