— Morgunblaðið/Árni Sæberg
„Fólkið í hverfinu er auðvitað ósátt því það hefur alltaf fengið góða þjónustu hérna,“ segir Bent Helgason, einn eigenda Smurstöðvarinnar við Skógarhlíð. Síðasti starfsdagur smurstöðvarinnar var á föstudag en þar hefur fólk getað gengið að þjónustu við bíla síðan 1954

„Fólkið í hverfinu er auðvitað ósátt því það hefur alltaf fengið góða þjónustu hérna,“ segir Bent Helgason, einn eigenda Smurstöðvarinnar við Skógarhlíð. Síðasti starfsdagur smurstöðvarinnar var á föstudag en þar hefur fólk getað gengið að þjónustu við bíla síðan 1954.

„Það á að byggja blokkir hérna allt í kring og því er enginn grundvöllur fyrir þessum rekstri til frambúðar. Auk þess hefur okkur gengið erfiðlega að fá mannskap í vinnu,“ segir Bent sem sést hér á myndinni ásamt Frey bróður sínum.

Þeir hafa staðið vaktina í Skógarhlíð frá 2016 en stöðin hefur verið rekin samhliða Smurstöðinni í Garðabæ og munu þeir hverfa til starfa þar. Bent segir að smurstöðvum fækki hratt og hann viti um fjórar slíkar sem hafi lagt upp laupana í ár. „Fólk verður bara að koma til okkar í Garðabæinn,“ segir hann. Fyrirhugað er að bílaleiga verði í húsnæðinu í Skógarhlíð en því verður ekki raskað vegna menningarsögulegs gildis. hdm@mbl.is