Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS Orku, segir ekkert benda til þess að leki sé á milli raforkumarkaða. Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar vakti athygli á því í Morgunblaðinu í gær að óvenjumiklar pantanir væru á orku fyrir heildsölumarkaðinn, …

Hermann Nökkvi Gunnarsson

hng@mbl.is

Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS Orku, segir ekkert benda til þess að leki sé á milli raforkumarkaða. Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar vakti athygli á því í Morgunblaðinu í gær að óvenjumiklar pantanir væru á orku fyrir heildsölumarkaðinn, sem ætlaður er smærri fyrirtækjum og heimilum, og að það staðfesti að orkan væri að fara eitthvað annað. Ráða má af þeim orðum að hann eigi við stórnotendur raforku.

Tómas vekur hins vegar athygli á því að breytileg raforka hjá Landsvirkjun sé 40% dýrari en grunnorka. Segir Tómas að það útskýri að einhverju leyti af hverju eftirspurn eftir grunnorku hafi aukist þetta mikið.

„Verðið á breytilegri orku hefur aukist langt umfram svokallaða grunnorku eða mánaðarblokkir og nú eru komnir margir smásalar inn á markaðinn sem eru að kaupa sína orku af Landsvirkjun. Þessir aðilar sjá kost í því, og allir aðilar í raun og veru, að kaupa frekar mánaðarblokkir eða grunnorkublokkir og henda afganginum frekar en að kaupa breytilega orku því hún hefur hækkað langmest. Það er vegna þess að einokunaraðili hefur verðlagt þann hluta orkunnar of hátt,“ segir Tómas í samtali við Morgunblaðið.

Þingmenn sem Morgunblaðið ræddi við úr Miðflokknum, Framsókn og Samfylkingunni voru allir á einu máli um að lögfesta þyrfti forgangsröðun raforku til heimila og smærri fyrirtækja. Enginn vildi tjá sig sérstaklega um meintan leka á milli raforkumarkaða.

Leki á milli markaða

  • Þegar talað er um leka á milli raforkumarkaða er átt við að smásalar raforku séu að panta orku af heildsölumarkaði til að selja stórnotendum rafmagn sem ætlað er smærri fyrirtækjum og heimilum.
  • Forstjóri HS Orku segir að ekkert slíkt sé í gangi.