Guðmundur Fertram SIgurjónsson, forstjóri og stofnandi Kerecis, og Fanney K. Hermannsdóttir.
Guðmundur Fertram SIgurjónsson, forstjóri og stofnandi Kerecis, og Fanney K. Hermannsdóttir. — Morgunblaðið/Eyþór Árnason
Stærsta einstaka viðskiptafrétt ársins var án efa sala lækningavörufyrirtækisins Kerecis til danska fyrirtækisins Coloplast, fyrir tæpa 180 milljarða króna. Salan var kynnt með pomp og prakt á Ísafirði í byrjun júlí

Stærsta einstaka viðskiptafrétt ársins var án efa sala lækningavörufyrirtækisins Kerecis til danska fyrirtækisins Coloplast, fyrir tæpa 180 milljarða króna. Salan var kynnt með pomp og prakt á Ísafirði í byrjun júlí. Ef miðað er við hlutafjáraukningu félagsins frá því í fyrra má ætla að virði Kerecis hafi rúmlega tvöfaldast fram að sölu. Kerecis framleiðir sem kunnugt er lækningavörur úr þorskroði og fitusýrum, sem verja líkamsvefi og græða, en áhersla félagsins hefur legið í sáraumbúðum.

Kaup Coloplast á Kerecis eru næststærstu kaup á íslensku fyrirtæki í sögunni. Aðeins kaup Novator á Actavis árið 2007 voru stærri. Kerecis er þó fyrsti íslenski einhyrningurinn (e. unicorn), en það er hugtak sem notað er yfir sprotafyrirtæki sem eru metin á yfir einn milljarð bandaríkjadala.

Það má segja að vöxtur Kerecis hafi verið hraður á síðustu árum. Morgunblaðið greindi frá því í byrjun árs að velta fyrirtækisins árið 2022 hefði aukist um 160% á milli ára og var þá komin yfir 10 milljarða króna. Þá aukningu mátti fyrst og fremst rekja til aukinnar sölu til sjúkrahúsa í Bandaríkjunum. Áætlað var að velta félagsins yrði um 20 milljarðar króna á þessu ári. Þá var Kerecis eina íslenska félagið á nýjum FT-1000 lista breska blaðsins Financial Times, sem birtur var í mars, yfir þau fyrirtæki í Evrópu sem væru að vaxa hvað hraðast. Í maí hlaut Kerecis Norrænu vaxtarverðlaunin, The Nordic ScaleUp Awards, sem eru veitt norrænu nýsköpunarfyrirtæki á hverju ári fyrir framúrskarandi árangur og tekjuvöxt.

Kaup Coloplast á Kerecis áttu sér ekki langan aðdraganda. Kerecis, sem áður stefndi að skráningu á markað, hafði á fyrri helmingi ársins tekið þátt í fjölmörgum fjárfestakynningum og kaupráðstefnum í þeim tilgangi að kynna félagið fyrir mögulegum fjárfestum. Það var í kjölfar einnar slíkrar sem fulltrúar J.P. Morgan höfðu samband til að viðra hugmyndina um kaup Coloplast á félaginu. Frekari viðræður áttu sér stað á milli félaganna og beggja vegna borðsins varð aðilum ljóst að hvor aðili um sig hefði hag af viðskiptunum. Í kjölfar kaupanna fær Kerecis aðgang að innviðum og söluneti Coloplast um allan heim.

„Ég er mjög spenntur fyrir þessum viðskiptum, þetta er í samræmi við mína upphafssýn sem var meðal annars að gera vestfirskt fyrirtæki að einu verðmætasta félagi Íslandssögunnar,“ sagði Guðmundur Fertram Sigurjónsson, stofnandi og forstjóri Kerecis, þegar Morgunblaðið ræddi við hann á Ísafirði í kjölfar sölunnar. Samhliða sölunni var greint frá því að Guðmundur Fertram yrði forstjóri félagsins næstu tvö árin. Höfuðstöðvar félagsins eru sem kunnugt er á Ísafirði.

Coloplast greiddi fyrir kaupin með reiðufé. Mest af því fjármagni var greitt í ágúst. Svo mikið innflæði hafði þau áhrif að gengi krónunnar styrktist tímabundið, þó að það hefði að mestu verið gengið yfir á haustmánuðum.

Hluthafar Kerecis við söluna voru um 400 en í þeirra hópi voru, til viðbótar við Guðmund Fertram og flesta starfsmenn Kerecis, meðstofnendur, vestfirskir frumkvöðlar og sprotafjárfestar, innlendir og alþjóðlegir fjárfestar. Stærsti hluthafi Kerecis var eignarhaldsfélagið Omega, sem fór með um 12,6% hlut. Það er í eigu fjárfestanna Birgis Más Ragnarssonar og Andra Sveinssonar. Ætla má að söluandvirði þess hluta hafi verið um 22 milljarðar króna. Guðmundur Fertram átti sjálfur um 10% hlut í félaginu, þar af um 6% hlut í gegnum eigið eignarhaldsfélag. Áætlað virði hluta hans er um 18 milljarðar króna. Hann keypti síðar um haustið hlut í Coloplast fyrir um 700 milljónir króna. Guðmundur Fertram og eiginkona hans, Fanney K. Hermannsdóttir, fjölluðu nánar um uppbyggingu fyrirtækisins í ítarlegu viðtali í Morgunblaðinu í byrjun ágúst sl.

Hvað hluthafana varðar þá sátu nú einhverjir eftir með sárt ennið. Fljótlega eftir söluna greindi ViðskiptaMogginn frá því að lífeyrissjóðurinn Lífsverk hefði selt allan hlut sinn í Kerecis í apríl á þessu ári, tæpum þremur mánuðum fyrir söluna til Coloplast. Guðrún Inga Ingólfsdóttir, forstöðumaður eignastýringar hjá Lífsverki, hafði þá um vorið mótmælt kaupréttarstefnu félagsins á hluthafafundi. Þrátt fyrir að Lífsverk hafi ávaxtað upphaflega fjárfestingu sína ágætlega er áætlað að sjóðurinn hafi orðið af um 800 milljónum króna með því að selja of snemma.