Athafnaskáld Baltasar á skrifstofu sinni í Gufunesi. Hann hefur sem fyrr mörg járn í eldinum.
Athafnaskáld Baltasar á skrifstofu sinni í Gufunesi. Hann hefur sem fyrr mörg járn í eldinum. — Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Baldur Arnarson baldura@mbl.is Baltasar Kormákur Baltasarsson, eigandi RVK Studios, sér fyrir sér að um 500 manns verði starfandi samtímis við verkefni hjá stúdíóunum í vor.

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Baltasar Kormákur Baltasarsson, eigandi RVK Studios, sér fyrir sér að um 500 manns verði starfandi samtímis við verkefni hjá stúdíóunum í vor.

„Það er misjafnt milli verkefna [hversu margir hafa starfað í kvikmyndaverinu en fjöldinn] getur hlaupið á hundruðum í stærri verkefnum. Þegar mest hefur verið í stúdíóunum hafa verið um 500 manns að vinna hér á sama tíma í öllum störfum og það er fyrirséð að það verði jafn margir hér í vor,“ segir Baltasar. Það sé alltaf mikil hreyfing á fjölda fólks á svæðinu.

Óvissa hjá veitunum

Baltasar telur að umbrotaskeið sé fram undan hjá streymisveitum. Þar með talið hjá Netflix en hann hefur einmitt framleitt sjónvarpsþætti og kvikmyndir fyrir Netflix, þessa stærstu streymisveitu heims sem hefur nú um 247 milljónir áskrifenda, samkvæmt Forbes, en þeir urðu 100 milljónir 2017.

„Það er óvissa hjá streymisveitunum. Eins og svo oft þegar eitthvað nýtt kemur á markað verður sprenging og miklir fjármunir settir í það. Netflix og fleiri streymisveitur virðast hafa dregið saman seglin í framleiðslu. Það er athyglisvert að rifja upp sögu Netflix. Fyrirtækið var í upphafi vídeóleiga sem sérhæfði sig í heimsendingarþjónustu og breyttist síðar yfir í streymisþjónustu. Vídeóleigur voru aldrei að búa til bíómyndir en svo fara streymisveiturnar að búa til sitt eigið efni. Og það gengur misvel. Það er eðlilegt enda ekki endilega í DNA fyrirtækjanna að gera það.

Fari að bjóða í efni

Svo má nefna HBO-streymisveituna sem er mjög góð í að búa til efni en ekki eins góð að veita þjónustuna. Fyrirtæki á borð við Universal og Disney eru komin með streymisveitur. Þau eiga efnið að miklu leyti en svo er spurning hvort það gangi upp hjá þeim að vera góð þjónustufyrirtæki. Ég held að það fari ekki endilega best saman að þeir sem þjónusta verkin séu þeir sem búa þau til. Þótt ég hafi ekkert fyrir mér í því þá kæmi mér ekki á óvart að þetta gæti breyst aftur og að streymisfyrirtækin fari að bjóða í efni. Verði meira eins og sjónvarpsstöð sem kaupir efni.“

Markaðurinn hefur þolmörk

Sérðu fyrir þér að Netflix fari úr framleiðslu?

„Ég hef sem áður segir ekkert fyrir mér í því en það kæmi mér ekkert á óvart. Markaðurinn þolir líka aðeins ákveðinn fjölda af streymisveitum. Sá tími er liðinn, að ég held, að fólk sé með tíu áskriftir í einu. Það eru takmörk fyrir því hvað venjulegt heimili er tilbúið að vera með margar áskriftir. Mér skilst að Netflix sé að fara meira út í auglýsingar og þar af leiðandi mun það létta á áskriftunum. Það er kannski þróunin að einhverju leyti,“ segir Baltasar og víkur að nýjum samstarfsaðila sínum, Apple, verðmætasta fyrirtæki heims.

„Apple virðist vera á góðu róli með sitt en fyrirtækið framleiðir bíómyndir og setur þær í bíóhús líka. Þannig að fyrirtækið er ekki að einskorða sig við streymisveiturnar eins og Netflix hefur meira verið að gera. Ég held að það verði ekki dregið úr framleiðslu í það heila heldur er spurningin hver framleiðir efnið og hver borgar fyrir það.“

Eðlileg þróun

Þegar við ræddum saman fyrir tveimur árum sagðirðu að framleiðslan hjá streymisveitunum fæli í sér mikil tækifæri fyrir Ísland. Hún gæti farið fram hvar sem er í heiminum. Hvaða áhrif hefur þessi þróun á eftirspurnina hjá RVK Studios?

