Banaslys Alls hafa átta látist í umferðarslysum á árinu sem er að ljúka.
Banaslys Alls hafa átta látist í umferðarslysum á árinu sem er að ljúka. — Morgunblaðið/RAX
Alls hafa orðið sjö banaslys í umferðinni á þessu ári þar sem átta einstaklingar létust. Þá fórust þrír í flugslysi og tveir í banaslysum á sjó

Alls hafa orðið sjö banaslys í umferðinni á þessu ári þar sem átta einstaklingar létust. Þá fórust þrír í flugslysi og tveir í banaslysum á sjó. Þetta staðfestir Þorkell Ágústsson, rekstrarstjóri rannsóknarnefndar samgönguslysa, í samtali við Morgunblaðið.

Rétt er að halda því til haga að enn eru þrír dagar eftir af árinu, en að því gefnu að ekki verði um frekari slysfarir að ræða í samgöngum á landi eru þeir sem látist hafa í umferðinni einum færri en í fyrra. Þá létust níu, sem er svipaður fjöldi og undanfarin ár.

Þeir þrír sem létust í flugslysi fórust þegar flugvélin TF-KLO brotlenti í Sauðahlíðum á Austurlandi í júlí. Þetta voru flugmaður vélarinnar og tveir vísindamenn sem unnu að talningu hreindýra.

Einn maður fórst þegar sportbátur sökk utan við Njarðvíkurhöfn í júlí. Tveir voru um borð í bátnum, en hinn komst lífs af. Þá fórst sjómaður í eldsvoða þegar eldur kom upp í fiskiskipinu Grímsnesi GK-555 í apríl, en skipið lá við bryggju í Reykjanesbæ.