Matthildur Sigurlaugardóttir fæddist á Akureyri 5. nóvember 1940. Hún lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri 9. desember 2023.

Foreldrar hennar voru Sigurlaug Jóhannsdóttir, f. 6. febrúar 1915 og Vilmundur Gunnarsson Sigurðsson, f. 24. janúar 1918.

Bræður Matthildar voru Geir Reynir Egilsson, f. 1933, d. 1982 og Sigurður Gunnar Vilmundsson, f. 1952, d. 2014.

Börn Matthildar eru Sigurlaug Brynja Arngrímsdóttir, f. 1962, Sigrún Arna Arngrímsdóttir, f. 1966 og Kristján Vilmundur Kristjánsson, f. 1975.

Útför Matthildar fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 28. desember 2023, klukkan 13.

Við Matthildur (Matta) vorum systkinabörn, bæði fædd 1940, ég í upphafi árs, en hún undir lok þess.

Leiðir okkar lágu aðallega saman er ég var við nám við Menntaskólann á Akureyri veturinn 1960-61 og síðar þegar við fjölskyldan bjuggum þar nyrðra frá því síðla árs 1969 og fram um 1985, en þann tíma unnum við Matta lengst af saman á rannsóknastofu Ræktunarfélags Norðurlands, þess aldna félags, sem stofnað var á Akureyri 1903 og starfaði sem samband Búnaðarsambanda fyrir Norðlendingafjórðung allan, en var því miður leyst upp um síðustu aldamót í einstök Búnaðarsambönd á svæðinu.

Þetta voru ein mín bestu ár, bæði í farsælu fjölskyldulífi og í áhugaverðu starfi og starfsumhverfi. Samheldið starfslið gerði gjarna gæfumuninn, þar sem sameiginlegur góðvinur okkar Möttu, Jóhannes Sigvaldason, stýrði för hjá Ræktunarfélaginu lengst af þessi ár og Bjarni heitinn Guðleifsson og fleiri komu einnig mjög við sögu. Matta frænka féll vel inn í þennan hóp með dugnaði sínum og samviskusemi, ásamt léttri lund og glaðværri nærveru, sem ævinlega kom manni í gott skap.

Ræktunarfélagið vann eðlilega náið með Búnaðarsamböndunum á Norðurlandi og deildi reyndar lengst af húsnæði með Búnaðarsambandi Eyjafjarðar á Akureyri, sem gerði það að verkum að félagsskapurinn átti í miklum og góðum samskiptum, bæði í starfi og tómstundum, þar sem óhætt er að segja að Matta hafi verið ómissandi.

Eins og margt af hennar fólki hafði Matta yndi af söng. Við ýmis tækifæri, ekki síst í góðra vina hópi, brast hún auðveldlega í söng, auk þess sem hún söng í lengst af í Kirkjukór Akureyrarkirkju og fleiri kórum þar nyrðra. Þar eignaðist hún ýmsa góða vini. Má ég til með í því sambandi að nefna tryggan og sameiginlegan vin okkar, Gunnfríði Hreiðarsdóttur söngkonu, sem nú er látin, en vann lengi með okkur á stofunni hjá Ræktunarfélaginu

Þótt líf Möttu hafi ekki alltaf verið eintómur dans á rósum tók hún ævinlega baráttunni sem því fylgdi með miklu jafnaðargeði. Kom það líklega aldrei betur í ljós en í þeim alvarlegu veikindum sem tóku sig upp hjá henni og hrjáðu hana síðustu misserin áður en hún játaði sig sigraða. Þar sýndi hún svo sannarlega hve miklum manndómi og hetjulund hún var gædd.

Frá því að ég frétti af þessum veikindum Möttu fyrir tæpum tveim árum höfum við hjónin reynt að fylgjast með henni héðan að austan, bæði með heimsókn norður og verið í símasambandi við hana og dætur hennar, eftir atvikum, þær Sigrúnu og Sigurlaugu, sem nú hafa mikils misst.

Stuttu fyrir endalokin átti hún frumkvæðið að því að hringja í mig og hljómaði þá svo undarlega hress og skrafhreifin um gamlar samverustundir að það lá við að mér kæmu tíðindin um andlát hennar fáum dögum síðar á óvart.

Eftir á að hyggja grunar mig sterklega að hún hafi, á sinn hátt, verið að kveðja. Blessuð sé hún fyrir það og allar okkar samverustundir.

Við Guðborg sendum okkar innilegustu saknaðar- og samúðarkveðjur til barna og annarra afkomenda Matthildar og annarra syrgjenda og gefi þeim styrk í sorg sinni.

Þórarinn Lárusson.

Ég kynntist Matthildi þegar ég réð mig sem kennara við grunnskólann á Steinsstöðum í Lýtingsstaðahreppi eftir stúdentspróf haustið 1973 og hélst okkar vinátta alla tíð þrátt fyrir 15 ára aldursmun. Matthildur var ráðin sem matselja við skólann en þar var heimavist alla vikuna fyrir unglingastigið en hin börnin voru keyrð daglega í skólann.

