Pálmi Stefánsson
Pálmi Stefánsson
Meðan maðurinn átti allt undir vistkerfinu var meðalaldur um 18 ár.

Pálmi Stefánsson

Hin mikla hækkun meðalaldurs um allan heim síðustu 200 árin byggist á erfða- og lífeðlisfræðilegum þáttum auk vistkerfisins. Þar sem hið fyrra hefur lítið breyst er það þáttur vistkerfisins sem hefur ráðið mestu um meðalaldur.

Ef vistkerfið hefði engin áhrif (án sjúkdóma og slysa) mætti ná hámarkslífslengd sem er erfð og lífeðlisfræðileg og gefin fyrir hverja tegund manna, dýra, plantna og allt líf sem nýtir sér súrefnisöndun.

Ævilengd er talin í árum en orkukerfin sem nota hvatbera til að vinna orku úr glúkósa og fitusýrum og mynda orkumiðilinn ATP virðast miða við hámarksorkumagn og eyðast hvatberarnir eftir vissu magni þess. Hvatberarnir eru sjálfstæðir og lífa í sambýli við aðrar frumur nema blóðfrumur. Hafa eigið DNA og fjölga sér sjálfstætt og geta verið langt yfir 1.000 í einni frumu. Þeir hafa lítið breyst í tímans rás og ekki vitað hvernig þetta byrjaði.

Það var svo Þjóðverjinn R. Pinzinger sem uppgötvaði að bæði orka og orkuskipti eru háð líkamsmassanum og sem meira er að 2.500 kílójúl á gramm líkamsmassa sé sú hámarksorka sem breytt er í orku yfir æviskeiðið hjá mönnum og dýrum. Er öll þessi orka er fullnýtt eru hvatberarnir búnir að syngja sitt síðasta. Það virðist vera innbyggð í þeim eins konar lífsklukka sem metur lífeðlisfræðilega orkumagnið og lífshlaup hvatberanna.

Meðan maðurinn átti allt undir vistkerfinu var meðalaldur um 18 ár en hækkaði margfalt með hreinlæti, minna vinnuálagi, hlýrri híbýlum og betra viðurværi og klæðnaði auk sýklavarna og hjálp við sjúka og slasaða.

Að sögn Pinzingers er hámark okkar 120 ár með óbreytt lífeðlisfræðilegt kerfi líkamans. Sé unnt að fjölga hvatberunum og hægja á öldruninni mætti vonast eftir meiri hámarkslífslengd.

Í dag virðumst við flest langlífari hafa notað okkar skammt af hvatberum um og eftir 80 ára aldur auk þess sem öldrunin tekur sinn toll og við hverfum héðan til að gefa rúm fyrir afkomendurna sem geta lagað sig enn betur að vistkerfinu.

Höfundur er efnaverkfræðingur.