Sameining stofnana sem engu hagræði skilar er lítils virði

Á síðustu árum hefur verið farið í töluverðar breytingar á stofnunum ríkisins og frekari breytingar eru fyrirhugaðar. Þegar slíkar breytingar eru í undirbúningi og kynningu fylgir gjarnan með að aðgerðirnar eigi að skila hagræði, enda er það almennt prýðileg röksemd fyrir breytingum í rekstri, hvort sem er hjá hinu opinbera eða hjá einkaaðilum.

Mesta sameiningin á undanförnum árum er líklega breyting á uppsetningu stofnana á sviði skatt- og tollyfirvalda. Í svari fjármála- og efnahagsráðherra á Alþingi út af þeirri sameiningu kom fram að árið 2019 hefði innheimta opinberra gjalda á höfuðborgarsvæðinu verið færð frá tollstjóra til ríkisskattstjóra og í upphafi árs 2020 hefði embætti tollstjóra og ríkisskattstjóra verið sameinuð undir heitinu Skatturinn. Ári síðar hefði embætti skattrannsóknarstjóra ríkisins svo verið lagt niður og verkefni þess sameinuð þessari nýju stofnun, Skattinum. Þeirri stofnun var sem kunnugt er komið fyrir í myndarlegri nýbyggingu á besta stað í bænum, en líklega ekki þeim ódýrasta.

Fyrrnefnt svar, og annað sem barst nýlega, greinir frá því að árið 2016, fyrir sameiningu fyrrnefndra stofnana í eina ofurstofnun, hafi starfsmenn verið 470. Í fyrra, eftir sameiningu, hafi þeir verið 469. Það sparaðist sem sagt eitt stöðugildi, eða 0,2%, sem verður að teljast vel innan skekkjumarka.

Skýringin á því að enginn árangur náðist í að fækka starfsfólki í þessu mikla hagræðingarverkefni er að tækifærið var nýtt til að fjölga starfsmönnum við skatteftirlit um 21. Samhliða því var Skattinum veitt viðbótarfjárframlag, varanlega, sem nemur 500 milljónum króna á ári, „vegna aukinnar áherslu á skatteftirlit“, eins og segir í svari fjármálaráðherra.

Þessi „árangur“ er umhugsunarverður nú þegar fyrir liggur frumvarp til laga frá umhverfis- og loftslagsráðherra um endurskipulagningu á stofnanakerfi umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins, eins og segir í greinargerð frumvarpsins. Þar segir einnig að í 13 stofnunum ráðuneytisins starfi um 600 manns á yfir 40 starfsstöðvum víða um land. Vissulega hljómar þetta eins og tækifæri gæti falist til hagræðingar, eða hvað?

Samkvæmt greinargerð frumvarpsins er talað um „hagræðingu til lengri tíma sem nýtt verði til að efla hina nýju stofnun“, sem segja má að sé það sama og gerðist við sameininguna í skattkerfinu, hagræðingin sem náðist hvarf inn í nýju stofnunina og hálfur milljarður að auki á ári hverju.

Í fyrrnefndri greinargerð um sameiningu stofnana umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins segir einnig: „Verði frumvarpið óbreytt að lögum er því ekki gert ráð fyrir að lögfesting þess muni hafa áhrif á útgjöld eða afkomu ríkissjóðs. Til skemmri tíma er þó líklegt að einhver kostnaður falli til vegna sameiningar stofnana svo sem vegna mögulegra biðlauna, breytinga á nýtingu húsnæðis, tækjabúnaðar, upplýsingakerfa o.fl. og verður honum mætt innan útgjaldaramma.“

Hagræðingin á sem sagt ekki að skila ríkissjóði – og þar með skattgreiðendum – nokkrum ávinningi. Hún á öll að fara í að efla stofnanirnar, verði einhver hagræðing yfirleitt, sem ekkert er hægt að fullyrða um. Og skattgreiðendur ættu í ljósi langrar og biturrar reynslu að taka því með fyrirvara að viðbótarkostnaði við sameiningu verði „mætt innan útgjaldaramma“.

Ríkisbáknið hefur þanist út á liðnum árum. Sem dæmi um útþensluna má nefna að samkvæmt Hagstofunni hefur fjöldi starfa í opinberri stjórnsýslu, fræðslustarfsemi, heilbrigðis- og félagsþjónustu aukist um 70% frá aldamótum, sem er töluvert meiri fjölgun en í einkageiranum. Þessi neikvæða stærðarhagkvæmni hins opinbera er verulegt áhyggjuefni og sýnir að full ástæða sé til að taka til hendinni í opinbera rekstrinum, jafnt hjá ríki og sveitarfélögum.

En „hagræðing“ á borð við þá sem ráðist var í hjá innheimtustofnunum ríkisins eða þá sem fyrirhuguð er á sviði umhverfismála er ekki líkleg til að mæta þeim vanda sem felst í stöðugri útþenslu báknsins. Og þetta á sérstaklega við þegar raunveruleg hagræðing er ekki einu sinni yfirlýst markmið. Það sem gera þarf til að ná fram raunverulegri hagræðingu hjá hinu opinbera, sem fyrst og fremst hlýtur að felast í fækkun starfsfólks, er að fækka þeim verkefnum sem hið opinbera sinnir. Þegar Alþingi samþykkir lög sem hljóma vel um nýjar aðgerðir eða verkefni af ýmsu tagi þá þýðir það fleiri opinbera starfsmenn, aukin útgjöld og hærri skatta. Það sem skattgreiðendur þurfa á að halda er að ráðherrar og þingmenn fari yfir þau verkefni sem hið opinbera hefur tekið að sér og fækki þeim. Þetta er eina raunhæfa leiðin til að minnka umsvif hins opinbera, hagræða í rekstri þess og verja skattgreiðendur.