Evrópumót Selfyssingurinn Teitur Örn Einarsson í leik með Íslandi á EM 2022. Hann er ekki í hópnum sem leikur á EM í Þýskalandi í næsta mánuði.
Evrópumót Selfyssingurinn Teitur Örn Einarsson í leik með Íslandi á EM 2022. Hann er ekki í hópnum sem leikur á EM í Þýskalandi í næsta mánuði. — Ljósmynd/Szilvia Micheller
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Mér líður mjög vel. Ég er mjög spenntur fyrir næsta tímabili og mjög sáttur við valið hjá mér. Elliði og Gaui eru þarna og það er alltaf gaman að hafa Íslendinga með sér,“ sagði handknattleiksmaðurinn Teitur Örn Einarsson í samtali við Morgunblaðið

Þýskaland

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

„Mér líður mjög vel. Ég er mjög spenntur fyrir næsta tímabili og mjög sáttur við valið hjá mér. Elliði og Gaui eru þarna og það er alltaf gaman að hafa Íslendinga með sér,“ sagði handknattleiksmaðurinn Teitur Örn Einarsson í samtali við Morgunblaðið.

Hann gengur til liðs við Íslendingalið Gummersbach frá Flensburg að loknu yfirstandandi tímabili og skrifar undir tveggja ára samning. Elliði Snær Viðarsson er einn lykilmanna Gummersbach og Guðjón Valur Sigurðsson þjálfar liðið. Undir stjórn þess síðarnefnda hefur gamla stórveldið Gummersbach unnið þýsku B-deildina og fest sig í sessi í þeirri efstu, þar sem liðið er í sjöunda sæti sem stendur.

„Gaui er búinn að sýna fram á það að hann er frábær þjálfari og ég er mjög spenntur að komast undir stjórn hans og sjá hvað verður úr því,“ sagði Teitur Örn um Guðjón Val.

Spennandi fyrir mig

Selfyssingurinn hefur leikið með Flensburg í rúm tvö ár og var í leit að nýju liði eftir að stórveldið ákvað að samningur hans yrði ekki framlengdur. Teitur Örn, sem er 25 ára gamall, telur alveg ljóst að um rétt skref sé að ræða á sínum ferli.

„Algjörlega, í rauninni lít ég á þetta sem fullkomið skref. Að keppast um að vera byrjunarliðsmaður þarna eftir að hafa verið að sitja svolítið á bekknum hérna í Flensburg.

Að vera alltaf númer tvö, þó ég sé búinn að spila ótrúlega mikið miðað við mína stöðu hér. Það er spennandi fyrir mig að komast loksins í stærra hlutverk og taka svolitla ábyrgð,“ sagði hann.

Lítið búinn að hugsa út í það

Teitur Örn, sem leikur í stöðu hægri skyttu, hefur undanfarið verið í stóru hlutverki hjá Flensburg, sérstaklega eftir að Hollendingurinn Kay Smits veiktist. Hefur honum gengið vel og því lék blaðamanni forvitni á að vita hvort Teitur Örn hefði viljað vera áfram hjá Flensburg.

„Ég er bara ekki alveg viss. Ég var svona minna búinn að hugsa út í það þegar Flensburg tók sjálft ákvörðunina um að ég yrði ekki áfram. Það var í rauninni lítið fyrir mig að hugsa um hvað það varðar.

En ég lít mjög jákvætt á þetta og er rosalega spenntur fyrir komandi tímum. Ég var í raun lítið búinn að pæla í þessu áður en Flensburg var svo búið að semja við tvo nýja leikmenn,“ sagði hann.

Hef bætt mig svakalega

Þrátt fyrir að vera í stóru hlutverki um þessar mundir hjá Flensburg hefur það ekki alltaf verið raunin.

Hefur það verið erfitt fyrir þig að sitja mikið á varamannabekknum?

„Já, það hefur klárlega tekið á. Fyrir Flensburgar-tímann var ég alltaf einungis vanur því að vera númer eitt. Ég þekkti ekkert annað en að vera byrjunarliðsmaður og að þurfa að taka mikla ábyrgð.

Hjá Selfossi, öllum unglingalandsliðunum og hjá Kristianstad, nema kannski fyrsta árið þar. Síðan var ég búinn að vera tvö ár í atvinnumennsku sem númer eitt hjá mínu liði.

Svo kem ég til Flensburg, sem er töluvert stærra lið og líka með meiri breidd. Þá þarf maður að berjast meira fyrir sinni stöðu og maður er ekkert alltaf númer eitt.

Það er auðvitað búin að vera tilbreyting fyrir mig en samt hef ég öðlast mjög góða reynslu af því að vera hérna og fengið mikinn spiltíma þrátt fyrir mikla samkeppni.

Ég hef náttúrlega bætt mig svakalega mikið á þessum rúmu tveimur árum sem ég er búinn að vera hérna. Ég er að spila með nokkrum af bestu leikmönnum í heimi, sem gerir mann sjálfan að betri leikmanni,“ sagði Teitur Örn sem lék með Kristianstad í Svíþjóð frá 2018 til 2021 en hefur síðan leikið með Flensburg þar sem samherjar hans eru m.a. landsliðsmenn Danmerkur, Svíþjóðar, Þýskalands, Noregs, Slóveníu og Hollands.

Berjast á öllum vígstöðvum

Um hálft ár er í að Teitur skipti til Gummersbach og enn að mörgu að huga með Flensburg, sem er í þriðja sæti í þýsku 1. deildinni, tveimur stigum á eftir Magdeburg og Füchse Berlín í efstu sætunum. Þá er Flensburg komið í átta liða úrslit þýsku bikarkeppninnar og 16-liða úrslit Evrópudeildarinnar.

Því er Teitur Örn staðráðinn í að ljúka síðasta tímabili sínu með Flensburg af krafti.

„Algjörlega, maður getur ekkert horft á það öðruvísi. Ég er samningsbundinn hér til loka tímabilsins og þetta er vinnan mín þangað til.

Ég mun leggja mig 110 prósent fram eins og ég hef og mun alltaf gera fyrir liðið mitt. Maður berst alltaf fyrir öllu þar sem maður er hér og nú,“ sagði hann.

Velti mér ekki upp úr því

Teitur Örn er ekki í 20 manna leikmannahópi íslenska A-landsliðsins fyrir EM 2024 í Þýskalandi í janúar en hann á að baki 35 landsleiki fyrir Íslands hönd og spilar sömu stöðu og þeir Ómar Ingi Magnússon, Viggó Kristjánsson og Kristján Örn Kristjánsson. Spurður hvort honum þætti það sárt sagði Teitur Örn að lokum:

„Já, já, en það er bara eins og það er. Við erum með svo marga góða leikmenn að ég fer ekki að velta mér eitthvað upp úr því. Ég einbeiti mér bara að mínu og síðan sjáum við hvað gerist.“