Ölver Benjamínsson (Bói) fæddist á Ystu-Görðum í Kolbeinsstaðahreppi 24. maí 1945. Hann lést á gjörgæsludeild Landspítalans við Hringbraut 2. desember 2023 eftir mjög bráð veikindi.

Foreldrar hans voru Benjamín Markússon og Arndís Þorsteinsdóttir, bændur á Ystu-Görðum. Systkini Bóa eru í aldursröð: Markús, Rut, tvíburasystir Bóa sem er látin, Þorsteinn, Rebekka og Guðmundur.

Sem ungur maður stundaði Bói sjómennsku og tók meirapróf. Hann giftist Ragnhildi Andrésdóttir, f. 7.9. 1947, d. 8.11. 2020, hinn 6. maí 1967. Þau hófu búskap í Stóra-Langadal sama ár. Árið 1973 fluttu þau að Ystu-Görðum og tóku við búi foreldra Ölvers, þeirra Benjamíns Markússonar og Arndísar Þorsteinsdóttur. Bói bjó í Borgarnesi síðustu tvö ár ævi sinnar eftir að kona hans lést.

Börn Ragnhildar og Bóa eru: 1) Óskar, barn Markús Loki. 2) Benjamín, börn Jóhann Ólafur, Magnús og Jón Grétar. 3) Andrés, maki Þóra Sif Kópsdóttir. Börn Ragnhildur, Ársæll Dofri og Von. 4) Björk Ben, sambýlismaður Svanur Már Scheving. Börn hennar Snædís og Patrekur Alex. 5) Björgvin, maki Margrét Kolbeinsdóttir. Börn Andrea, Ölver og Emil. Langafabörnin eru þrjú.

Útför Ölvers fór fram 14. desember 2023.

Elsku pabbi, ég vildi óska að ég hefði haft meiri tíma með þér. Þú fórst svo snöggt og án fyrirvara. Ég hugga mig þó við að þú ert nú kominn til mömmu sem dó líka alltof snemma á lífsleiðinni.

Ég man þegar ég var lítil og skreið upp í fangið hjá þér þegar þú komst inn í mat, annars varstu alltaf úti að vinna í mínum minningum. Það var svo mikil friðsæld og hlýja í fanginu þínu. Þegar ég varð eldri fór ég með þér út í verkin í sveitinni okkar. Þú kenndir mér svo margt og ég bý að því í dag. Þegar þú varst að gefa kindunum raulaðir þú oft lagstúf og ég raulaði með: „Kisa mín, kisa mín hvaðan ber þig að …“ var eitt þeirra. Það var aldrei leiðinlegt að eyða tíma með þér.

Þið mamma hjálpuðuð mér svo mikið með börnin mín og ég á svo margar góðar minningar um samveru okkar bæði í sveitinni og eins á öllum ferðalögunum okkar um Ísland og þegar við komum með til Kanarí.

Hluti af þér dó þegar mamma dó og síðasti hlutinn af mömmu dó með þér. Það er ótrúlegt að þið séuð bæði farin á aðeins þremur árum. En minningarnar lifa og ég bý að þeim, þótt ég sakni ykkar svo mikið.

Þú varst svo traustur elsku pabbi. Alltaf gat ég rætt allt við þig og leitað til þín. Þú varst kletturinn í mínu lífi. Ég var ekki alveg tilbúin að þú værir að fara strax.

Elsku pabbi, ég trúi því að nú sé stiginn dans í sumarlandinu, þar sem þið eruð sameinuð á ný. Ég bý að því að hafa fengið að eiga þig sem pabba í mínu lífi og ég þakka þér fyrir það.

Hvíl í friði og kærleika og Guð geymi þig.

Björk Ben Ölversdóttir.

Elsku afi, þú ert besti afi í alheiminum. Takk fyrir að vera svona góður við okkur. Við vildum óska að við gætum gefið þér eitt knús í viðbót. En við þekkjum að geta alltaf lokað augunum og þá kemur þú til okkar.

Nú ert þú engill á himnum eins og amma og þið vakið yfir okkur.

Patrekur Alex Ívarsson
og Snædís Ívarsdóttir.