Orka Breytileg orka Landsvirkjunar kostar 40% meira en grunnorka.
Orka Breytileg orka Landsvirkjunar kostar 40% meira en grunnorka.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Meintan leka á milli raforkumarkaða er ekki að sjá í neinum gögnum segir Tómas Már Sigurðsson forstjóri HS orku í samtali við Morgunblaðið. Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar ýjaði að því í skrifum sínum í Morgunblaðið í gær að raforka ætluð…

Meintan leka á milli raforkumarkaða er ekki að sjá í neinum gögnum segir Tómas Már Sigurðsson forstjóri HS orku í samtali við Morgunblaðið. Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar ýjaði að því í skrifum sínum í Morgunblaðið í gær að raforka ætluð heimilum og smærri fyrirtækjum (almennur markaður) rynni til stórnotenda raforku. Óvenjumiklar pantanir á grunnorku fyrir heildsölumarkaðinn staðfestu það.

Tómas segir að útskýringuna á því að pantanir á grunnorku fyrir heildsölumarkaðinn séu 25% meiri en sem nemur almennum vexti í samfélaginu megi meðal annars finna í því að verðið á breytilegri orku til afhendingar árið 2024 er 40% hærra en verð á grunnorku. Eftirspurn eftir ódýrari raforku sé því að aukast. Þar að auki hafi afhending á orku af hálfu HS orku og Orku náttúrunnar (ON) til stórnotenda minnkað á árunum 2019-2022 um sem nemi 200-300 gígavattstundum (GWst). Á sama tíma hafi afhending á orku af hálfu Landsvirkjunar til stórnotenda aukist um u.þ.b. 800 GWst, ef marka megi tölur Orkustofnunar og Landsvirkjunar.

„Það sem við sjáum ekki í tölunum er að einhver leki hafi átt sér stað, að minnsta kosti ekki frá þessum tveimur fyrirtækjum (Orku náttúrunnar og HS orku),“ segir hann.

Tómas segir að líta verði á verðlag forgangsorku sem skiptist í þrjá hluta: Grunnorku, sem er afhent með jöfnum hætti allt árið og er 40% ódýrari en breytileg orka, mánaðarblokk, sem er sambærileg grunnorku en afhending er aðeins einn mánuð í einu og er 25% ódýrari en breytileg orka; og breytilega orku sem er með ákveðnu hámarksafli og afhent samkvæmt óskum kaupanda.

„Landsvirkjun á eitt fyrirtækja ákveðna vöru inni á heildsölumarkaði sem er breytileg orka. Landsvirkjun er eina fyrirtækið sem á það og fékk það í vöggugjöf. Verðið á breytilegri orku hefur aukist langt umfram svokallaða grunnorku eða mánaðarblokkir og nú eru komnir margir smásalar inn á markaðinn sem kaupa sína orku af Landsvirkjun. Þessir aðilar sjá kost í því, og allir aðilar í raun og veru, að kaupa frekar mánaðarblokkir eða grunnorkublokkir og henda afganginum frekar en að kaupa breytilega orku því hún hefur hækkað langmest. Það er vegna þess að einokunaraðili hefur verðlagt þann hluta orkunnar of hátt,“ segir Tómas.

„Það skýrir í mínum huga ekki síður þessa 25% auknu eftirspurn sem forstjórinn talar um vegna þess að verðlagning þeirra á orkunni hefur keyrt hegðunina á markaðnum í ákveðna átt og það er að kaupa þessar blokkir, mánaðar- og grunnorkublokkir, frekar en breytilega orku.“

Hann segir aðra skýringu á aukinni eftirspurn þá að hér á landi hafi verið mikill hagvöxtur. hng@mbl.is