„Hún hefur aldrei verið meiri. Það sem ég sagði er að streymisveiturnar eru framtíðin. Það er ekkert að fara að hætta. Spurningin er þá hver á þær og hvernig þær starfa en það gæti breyst og það er eðlilegt að það þróist. Og það er alltaf skemmtilegast að vinna í umhverfi sem er á hreyfingu. Sumum finnst mjög þægilegt að reikna með að hlutirnir verði alltaf eins en maður verður ekki mjög farsæll í viðskiptum ef maður gengur út frá því, vegna þess að í eðli sínu hreyfast hlutirnir og breytast og þú þarft að vera fær um að aðlaga þig í þeim aðstæðum. Hver ástæðan er fyrir því að það hefur aldrei verið meiri eftirspurn hjá mér veit ég ekki.“

Úr öllum áttum

Hvaðan kemur eftirspurnin?

„Alls staðar frá. Hún kemur úr stúdíóunum, úr einkageiranum og úr óháða geiranum. Hún kemur frá Evrópu og Bandaríkjunum og hún kemur frá Ástralíu. Ég fæ tölvupósta alla daga en þeir varða oft verkefni sem ég er ekki að fara að gera. Fjóla Bjarnadóttir aðstoðarmaður minn nær varla utan um fyrirspurnirnar. Þær eru svo margar. Ég er kominn með sjóð af verkefnum sem eru í þróun, á borð við þetta verkefni með Apple, sem ég hef verið að þróa frá upphafi. Ætli ég sé ekki með 20 verkefni í gangi sem ég er að þróa í samstarfi við ýmsa aðila.“

Bókaðar ár fram í tímann

Er stúdíóið bókað mörg ár fram í tímann?

„Kvikmyndir eru sjaldnast ákveðnar mikið meira en ár fram í tímann. Þegar ég framleiddi Adrift var ég eini PGA-framleiðandinn á verkefninu,“ segir Baltasar en PGA stendur fyrir Producers Guild of America. Hann sé jafnframt í tveimur öðrum gildum kvikmyndafólks í Bandaríkjunum; gildi leikstjóra (DGA) og gildi handritshöfunda (WGA). „Það er kannski af því að ég starfa á öllum þessum vettvöngum. Skrifa, leikstýri og framleiði.“

Þannig að þú sérð fram á að hafa nóg fyrir stafni næstu árin?

„Þetta lítur vel út en það getur allt gerst og ef maður nær ekki árangri þá minnkar áhuginn á að fylgja þessum samningum eftir. Það er ekkert gefið í þessu.“

Hafa ólíka nálgun

Hvernig er eftirspurnin eftir kvikmyndum, ef við tökum sjónvarpsþætti út fyrir sviga?

„Ég held að hún sé mjög mikil. Streymisveiturnar hafa ólíka nálgun á kvikmyndagerð sem gerir það að verkum að síðustu fimm til sex árin, getum við sagt, hefur verið meiri eftirspurn eftir miðstærð af kvikmynd hjá streymisveitum af því að stúdíóin og bíóin hafa ekki sýnt þeim eins mikinn áhuga. Þar er meira verið að fókusera á stærri myndir eins og ofurhetjumyndir á borð við Marvel.

Þreyta komin í Marvel

Nú er Marvel svolítið að ganga sér til húðar. Maður sér að það er að koma þreyta í konseptið. Ég get sagt í einlægni að ég er svo hissa að það gerðist ekki fyrir tíu árum. Mér finnst þetta alltaf vera sama myndin hjá Marvel en margir elska þetta og það er allt í lagi. Spurningin er hvað kemur þá í staðinn. Stúdíóin eru ábyggilega að klóra sér í höfðinu og spyrja sig að því. Mér var tvisvar boðið að gera Fast & Furious-mynd sem ég afþakkaði, en það er ekki hægt að mjólka þá kú endalaust heldur,“ segir Baltasar en gerðar hafa verið tíu slíkar myndir og fleiri á leiðinni.

Þurfa að aðlaga sig

Hvernig munu streymisveiturnar og kvikmyndahúsin vinna saman?

„Ég held að kvikmyndahúsin séu ekki að fara neitt, ekki frekar en leikhúsið. Ég held að fólk hafi alltaf þörf fyrir að fara í bíó en kvikmyndahúsin á Íslandi mættu vera duglegri að þróa sig og aðlaga sig breyttum tíma, finnst mér.“

Hvernig þá?

„Mér finnst ekki nógu mikil breidd í boði. Til dæmis er kvikmyndahús í Notting Hill í London þar sem fólk getur lagst upp í rúm, pantað drykk eða mat. Ég er ekki að segja að almennt þurfi öll bíó að vera þannig, en sjálfan langar mig ekkert í bíó til að sitja kannski með öskrandi unglingum sem eru að henda poppi hver á annan. Mig langar kannski að fara í umhverfi sem mér finnst notalegt og njóta góðrar upplifunar í toppgæðum. Ég held að bíóið sé ekki að fara neitt en það þarf að þróast og mæta svolítið nýjum tímum og auðvitað gæðum. Þegar THX-hljóðkerfið kom [á 9. áratugnum] var það mikil upplifun. Það hefur kannski ekki mikil þróun orðið í bíósölum almennt síðan þá.“