Árgangur 2013 af Dom Pérignon hefur fengið á bilinu 95 til 98 stig af 100 mögulegum hjá vínspekúlöntum.
Árgangur 2013 af Dom Pérignon hefur fengið á bilinu 95 til 98 stig af 100 mögulegum hjá vínspekúlöntum.
Það skemmtilegasta við hátíðisdaga ársins er að þeir eru okkur áminning um hve mikilvægt það er að gera endrum og sinnum alveg sérstaklega vel við sig í mat og drykk. Ég stend mig oft að því að gera mér að góðu hinn ljúfa hversdagslúxus en vera ekki …

Hið ljúfa líf

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Það skemmtilegasta við hátíðisdaga ársins er að þeir eru okkur áminning um hve mikilvægt það er að gera endrum og sinnum alveg sérstaklega vel við sig í mat og drykk.

Ég stend mig oft að því að gera mér að góðu hinn ljúfa hversdagslúxus en vera ekki nógu duglegur að taka matar- og drykkjarupplifunina upp á næsta stig; ýmist vegna fjárhagssjónarmiða eða vegna ósköp náttúrulegrar leti. Stundum er bara svo afskaplega auðvelt að liggja eins og skata uppi í sófa og panta eitthvað gott og hæfilega ódýrt heim að dyrum, frekar en að standa í því stússi að panta borð á spennandi veitingastað, ferðast þvert yfir bæinn og borga almennilegan pening fyrir alvöru sælkeramáltíð.

Gallinn við hversdagslúxusinn – svo góður sem hann er – er að hann skilur ekki mikið eftir sig. Með góðan grillborgara á diski, viskí í glasi og skemmtilega bíómynd á skjánum er ég sæll og sáttur miðpunktur alheimsins, en máltíðin stendur ekki beinlínis upp úr og telst varla eftirminnileg.

Ár matarupplifana

Eitt af áramótaheitunum í þetta skiptið er að heimsækja framúrskarandi veitingastaði með skipulögðum hætti og helst taka frá nokkuð háa upphæð mánaðarlega til að eyða í heimsklassamatarupplifun. Verandi búsettur í Bangkok um þessar mundir þarf þetta áramótaheit hvorki að vera svo dýrt né kalla á svo mikla fyrirhöfn. Hér í villtu og trylltu asísku ævintýraborginni eru samtals 179 veitingastaðir á lista Michelin, þar af 34 sem hafa fengið eina eða tvær stjörnur, og hjá þeim allra bestu má panta flókna og frumlega 20 rétta smakkseðla á þetta 20.000 kr. fyrir hvern gest. Uppi á Íslandi myndi það duga fyrir fjórum stórum ostapitsum frá Domino’s.

Ég er þegar byrjaður að hita upp fyrir ár eftirminnilegra matarupplifana með því að heimsækja bestu sushi-staðina í hverfinu mínu, og panta það sem Japaninn kallar „omakase“: smakkseðil þar sem kokkurinn ræður ferðinni, fær að sýna hvað hann kann og nota það besta hráefni sem völ er á þann daginn. Fyrst það er desember, og fyrst kampavín fer afskaplega vel með sushi, lét ég það eftir mér eitt skiptið að tæma flösku af Dom Pérignon árg. 2013; einu allrabesta og dýrasta kampavíni sem finna má í íslenskum vínbúðum.

Alla jafna geri ég mér að góðu mun ódýrara kampavín og þegar ég bjó í París fannst mér ómissandi að hafa tiltækar inni í ísskáp eina eða tvær flöskur á verðbilinu 30 til 50 evrur. Að fara hærra í verði hef ég ekki gert nema við sérstök tilefni, en þar með er ekki sagt að dýru og fínu kampavínin séu ekki hverrar krónu virði – þau eru bara annars konar vara og skapa annars konar stemningu.

Fágað og heilsteypt

Hvað er maður svo að borga fyrir þegar keypt er flaska af Dom Pérignon? Fyrir það fyrsta eru það gæðin: Dom Pérignon er árgangskampavín og aðeins framleitt þau ár sem vínþrúgurnar (Chardonnay og Pinot noir) þykja af nægilegum gæðum svo að oft líða tvö og jafnvel þrjú ár á milli árganga. Þá er vínið látið þroskast í langan tíma, yfirleitt í níu ár, og er 2013-árgangurinn sá nýjasti til að koma í sölu. Hafa helstu vínsérfræðingar gefið þessu upplagi frá 95 til 98 stig af 100 mögulegum.

Þrúgurnar og framleiðsluaðferðirnar eru ávísun á framúrskarandi og blæbrigðaríkan drykk og ættu lesendur endilega að láta það eftir sér að kaupa eins og eina flösku fyrir áramótin en hjá ÁTVR kostar flaskan 31.999 kr.

Verður samt að gæta að því hvernig kampavínið er borið fram en það verður að leyfa víninu að anda í tíu mínútur eða svo og drekka úr belgvíðu rauðvínsglasi svo að anganin fái að njóta sín. Ef ætlunin er að skála fyrir nýju ári ætti því að taka tappann úr flöskunni ekki seinna en kl. 23:50 á gamlárskvöld.

Batnar og batnar

Eins er vissara að hafa gæsalifur eða kavíar á boðstólum (eða sushi af betri gerðinni) því svona góð kampavín verða bara enn ljúffengari ef þau eru pöruð með mat. Við pörunina er gott að hafa í huga að fyrstu soparnir verða léttir og frískandi, með fíngerðum ávaxtatónum sem minna m.a. á epli, apríkósur og perur. Eftir því sem vínið situr lengur í glasi víkur sýran fyrir seiðandi og kjötmiklum tónum af trufflu og frönsku bakkelsi. Bragðið er heilsteypt og fágað og anganin himnesk, og er ekki laust við að upplifunin batni með hverjum sopanum, svo að varla er hægt að hugsa sér betra upphaf að nýju ári.