Ásdís María Ægisdóttir fæddist 23. ágúst 1988 á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Hún lést 11. desember 2023 á heimili sínu, Hrannarbyggð 19, Ólafsfirði.

Foreldrar hennar eru Guðný Ágústsdóttir, f. 9. desember 1956, og Ægir Ólafsson, f. 17. ágúst 1953. Bræður Ásdísar Maríu eru Ólafur Ægisson, f. 6. maí 1974, maki Steingerður Sigtryggsdóttir; Kolbeinn Arnbjörnsson, f. 22.11. 1983, sambýliskona Aldís Amah Hamilton; Atli Þór Ægisson, f. 28. júní 1986, maki Silja D. Sævarsdóttir.

Maki Ásdísar Maríu er Jón Þórarinsson, f. 31.7. 1981, sonur þeirra er Þórarinn Eldjárn Jónsson, f. 13.8. 2010.

Ásdís María stundaði nám við Grunnskólann í Ólafsfirði og fór síðan í VMA.

Ásdís María vann í Arion banka í nokkur ár. Hún vann ýmis störf fyrir Fjallabyggð, en síðustu ár á Leikhólum, leikskóla Ólafsfjarðar.

Útför Ásdísar Maríu fer fram frá Ólafsfjarðarkirkju í dag, 28. desember 2023, klukkan 13.

Elsku hjartans litla systir mín Ásdís María er fallin frá. Ótímabært og óvænt andlát hennar er mér enn svo óraunverulegt að ég á erfitt með að koma tilfinningum mínum í orð enn sem komið er. Áfallið sem dundi yfir við þessar óraunverulegu fréttir er eitthvað sem ég hef ekki þurft að glíma við áður þrátt fyrir að hafa kvatt fjöldann allan af ástvinum í gegnum tíðina, oftast við háan aldur eða eftir langvarandi heilsubrest. Þegar þessar fréttir höfðu náð til manns var ekkert annað sem komst að en komast sem fyrst norður, heim í fjörðinn okkar og halda utan um fólkið okkar sem er í sárum.

Ég er þakklátur fyrir að hafa náð að tala við þig, elsku systir, skömmu fyrir andlát þitt. Í því samtali plönuðum við væntanleg jól og jólagjafir ásamt umræðu um það hvort við kæmum ekki örugglega norður á milli jóla og nýárs. Í þessu samtali gaf ég ekki afgerandi svar um áramótastaðsetningu okkar og ekki grunaði mig þá að á þessu tíma værum við að kveðja þig og það í hinsta sinn og að þetta yrði okkar síðasta samtal. Í giftingarveislu ykkar Jóns síðsumars hafði ég planað að halda smáræðu en hafði einhverra hluta vegna ekki skrifað hana hjá mér. Hún varð því styttri en ég hafði planað og kom ég ekki öllu til skila sem ég hefði svo gjarnan viljað koma til þín. Ég hef hugsað þetta töluvert núna síðustu daga og komist að því að í raun og veru langað mig bara að segja „elsku systir, mér þykir óendanlega vænt um þig“. Að því sögðu þá trúi ég því að þú hafir vitað það og þótt nokkuð vænt um bróðir þinn sem gat nú stundum verið smá pirrandi.

Ég gæti setið hér og skrifað óteljandi minningar sem koma upp í hugann á svona stundu en ég mun alla tíð minnast dásamlegrar systur sem gat hallað höfðinu niður, gjóað augunum upp og gefið mér dásamlegt og glettið bros sem allt gat brætt.

Takk fyrir að vera börnunum okkar Steingerðar ómetanlega góð, þau hafa misst mikið og minnast dásamlegrar frænku af hlýhug. Missir Þórarins, Jóns, mömmu og pabba er alger og eitthvað sem enginn ætti að þurfa að ganga í gegnum. Því bið ég alla góða vætti að gefa ykkur styrk til að halda áfram og að sjá ávallt ljósið við enda ganganna.

Ólafur Ægisson.

Elsku hjartans mágkona og frænka okkar.

Söknuðurinn er svo nístandi sár og óskiljanlegur, en nú skilur leiðir, með sorg í hjarta kveðjum við þig elsku besta Ásdís María. Tíminn sem við fengum með þér var allt of stuttur, en við erum þakklát fyrir allan þann tíma sem við höfum átt saman. Í sorginni getum við huggað okkur við allar þær skemmtilegu stundir sem við áttum með þér. Erum búin að hlæja mikið saman í gegnum árin, mikið spilað saman, var samt best ef þú eða Karítas unnuð þá voru allir kátir. Enda miklar keppnismanneskjur í spilum. Ófáar stundirnar sem talað var um fótbolta og horft á fótbolta enda mikil Liverpool-manneskja þar á ferð. Þið Karítas áttuð skemmtilegar stundir á rúntinum, fóruð saman og komuð skellihlæjandi heim, já gleðistundirnar voru margar og erum við þakklát fyrir þær. Þú varst heimakær og ekki mikið fyrir að eyða tímanum þínum í borg óttans eins og þú nefndir stundum Reykjavík. En við vorum svo heppin þegar þú fórst í förðunarskólann, þá gistir þú hjá okkur í Reykjavík, sem gaf okkur meiri tíma til samveru og fengum að kynnast skemmtilegu Ásdísi Maríu enn betur. Takk fyrir að vera þú, dásamleg, skemmtileg, stríðin, tapsár og besti knúsarinn.

Biðjum góðan guð að gefa styrk og blessa strákinn þinn, eiginmann, ömmu og afa og alla þá sem eiga um sárt að binda.

Elsku hjartans Ásdís María við elskum þig svo mikið, þú munt alltaf eiga stað í hjarta okkar. Hvíldu í friði.

Saknaðarkveðja,

Steingerður, Ægir Óli
og Karítas Rún.