Höfundur „Calvino byggir frásögnina upp með ströngu strúktúralísku kerfi,“ segir rýnir um Borgirnar ósýnilegu.
Höfundur „Calvino byggir frásögnina upp með ströngu strúktúralísku kerfi,“ segir rýnir um Borgirnar ósýnilegu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skáldsaga Borgirnar ósýnilegu ★★★★★ Eftir Italo Calvino. Brynja Cortes Andrésdóttir íslenskaði. Ugla, 2023. Mjúk spjöld með innslögum, 189 bls.

Bækur

Einar Falur

Ingólfsson

Borgir, rétt eins og draumar, eru gerðar úr þrám og ótta, þótt þráðurinn í erindi þeirra sé leynilegur, reglurnar fjarstæðukenndar, heildarsýnin blekkjandi og allt feli eitthvað annað“ (56). Þannig hljóðar ein af útskýringum feneyska ferðalangsins og landkönnuðarins Marcos Polo á eðli borga fyrir kínverska keisaranum Kublai Khan í þessu óvenjulega en á margan hátt heillandi bókmenntaverki. Hinn kunni ítalski rithöfundur Italo Calvino (1923-1985), einn af dáðari evrópskum rithöfundum síns tíma, notfærir sér í verkinu þá sögulegu staðreynd að seint á 13. öld sótti Polo keisarann heim og hreifst Kublai Khan svo af þekkingu og frásagnargáfu Feneyingsins víðförla að hann gerði hann að sérstökum erindreka sínum. Og í bókinni lýsir Marco Polo í stuttum ljóðrænum og fantasískum prósum, sem hver er hálf til tvær blaðsíður að lengd, 55 borgum sem hann segist hafa heimsótt í ríki keisarans. Þetta eru ekki hefðbundnar staðarlýsingar, eins og kemur fram í útskýringum sögumanns hér að framan, heldur einskonar draumsýnir um staði, fallega og skáldlega dregnar myndir með súrrealískum blæ, hrífandi textar um staði sem eiga að vera manngerðir, eins og borgir eru, en hver lýtur sínum lögmálum, án tengsla við veruleika, og eru líka einskonar hugleiðingar um þætti á borð við tímann, minningar, skipulag, þéttbýlisþróun og dauða.

Um borgina Moriönu segir til að mynda að frá einum borgarhluta til annars „virðist borgin halda áfram í þrívídd og fjölfalda þær myndir sem hún á til en í raun hefur hún enga þykkt, hún er sett saman úr framhlið og bakhlið eins og blaðsíða með einni mynd á hvorri hlið sem ekki er hægt að aðskilja en geta ekki horft hvor á aðra“ (123). Það sem gerir aðra borg, Argíu, ólíka öðrum borgum „er að í staðinn fyrir andrúmsloft hefur hún jarðveg. Göturnar eru algjörlega niðurgrafnar, herbergin eru full af leir upp í loft, á tröppum liggja aðrar tröppur á hvolfi, yfir húsþökunum liggja grýtt jarðvegslög eins og skýjaður himinn. Við vitum ekki hvort íbúar geta ferðast um borgina með því að víkka út göng eftir orma og glufur þar sem rætur smeygja sér …“ (146). Og svo má taka sem dæmi borgina Leoníu sem „endurnýjar sig daglega. Á hverjum morgni vakna íbúar í hreinum rúmfötum, þvo sér með sápum sem eru nýjar úr umbúðunum, fara í splunkuný föt, draga fram óopnaðar dósir úr nýjasta ísskápnum og hlusta á nýjustu lögin úr nýjustu gerð af útvarpi“ (133).

Þessar lýsingar eru vitaskuld með miklum ólíkindum og bera vitni um frjálsan og skapandi huga sögumanns, sem höfundurinn bindur alls ekki í lýsingum sínum við 13. öldina og furður borga sem stóðu við silkileiðina, með bartskerum, úlfaldalestum og kvennabúrum, heldur eru hér líka ísskápar og útvarpstæki og í öðrum sögum flugvellir og ýmis önnur fyrirbæri úr samtíma okkar. Enda finnur keisarinn argur iðulega að fluginu í frásögnunum og því hversu ótrúlegar borgarlýsingarnar eru – en Polo snýr sér út úr því með líkingum eins og þeirri að borgirnar séu eins og draumarnir og þar geti allt gerst. Í sumum lýsinganna má finna fyrir undursamlegri heimaborg sögumannsins, Feneyjum. Stundum er samtal þeirra keisarans líka æði heimspekilegt og skilja þeir hvor annan býsna vel en svo er líka kostuleg lýsing á því að keisarinn skilji í raun lítið af því sem ungi Feneyingurinn er að segja honum: „Nýkominn og alls ókunnur tungumálum Austurlanda, gat Marco Polo ekki tjáð sig öðruvísi en með handapati, hoppum, undrunar- og hræðsluhljóðum, ýlfri og dýravæli, eða með hlutum sem hann dró upp úr fórum sínum – strútsfjöðrum, baunabyssum og kvarssteinum, og raðaði upp fyrir framan sig eins og taflmönnum. Þegar hann kom aftur úr sendiförunum sem Kublai úthlutaði honum spann útlendingurinn úrræðagóða látbragðsleiki sem keisarinn varð að túlka“ (29).

Calvino byggir frásögnina upp með ströngu strúktúralísku kerfi. Hún er í níu hlutum og borgarlýsingunum 55 er þar innan skipt upp í 11 flokka: „Borgir og minni“, „Borgir og þrár“, „Borgir og tákn“, „Fíngerðar borgir“, „Borgir og augu“, og svo framvegis. Þá hefjast og enda allir níu hlutarnir á skáletruðum textum þar sem greint er frá samtölum og samskiptum Marcos Polo og Kublai Khan en þegar á líður er keisarinn kominn með landabréfabók sem sýnir ríki hans en innan þess finnur hann bara aðrar borgir og efast pirraður um að viðkomustaðir Polos séu til. Polo hins vegar reynir að sýna fram á að frásögn þurfi ekki að vera bundin af einhverjum veruleika sem sé skilgreindur á landakorti, því þegar allt komi til alls þá skilji hver heiminn á sinn hátt.

Italo Calvino skrifað hátt í tvo tugi skáldsagna og er ánægjulegt að nú hafa fjórar þeirra þekktustu frá seinni hluta ferils hans verið þýddar á íslensku, sem er ekki sjálfsagt mál, að færa klassísk bókmenntaverk yfir í hið fámenna málsamfélag okkar. En bókaútgáfan Ugla á hrós skilið fyrir hversu vel forlagið stendur sig við útgáfu á þýddum bókmenntum. Ljóðrænt og orðríkt flæðið í lýsingunum á Borgunum ósýnilegu skilar sér vel í sýnilega vandaðri þýðingu Brynju Cortes Andrésdóttur en hún þýddi líka þekktustu bók Calvinos, Ef að vetrarnóttu ferðalangur og hlaut fyrir verkið Íslensku þýðingaverðlaunin árið 2016.