Ástríða Elín fann sjálfa sig í söngleikjunum þar sem hún getur nýtt öll sín tól.
Ástríða Elín fann sjálfa sig í söngleikjunum þar sem hún getur nýtt öll sín tól.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Árið hjá leik- og söngkonunni Elínu Sif Halldórsdóttur hefur verið ansi viðburðaríkt en hún hefur meðal annars gefið út sólóplötu, leikið í nokkrum kvikmyndum og söngleiknum Níu líf í Borgarleikhúsinu sem er að slá öll met

Edda Gunnlaugsdóttir

eddag@mbl.is

Árið hjá leik- og söngkonunni Elínu Sif Halldórsdóttur hefur verið ansi viðburðaríkt en hún hefur meðal annars gefið út sólóplötu, leikið í nokkrum kvikmyndum og söngleiknum Níu líf í Borgarleikhúsinu sem er að slá öll met. Hún segir það forréttindi og gleði að vera hluti af þessum söngleik.

„Ég hefði getað séð það fyrir að ég myndi finna sjálfa mig í söngleikjum en það var ekki svo. En þegar mér bauðst að fara út í þetta þá var ég auðvitað mikið til og uppgötvaði að þetta væri það sem ég brenn fyrir. Ég get nýtt öll mín tól, að syngja, dansa og leika svo þetta hámarkar ástríðuna,“ segir Elín. Hún æfir nú stíft fyrir söngleikinn Eitruð lítil pilla sem fer í sýningu eftir áramót.

„Þetta er í fyrsta sinn sem ég fæ tækifæri til að skapa sjálf hlutverk og æfa það frá grunni. Núna mun ég finna sjálfstæði og mína eigin rödd í því sem ég er að gera í leikhúsinu.“

Margt gerðist á árinu

Elín sér fyrir sér að finna meira jafnvægi á nýju ári; að finna meira á milli tónlistarinnar og leiklistarinnar.

„Hugmyndafræðilega spilar þetta mjög vel saman. Það er ákveðinn tónlistarmaður í mér þegar ég er að leika og leikari í mér þegar ég er að spila. En í praxís þarf ég mikið skipulag, en þetta hefur kannski bara verið sturlað ár.“

Eins og áður kom fram var Elín áberandi í söngleiknum Níu líf, lék meðal annars í hryllingsmyndinni Kuldi sem kom út fyrr á árinu og svo gaf hún út sólóplötuna Heyrist í mér?

„Ég held ég sé búin að hámarka það sem hægt er að gera á einu ári. En það er þannig í listaheiminum að maður þarf að stökkva á tækifærin. Það er mikið í gangi á meðan það er í gangi en svo getur maður helst úr lestinni. Ég gerði ekki ráð fyrir því að báðir boltarnir færu að rúlla á sama tíma og ég er heldur ekki að gera ráð fyrir því að það haldist þannig. Það er nógu erfitt fyrir listamenn að hafa vinnu en mér finnst ég hafa verið mjög heppin að geta sinnt tónlist og leiklist og fléttað það saman.“

Sem stendur er leiklistin tímafrekari en tónlistin þar sem hún er með vinnu í leikhúsinu og hefur tekið að sér kvikmyndaverkefni. Elín segir að þó hún nálgist hvort tveggja með ástríðu þá sé leiklistin meira starf sem stendur og að hún sé í raun ráðin til að túlka höfundarverk annars.

„Tónlistin er einn ferill en leiklistin er í raun tveir. Gagnvart sjálfri mér þá vakna ég og fer að sofa sem tónlistarkona. Ég upplifi mig sem tónlistarkonu því það er stór hluti þess sem ég er og er alltaf að vinna í einhverju því tengdu.“

Heyrist í mér?

Platan Heyrist í mér? kom út í nóvember síðastliðnum og er önnur sólóplata Elínar.

„Ég hef verið að vinna í henni síðustu þrjú ár og hugmyndin að henni kviknaði upp úr mikilli einangrun. Ég vann hana mikið með framleiðandanum Reyni Snæ Magnússyni og vorum við mikið að leita að hinum réttu næstu skrefum, hljóðheimi og slíku. Þessi mikla einangrun og kvíðaástand í samfélaginu í heimsfaraldrinum hafði mikil áhrif á plötuna svo þetta varð drungaleg plata.“ Elín lýsir tónlistinni sem indí-poppi sem daðrar við indí-rokk. „Ég skoða alls konar mannlegar tilfinningar. Mannlegi undirtónninn er það að vilja vera séður og heyrður og hversu pirrandi það er þegar manni finnst maður ekki vera heyrður.“

Lagið Júpíter er það fyrsta sem kom út af plötunni og segir Elín þau ekki alveg hafa verið viss í upphafi hvaða leið þau vildu fara með plötuna.

„Það er gítarlag en því meira sem við unnum í því varð það drungalegra, eirðarleysið og þörfin á að springa út einkenndi lagið. Það endar á að það springur út, ég fer að öskra og það var þá sem við áttuðum okkur á að þetta væri áttin sem við yrðum að fara með plötuna. Lögin dansa á þeirri línu að þetta gæti sprungið og ég gæti misst stjórn á tilfinningum mínum.“

Sögumaður í listinni

„Ég vinn mest með efnivið hins persónulega, ég er þannig höfundur og er yfirleitt undir áhrifum af þannig poppi. Ég er sögumaður í listinni, ég nota þetta sem tól og von mín er að fólk geti speglað sig og sínar upplifanir í textunum. Textarnir skipta mig kannski meira máli en útsetningarnar.“

Elín semur allt sjálf, bæði textana og tónlistina. Hún segir að stóra myndin sé að geta sagt sögur og hreyft við fólki. „Ég vil varpa upp minni eigin reynslu og stilla henni þannig upp að hún sé aðgengileg. Ég vil að fólk geti speglað sína reynslu í minni. Ég held að textarnir skipti mig svona miklu máli því ég er sögumaður inn að beini.“