Fjórar kynslóðir Steinunn með móður sinni, dóttur og barnabarni.
Fjórar kynslóðir Steinunn með móður sinni, dóttur og barnabarni.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinunn Kristín Pétursdóttir fæddist 28. desember 1973 á Akranesi, yngst fjögurra systkina og eina dóttirin. „Pabbi var þá stýrimaður á Krossvíkinni og síðar skipstjóri á Ver. Þegar það skip var tekið „eignarnámi“ af…

Steinunn Kristín Pétursdóttir fæddist 28. desember 1973 á Akranesi, yngst fjögurra systkina og eina dóttirin. „Pabbi var þá stýrimaður á Krossvíkinni og síðar skipstjóri á Ver. Þegar það skip var tekið „eignarnámi“ af Landhelgisgæslunni í þorskastríðinu '75-'76 fékk hann pláss á togara í Þorlákshöfn og flutti fjölskyldan þá á Selfoss. Ég var þá tæplega fjögurra ára. Foreldrar mínir skildu þegar ég var átta ára og mamma bjó áfram með okkur systkinin á Selfossi.“

Vorið 1983 fór Steinunn í sumardvöl til föðursystur sinnar og nöfnu á Seyðisfirði, Kristínar Gissurardóttur, og manns hennar, Páls Vilhjálmssonar frá Brekku í Mjóafirði. „Svo gaman og gott þótti mér að vera þar að ég bað um að fá að fara aftur sumarið eftir. Þarna sá ég í fyrsta sinn, einn bjartan sumardag í garðinum heima við hús, ungan mann sem síðar átti eftir að verða eiginmaður minn. Ég var þá tíu ára en hann nokkuð eldri, háseti á skipi sem Palli stýrði.

Þegar ég var 12 ára kynntist mamma Ólafi Þór Jónassyni húsasmið frá Kjóastöðum í Biskupstungum og fór svo að þau fluttu saman á Laugarvatn þar sem hann var, ásamt fleiru, smíðakennari við Héraðsskólann. Bræður mínir voru þá allir fluttir að heiman svo ég var sú eina sem fylgdi með í „sveitina“.“

Steinunn lauk grunnskólagöngunni á Laugarvatni, fyrst í barnaskólanum og svo í Héraðsskólanum. Leiðin lá svo í Menntaskólann á Laugarvatni þaðan sem hún útskrifaðist af máladeild með 1. einkunn í maí 1993, og fékk við útskrift verðlaun NEMEL (Nemendafélags ML) fyrir framúrskarandi árangur í íslenskri ritgerð, sem þá var sérstakt fag á stúdentsprófi. „Ég hafði alltaf hug á frekari menntun eftir stúdentspróf en stundum fara hlutirnir öðruvísi en ætlað er. Ég náði mér þó í diplómapróf í mannauðsstjórnun 2008 og D-vottun IPMA í verkefnastjórnun 2019.

Á menntaskólaárunum var ég komin í samband við dreng ofan úr Tungum og fluttum við saman daginn eftir útskrift. Hann var einstæður faðir stúlku sem þarna var 2ja og hálfs árs. Við eignuðumst tvö börn til viðbótar og giftum okkur í maí 1995. Það hjónaband varð fremur skammlíft, í janúar 1997 skildum við.

Snemma árs 2001 hitti ég aftur unga manninn frá Seyðisfirði, og höfum við verið óaðskiljanleg síðan. Við fluttum á Skagann þar sem atvinna hans var þá, og bjuggum þar fram til 2013. Þá voru börnin mín tvö bæði farin suður svo við eltum þau þangað. Ég fann mig þó engan veginn á höfuðborgarsvæðinu og eftir að hafa gefið búsetu þar sex ára séns ákváðum við hjónin að flytja heim á æskuslóðirnar mínar, Selfoss.“

Á Akranesi starfaði Steinunn lengst af hjá Smellinn hf., fyrirtæki sem framleiddi forsteyptar húseiningar. „Ég sá þar um bókhaldið og laun fyrir um 100 starfsmenn en eftir að BM Vallá keypti fyrirtækið og fór svo í þrot 2010 fékk ég starf sem þjónustufulltrúi í útflutningi hjá Elkem. Þegar framleiðslu á því efni sem ég sá um var hætt færði ég mig yfir götuna, til Norðuráls þar sem ég fékk starf á mannauðssviði.

