Matreiðslu- og framreiðslumeistari Grétar Matthíasson töfrar fram áramótakokteilinn í ár og í honum er að sjálfsögðu kampavín, sem er viðeigandi um áramót.
Matreiðslu- og framreiðslumeistari Grétar Matthíasson töfrar fram áramótakokteilinn í ár og í honum er að sjálfsögðu kampavín, sem er viðeigandi um áramót. — Árni Sæberg Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Grétar er matreiðslu- og framreiðslumeistari og ber titilinn besti barþjónn landsins, en hann hefur unnið til fjölda verðlauna í faginu á undanförnum árum. Núna síðast fór hann á kostum á heimsmeistaramóti barþjóna sem haldið var í Róm rétt fyrir…

Sjöfn Þórðardóttir

sjofn@mbl.is

Grétar er matreiðslu- og framreiðslumeistari og ber titilinn besti barþjónn landsins, en hann hefur unnið til fjölda verðlauna í faginu á undanförnum árum. Núna síðast fór hann á kostum á heimsmeistaramóti barþjóna sem haldið var í Róm rétt fyrir jól þegar hann komst í hóp fimmtán bestu barþjóna heims, sem er framúrskarandi árangur.

Blandar saman tveimur uppáhaldsáfengistegundum

Ástríða hans fyrir faginu leynir sér ekki og Grétar veit fátt skemmtilegra en að bera fram ljúffenga drykki fyrir gesti sína. Jól og áramót eru þar engin undantekning. Hann afhjúpar hér fyrir lesendum Morgunblaðsins áramótakokteilinn sinn í ár og ást sína á tveimur áfengistegundum.

„Þetta er sem sagt kampavíns- og ananasdrykkur með tequila sem er ótrúlega ljúffengur og gaman að bera hann fram á hátíðlegan hátt. Ég hef mikið dálæti á tequila og hef virkilega gaman af því að gera suðræna drykki með tequila og sérstaklega blanda þá stundum með kryddi við eins og chili og jalapenó. Það er þetta skemmtilega bragð kemur þegar gott og sterkt krydd er notað í drykkina. Í áramótadrykknum í ár blanda ég saman tveimur af mínum uppáhaldsáfengistegundum; kampavíni og tequila, en er það er ekkert meira viðeigandi en að vera með kampavín um áramót,“ segir Grétar og brosir.

Skálað í Dom Pérignon að fagna nýju ári

„Þessi drykkur er einmitt líka svo þægilegur, hann krefst smá undirbúnings en það er þess virði. Auðvelt er að bera hann fram og einnig ef þú vilt gera stærri skammt í bolluskál þá er það einnig hægt og kemur vel út í stórri veislu.“ „Ásamt kampavíns- og ananasdrykknum um áramótin er ég ávallt líka með tvær tegundir af kampavíni. Ég byrja oftast á rósakampavíni þar sem ég hef mikið dálæti á góðum búbblum ef svo má að orði komast. Ég verð með Laurent Perrier Rosé til að njóta með matnum yfir kvöldið. Á miðnætti verður síðan skálað í Dom Pérignon til að fagna nýju ári.“

Kampavíns- og ananasdrykkur með tequila

Fyrir einn

40 ml tequila, Grétar notar ávallt Patron Reposado

15 ml Grand Marnier

80 ml freyðivíns- og ananassíróp

(sjá uppskrift fyrir neðan)

kampavín til að toppa drykkinn upp

ananasblöð til skrauts

Aðferð:

Blandið öllu saman í kokteilhristara nema kampavíninu. Hristið mjög vel og sigtið í viskíglas eða sambærilegt fullt af klökum, toppið síðan alveg upp að brún með kampavíni og skreytið með blöðum af ananas.

Freyðivíns- og ananassíróp

500 ml Prosecco

300 ml sykur

½ ferskur ananas

4 anísstjörnur

1/3 vanillustöng

Aðferð:

Byrjið á því að setja Prosecco og sykur saman í pott með anísstjörnum og vanillu og fáið suðuna upp. Hellið í skál og látið kólna vel yfir nótt í ísskáp. Sigtið síðan sírópið daginn eftir í blandaraskál þannig að anísstjörnur og vanilla fari ekki saman við enda allt bragð komið saman við sírópið. Skrælið ananasinn og skerið í teninga, setið síðan saman við sírópið og blandið vel saman við það þar til ananasinn er orðinn að mauki. Sigtið sírópið vel og takið takið alla ananasbita frá ef það eru einhverjir eftir.