Ný plata Valur segir að það komi ný plata frá Hvanndalsbræðrum á næsta ári.
Ný plata Valur segir að það komi ný plata frá Hvanndalsbræðrum á næsta ári.
Það var eitt kvöld fyrir tuttugu og einu ári, í Hafnarstræti 107b í húsi sem stendur í Skátagilinu á Akureyri, þar sem þeir Valur Freyr, Rögnvaldur gáfaði og Sumarliði Helgason sátu saman og drukku bjór

Edda Gunnlaugsdóttir

eddag@mbl.is

Það var eitt kvöld fyrir tuttugu og einu ári, í Hafnarstræti 107b í húsi sem stendur í Skátagilinu á Akureyri, þar sem þeir Valur Freyr, Rögnvaldur gáfaði og Sumarliði Helgason sátu saman og drukku bjór.

„Árin áttu aldrei að verða tuttugu plús,“ segir Valur Freyr Halldórsson í samtali við Kristínu Sif og Þór Bæring í morgunþættinum Ísland vaknar.

„Við ætluðum auðvitað að spila sem minnst opinberlega. Þetta var bara afsökun til að komast af heimilinu, frá börnum og eiginkonum og þannig skilurðu. Ætluðum bara að stofna lítinn, nettan karlaklúbb.

Í kjölfarið dró Rögnvaldur mig inn í tónabúð. Ég hafði ekki spilað í nokkur ár þar sem ég hafði fengið nóg af tónlist. En hann dró mig inn, ég gekk út með trommusett og hljómsveitin Hvanndalsbræður var stofnuð.“

Alltaf verið miklir já-menn

Hann segir að þrátt fyrir að það hafi aldrei verið ætlunin að spila út um allt land og vera enn starfandi svona mörgum árum síðar þá hafi þetta borgað sig.

„Ég gleymi því aldrei þegar mín fyrrverandi frétti af þessu. Þá spurði hún mig hvað við værum að spá, að ég ætti aldrei eftir að hafa neitt upp úr þessu og yrði aldrei heima. Það seinna var alveg rétt hjá henni, ég var aldrei heima.“

Valur segir að þeir í hljómsveitinni hafi aldrei verið góðir sölumenn enda sitji þeir uppi með poka af plötum og geisladiskum sem gleymdist að selja.

„En við erum miklir já-menn og þegar við erum beðnir um að spila þá segjum við yfirleitt já. Það kom hressilega í bakið á okkur því í upphafi ætluðum við bara að djamma þrír saman. Í dag er þetta orðið átta manna veldi og allt fólkið í kringum okkur, Jesús minn.“

Þekkjast rosalega vel

Síðustu ár hafa þeir ferðast mikið um landið og segir Valur hópinn vera mikla vini sem þekkjast rosalega vel.

„Við erum með stabíla menn og óstabíla menn í bandinu. Við þurfum til dæmis aldrei vekjaraklukku þegar við erum að ferðast saman, því við vitum að þegar við heyrum að verið er að opna fyrsta bjórinn þá er klukkan orðin sjö.“

Þeir eru hvergi nærri hættir þó að þeir hafi ekki ákveðið hvenær næstu tónleikar verða. Á næsta ári ætla þeir að „hlaða í“ nýja plötu og segir Valur mörg verkefni vera á döfinni.