Hjörtur Sævar Steinason
Hjörtur Sævar Steinason
Ró eins og í aldingarðinum Eden.

Hjörtur Sævar Steinason

Sjáið þið ekki ljómann yfir strandveiðunum, hversu himneskt trillulífið getur verið og skaðlaust? Það er svo umhverfisvænt að vera bara með nokkrar rúllur, dautt á vél og tala bara við múkkann meðan verið er að fiska. Margir eru einungis með tvær til þrjár rúllur, hins vegar eru fjölmargir með fjórar rúllur. Það í raun breytir engu hvort það séu tvær eða fjórar rúllur því menn eru oft með færri króka þegar rúllurnar eru fleiri. Krókafjöldinn er kannski sá sami hvort sem rúllurnar eru tvær, þrjár eða fjórar.

Slóði nefnist hönkin með krókunum hjá okkur og eru mismargir krókar á slóðanum. Menn skipta út slóðum misoft, flestir oft, og voðalega sjaldgæft er að tapa slóða, enginn vill tapa fiski vegna lélegra veiðarfæra. Sérstaklega ekki þegar munar um hvern fisk. Oftast tapast einvörðungu sakkan því oft er grennra girni að sökkunni í þeim tilgangi einmitt að hún fari ein ef festist í botni og ekki verði eins mikill skaði. Núorðið eru þær gerðar úr stáli, þá eru gamlir öxlar oft brytjaðir niður og notaðir sem sökkur. Blýsökkur teljast algjörlega til undantekninga og þá verður lítil sem engin mengun. Þannig að veiðarfæratap hefur aldrei hrjáð okkur strandveiðisjómenn að neinu gagni, allavega ekki svo orð sé á gerandi.

En illt er að heyra að eyjarnar hér í kringum landið séu þaktar netdruslum úr trollum togara. Netum sem fuglinn ber í eyjarnar til hreiðurgerðar og festist svo jafnvel í netinu með löngum og kvalafullum dauðdaga. En nýlegar myndir úr fréttum sjónvarps sýna hversu eyjarnar eru þaktar netum. Það er nú svo að þegar togararnir eru að draga veiðarfærin eftir botni sjávar þá fer það oft illa. Því þau svæði sjávar sem geyma mestan fiskinn eru mjög mishæðótt, svo fiskur hafi þar skjól fyrir ránfiski og sjávarstraumum. Það eru gjótur, nibbur, drangar og hvað þetta nú allt heitir sem þekur botninn. Fyrir utan kóralsvæðin, sem mörg hver hafa verið leikin mjög illa af trollum togara. Svo koma trollin með sína þungu stóru stálhlera sem ryðjast svo yfir þessi hafsvæði, þá krækjast veiðarfærin oft í botnnibbur eða -dranga með slæmum afleiðingum. Svo slæmum að oft stórsér á veiðisvæðinu og svo slæmum að heilu trollin tapast.

Hér áður pældu menn ekki svo mikið í því þótt tapaðist eitt og eitt undirbyrði, skver eða hluti af belg. Auðvitað var margt vesenið sem fylgdi því, fyrir utan kostnað. En þá var ekki þessi mengunarvitund eins og er svo mikil í dag. Þó að þessar staðreyndir liggi fyrir þá eru ráðamenn enn að þráast við, enn að gera trollinu hærra undir höfði en slóðanum jafnvel þótt víða sé þannig úti í hinum stóra heimi að krókafiskur selst á töluvert hærra verði en togfiskur.

Svo eru það tæplega 80% almennings sem vilja að farið sé eftir skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar. Almennings sem vill auknar strandveiðar. Hugsið ykkur alla eyðilegginguna sem stórútgerðin og ráðamenn Íslands valda strandveiðum og ekki bara strandveiðum, heldur einnig öllum sjávarbyggðunum allt í kringum landið þar sem strandveiðarnar vega svo þungt. Sem margar berjast í bökkum sem á árum áður blómstruðu þegar menn á smábátum máttu róa þegar þeir vildu, þegar viðraði og allt lék í lyndi. Bara ef við fengjum að hafa strandveiðar frjálsar og myndum róa þegar væri himinblíða. Allir slakir og mikil ró yfir öllum sjávarbyggðum landsins.

Ró eins og í aldingarðinum Eden.

Höfundur er sjómaður.