Ég átti góðan dag á Þorláksmessu, fékk mér kæsta skötu með viðeigandi og hitti karlinn á Laugaveginum. Mér fannst hann daufur í dálkinn, svo rétti hann úr sér og tautaði: Ég finn það að ellimörkin má marka af þessu: Þegar mig ekki þyrstir á Þorláksmessu

Ég átti góðan dag á Þorláksmessu, fékk mér kæsta skötu með viðeigandi og hitti karlinn á Laugaveginum. Mér fannst hann daufur í dálkinn, svo rétti hann úr sér og tautaði:

Ég finn það að ellimörkin má

marka af þessu:

Þegar mig ekki þyrstir á

Þorláksmessu.

Það er mjög í fréttum að Volaða land sé með bestu myndum ársins og á forvalslista fyrir Óskarsverðlaunin. Ekki gat hjá því farið að rifjaðist upp ljóð séra Matthíasar, þangað sem heiti kvikmyndarinnar er sótt. Skáldið sendi Einari H. Kvaran ritstjóra Lögbergs kvæðið og hann lét prenta það án leyfis höfundar en lét þá athugasemd fylgja, að það væri eftir einn nafnkunnasta mann á Íslandi. Kvæðið vakti að vonum mikla athygli. Kvæðið er of langt til að birta það í heild en hér eru nokkur erindi:

Volaða land,

horsælu hérvistar slóðir,

húsgangsins trúfasta móðir,

volaða land!

Hraunelda land,

hrákasmíð hrynjandi skánar,

hordregið örverpi Ránar,

hraunelda land!

Hafísa land,

ískrandi illviðrum marið

eilífum hörmungum barið,

hafísa land!

Vandræða land,

skakkt eins og skothendu kvæði

skapaði Guð þig í bræði

vandræða land!

Hrafnfundna land,

munt þú ei hentugast hröfnum?

Héðan er bent vorum stöfnum,

hrafnfundna land!

Yfirleitt er bjart yfir séra Matthíasi. Ég rifja upp, að eftir að hann hafði hætt prestskap sótti hann um eitthvað til safnaðarfundar en var synjað. Hann kvað:

Þegar ég heyrði þinglokin

þá hljóp í mig gikkurinn;

sagði ég við Manga minn:

„Mígðu nú yfir söfnuðinn.“

Það var gul viðvörun vegna snjókomu á Suðurlandi. Bjarni Jónsson kveður á Boðnarmiði:

Óveðrið nú illa fer

ófært fyrir Landrover

Við björgunina best er von

ef býðst til að drag'ann Ferguson