Þegar við fluttum suður 2013 vildi ég færa mig um set og var þá ráðin sem skrifstofustjóri röntgendeildar Landspítalans í upphafi árs 2014. Fyrsta veturinn eftir að við fluttum á Selfoss, veturinn 2019-2020, keyrði ég daglega yfir heiðina í vinnu. Veðrið var ömurlegt nánast hvern einasta dag framan af vetri, heiðin sífellt lokuð vegna illviðra og ófærðar og mér fannst alveg ömurlegt að keyra á milli. Í lok febrúar 2020 ætlaði ég að segja upp og fara að vinna í heimabyggð, en þá kom covid. Og allt vinnuumhverfið breyttist. Ég vinn enn á röntgendeildinni, að miklu leyti í fjarvinnu að heiman og þarf því ekki að keyra heiðina nema endrum og eins, og aldrei þegar spáin er slæm.“

Þau hjónin voru lengi með leyfi frá Barnaverndarstofu til að vista börn á vegum barnaverndarnefnda og sátu fjölmörg námskeið á vegum BVS í tengslum við fósturmálin. Samhliða var Steinunn varaformaður Félags fósturforeldra 2010-2014. Hún var varaþingmaður fyrir Frjálslynda flokkinn 2003-2007.

„Við höfum átt allmarga hunda í gegnum tíðina, átta ef ég tel rétt. Allt Schafer-hundar, nema hvolprassgatið sem við eignuðumst um páskana, hann er franskur bulldog. Þeir eru tveir á heimilinu núna, 10 ára gamall schäfer-rakki að nafni Goði, og 11 mánaða franskur bulldog sem heitir Moli.“

Steinunn hefur alltaf haft gaman af því að prjóna, allt frá því að mamma hennar kenndi henni undirstöðuatriðin þegar Steinunn var krakki. „Elsku Adda, handavinnukennari í Héró, byggði svo ofan á grunninn og kenndi mér að miklu leyti það sem upp á vantaði. Ég skrifaði og gaf út mína fyrstu prjónauppskrift fyrir fjórum árum og hef gefið út rúmlega 80 uppskriftir síðan þá undir hönnunarheitinu Litli prins.

Mér finnst afskaplega gaman að leika mér að því að koma fallegum mynstrum fyrir í hinum ýmsu prjónaflíkum og gaman að sjá hvernig sama mynstrið getur passað ólíkum flíkum. Ég veit fátt skemmtilegra en að prjóna með öðrum áhugasömum og hæfileikaríkum prjónurum og því hafa ég og vinkona mín, sem rekur garnverslun hér á Selfossi, undanfarið staðið fyrir nokkrum vel sóttum opnum prjónakvöldum og munum halda því áfram á nýju ári.“

Fjölskylda

Eiginmaður Steinunnar er Haraldur E. Sigurðsson, f. 17.8. 1964, bifreiðarstjóri. Foreldrar Haralds: Sigurður Júlíusson, f. 25.6. 1927, d. 9.10. 1991, bifreiðarstjóri á Seyðisfirði, og Ingrid Louisa Brandt, f. 5.10. 1936, verkakona á Seyðisfirði, nú búsett á Selfossi.

Börn Steinunnar með fyrri eiginmanni, Ágústi Sæland, f. 27.1. 1972, eru 1) Sigurður Ingi Ágústsson, f. 3.8. 1994, tæknimaður hjá OK, búsettur í Reykjavík. Kærasta hans er Clizia Macchi, myndlistarmaður; 2) Fanney Rún Ágústsdóttir Sæland, f. 5.3. 1996, framreiðslumaður, búsett á Geitabergi í Hvalfjarðarsveit. Unnusti hennar er Ásgeir Pálmason bóndi. Sonur hennar er Matthías Haukur Sæland, f. 19.10. 2020. Stjúpdóttir Steinunnar er Kolbrún Eva Haraldsdóttir Gränz, f. 27.1. 1998, háskólanemi og lögreglukona, búsett í Reykjavík. Kærasti hennar er Jón Otti Antonsson, vélstjóri og háskólanemi.

Systkini Steinunnar eru Mikael Þorsteinsson, f. 16.4. 1964, vélamaður á Laugarvatni; Stefán Pétursson, f. 23.1. 1967, sjúkraflutningamaður á Selfossi; Birkir Pétursson, f. 22.2. 1968, bifreiðarstjóri á Selfossi, og Sigurður Ólafsson, f. 7.9. 1986, d. 12.9. 1986.

Foreldrar Steinunnar eru Guðrún Mikaelsdóttir, f. 13.8. 1944, fv. verkakona, búsett í Reykholti í Biskupstungum, og Pétur Gissurarson, f. 17.5. 1935, fv. skipstjóri og stýrimaður, nú búsettur á Egilsstöðum. Þau voru gift 1968-1982. Stjúpfaðir Steinunnar er Ólafur Þór Jónasson frá Kjóastöðum í Biskupstungum, f. 31.12. 1942, húsasmiður, búsettur í Reykholti.