Kröfuganga Verkalýðsfélög telja brýnt að endurskoða veikindarétt.
Kröfuganga Verkalýðsfélög telja brýnt að endurskoða veikindarétt. — Morgunblaðið/Kristinn
Færst hefur mjög í vöxt á undanförnum árum að launafólk þurfi að vera frá vinnu um lengri eða skemmri tíma til að sinna nákomnum ættingjum, þar með töldum foreldrum, vegna veikinda og þarfar þeirra fyrir umönnun

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Færst hefur mjög í vöxt á undanförnum árum að launafólk þurfi að vera frá vinnu um lengri eða skemmri tíma til að sinna nákomnum ættingjum, þar með töldum foreldrum, vegna veikinda og þarfar þeirra fyrir umönnun. Að sögn Þórarins Eyfjörð formanns Sameykis hefur áhersla á aukinn veikindarétt vegna veikinda nákominna komið fram af sífellt meiri þunga á félagsfundum Sameykis um allt land á seinustu árum.

Fleiri forystumenn stéttarfélaga taka undir þetta. „Við verðum vör við þetta og það er að verða ríkari krafa í kjarasamningum að útvíkka veikindaréttinn þannig að hann nái til nánustu aðstandenda. Þetta er í kröfugerð okkar fyrir komandi kjarasamninga,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR, sem kveðst vona að það skili árangri því um sé að ræða risavaxið mál.

Skortur á úrræðum

Að mati forsvarsmanna stéttarfélaganna á skortur á úrræðum í þjónustu við aldraða og staðan á hjúkrunarheimilum með löngum biðlistum stóran hlut að máli. Það sé orðið meira áberandi en áður að fólk þurfi að taka sér frí frá vinnu til að sinna öldruðum foreldrum sínum í heimahúsi.

„Við höfum séð dæmi um hjón sem eru komin í mikið umönnunarhlutverk gagnvart foreldrum beggja og annast þá allt upp í fjóra aldraða ástvini, sem eru á biðlistum og fá ekki þá þjónustu sem þeir þurfa á að halda. Þetta tengist beint umræðunni í samfélaginu um slaka stöðu hjúkrunarheimila og kemur fram á öllum fundum hjá okkur. Þetta er nokkuð sem við sem samfélag þurfum að skoða heilt yfir og á breiðum grunni,“ segir Þórarinn.

„Það gefur augaleið að staðan á hjúkrunarheimilunum er slík að þar er allt yfirfullt og það eru ekki nema allra veikustu einstaklingarnir sem fá pláss og þá bitnar þetta á fólki. Þetta er bara afleiðing af áratuga vanrækslu á þessum innviðum okkar sem voru byggðir hér upp af öflugu fólki en síðan hefur þessi hluti velferðarkerfisins verið algerlega vanræktur. Þetta bitnar á fjölskyldumeðlimum sem þurfa að fara í þessi umönnunarhlutverk,“ segir Ragnar Þór.

Íþyngjandi á landsbyggðinni

Aðalsteinn Á. Baldursson formaður Framsýnar tekur í sama streng og segir þetta orðið mun meira íþyngjandi fyrir fólk en áður var. Hann bendir líka á að íbúar á landsbyggðinni þurfi oft að sækja nauðsynlega heilbrigðisþjónustu um langan veg og því fylgi frátafir frá vinnu og mikill kostnaður fyrir þá sem fylgja maka eða nánum ættingjum. Sjúklingar sem þurfi t.d. að fara til Reykjavíkur vegna krabbameinsmeðferðar eða annarra veikinda og dvelji á sjúkrahótelinu þurfi að hafa með sér fylgdarmann sem sjái um að sinna viðkomandi og því fylgi mikið tekjutap og útgjöld.

Í Framsýn eru um 3.500 félagsmenn og félagssvæðið er stórt. Aðalsteinn segist sjá fyrir sér að greiðslur sjúkradagpeninga félagsins stóraukist á milli ára. Reiknar hann með að félagið greiði félagsmönnum nálægt 100 milljónum króna í sjúkradagpeninga á árinu 2023.

Fram kom á fundi trúnaðarmanna Sameykis á dögunum að endurskoða verði veikindarétt vegna umönnunar í veikindum nákominna í komandi samningum. Í könnun meðal félagsmanna í átta aðildarfélögum Starfsgreinasambandsins var áhersla lögð á aukinn veikindarétt vegna barna og að heimilt verði að nýta eigin veikindarétt vegna alvarlegra veikinda í fjölskyldu svo sem vegna barna, foreldra eða maka.