Við fengum sitt herbergið hvor til búsetu, hennar töluvert stærra en mitt, enda var hún með tvær dætur sínar með sér, en að öðru leyti deildum við sameiginlegum vistarverum skólans bæði borðstofu og eldhúsi með nemendum. Öll börnin fengu heitan mat í hádeginu og unglingarnir voru í fæði alla vikuna. Okkur þótti þetta ekkert tiltökumál en fyrir vikið kynntumst við Matthildur mjög vel.

Matthildur var einstaklega glaðleg og skemmtileg kona sem heillaði mig strax og var oft glatt á hjalla í eldhúsinu á kvöldin þegar gesti bar að garði. Við Matthildur vorum báðar úr Eyjafirði en á þessum árum var alls ekki sjálfsagt að skreppa yfir heiðina enda ég bíllaus og Matthildur átti hálfgerðan skrjóð sem hún treysti illa í vetrarfærð svo við vorum oftast hvor í félagsskap annarrar um helgar þegar nemendur fóru heim.

Við vorum boðnar velkomnar í sveitina og fannst mér það mjög þroskandi að kynnast fjölskyldum og aðstæðum barnanna sem ég kenndi. Okkur var boðið í saumaklúbbana og eins var okkur boðið í kirkjukórinn en Matthildur var vön söngkona og hafði sungið í ýmsum kórum í gegnum tíðina. Ég hafði hins vegar aldrei sungið í kór og færðist undan en þá var mér bent á að það skipti engu máli það væri aðallega gert fyrir félagsskapinn að taka þátt. Þannig vorum við óaðskiljanlegar þennan vetur og upp frá því var alltaf eins og við hefðum hist í gær þótt langt liði á milli þess að við töluðumst við.

Í nóvember á síðasta ári átti Matthildur erindi til borgarinnar og kom þá í heimsókn til mín. Hún sagðist vera komin með ólæknandi sjúkdóm en ekki kvartaði hún og áttum við ógleymanlega samverustund sem mér finnst gott að ylja mér við. Matthildur hafði mikinn lífsvilja og var alls ekki tilbúin að gefast upp þrátt fyrir að hafa hafnað erfiðri meðferð. Ég talaði nokkrum sinnum við hana í síma síðastliðið ár og var alltaf létt yfir henni þrátt fyrir veikindin.

Nú er Matthildur horfin en minningarnar lifa.

Elsku Silla, Sigrún, Kiddi Villi og aðrir aðstandendur, ég sendi ykkur innilegar samúðarkveðjur.

Anna Friðriksdóttir.

Matta er dáin. Dóttir hennar lét mig vita. Við Matta sáumst ekki mikið síðustu árin en þegar menn verða gamlir hleypur tíminn frá manni og liðin tíð máist smám saman út. En nú þegar þessi frétt barst að Matta væri dáin koma dagar löngu liðnir í hugann og stund fyrir næstum sextíu árum verður ljós. Á þeim tíma var verið að koma á fót rannsóknarstofu og hafði ég forsjá með henni í upphafi. Vantaði einhvern til að vinna að þessu með mér. Þá hitti ég Möttu fyrst. Auðvitað hét hún ekki Matta, hún bar nafnið Matthildur Sigurlaugardóttir – kenndi sig á seinni dögum við móður sína Sigurlaugu Jóhannsdóttur sem búsett var um stund með manni sínum austur við Laxárvirkjun en Vilmundur maður Jóhönnu vann þar um árabil. Matthildur ólst því upp sem barn að miklu leyti austur í Aðaldal. En Matta réðst til starfa með mér við rannsóknarstofuna að mæla efni í mold og heyi og að mörgu fleiru sem bjástra þarf við á rannsóknarstofu. Matta var þó ekki bara með mér í vinnu um stundarbil, það urðu þrjátíu ár sem við urðum meira og minna samferða í vinnu. Ekki var það alltaf moldin sem unnið var við, stundum sá hún um mötuneyti Tilraunastöðvarinnar á Möðruvöllum og svolítil barátta um litla stund við gærur hjá Skinnaiðnaði á Akureyri þegar ég bjástraði þar. Samstarf og samvera svo langan tíma hlýtur að marka spor bæði í lífi þeirra er um ræðir og margra í næsta umhverfi. Matta þekkti mitt næsta fólk, var heimagangur ef svo má segja og ég og mínir nánustu þekktum fólkið hennar Möttu. Öll voru þessi kynni og samskipti ánægjuleg og veita yl í minningunni nú þegar Matta er horfin og litið er yfir farna leið. Með þessum orðum fylgir hinsta kveðja og þökk.

Ég og fjölskylda mín sendum börnum Möttu og fjölskyldum þeirra innilegar samúðarkveðjur. Megi sá er öllu ræður varðveita þau á þeim dögum sem koma.

Jóhannes Sigvaldason.