Jóla- og áramótahefðir í íslenskum íþróttum þekkjast varla. Segja má að eina ríkjandi hefðin sé sú að allir séu í jólafríi. Tilraunir hafa verið gerðar með það í hinum ýmsu greinum að vera með einhverja keppni í gangi á milli jóla og nýárs

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Jóla- og áramótahefðir í íslenskum íþróttum þekkjast varla. Segja má að eina ríkjandi hefðin sé sú að allir séu í jólafríi.

Tilraunir hafa verið gerðar með það í hinum ýmsu greinum að vera með einhverja keppni í gangi á milli jóla og nýárs.

En þær hafa ekki orðið langlífar. Í ár er ekki einu sinni hið árlega kjör Samtaka íþróttafréttamanna á íþróttamanni ársins á þessum tíma, heldur á fyrsta fimmtudeginum á nýju ári.

Nei annars – þetta er ekki alveg rétt. Þjóðaríþrótt Íslendinga er vissulega í gangi flesta daga um jól og áramót.

Á Þorláksmessu, aðfangadag, öðrum degi jóla, gamlársdag og nýársdag er vinsælasta greinin hér á landi á dagskránni – enski fótboltinn!

Ljóst er að í jólaboðum annars dags jóla var kveikt á mörgum sjónvarpstækjum þar sem vinsælustu liðin, Liverpool og Manchester United, spiluðu hvort á eftir öðru.

Og bæði Púlarar og Júnætedmenn voru í jólaskapi því þeirra lið unnu. Sérstaklega var sigur United á Aston Villa dramatískur og sætur fyrir þeirra stuðningsfólk.

Ensku liðin leika þrjá leiki hvert á níu til tíu dögum um hátíðirnar, sem er vissulega mikið álag. En hugsið ykkur hvernig þessu var háttað fram yfir miðja síðustu öld. Þá var leikið bæði á jóladag og á öðrum degi jóla, og sömu lið mættust með sólarhrings millibili, heima og heiman. Þá tíðkaðist ekki að nota varamenn og vellirnir voru ekki upphitaðir. Þetta var alvöru jólaskemmtun!