Elliði Vignisson
Elliði Vignisson
„Það er verulega stórt skref sem þarna er tekið og verður til þess að aðgengi Ölfuss að heitu vatni eykst mjög mikið. Við erum í þeirri stöðu að ekki aðeins er íbúum að fjölga hratt, heldur erum við líka í mörgum orkuháðum verkefnum,…

„Það er verulega stórt skref sem þarna er tekið og verður til þess að aðgengi Ölfuss að heitu vatni eykst mjög mikið. Við erum í þeirri stöðu að ekki aðeins er íbúum að fjölga hratt, heldur erum við líka í mörgum orkuháðum verkefnum, sérstaklega umhverfisvænni matvælaframleiðslu og ber þar laxeldi á landi hæst,“ segir Elliði Vignisson bæjarstjóri Ölfuss í samtali við Morgunblaðið.

Þannig bregst hann við þeim tíðindum að Veitur hafa fengið nýtingarleyfi frá Orkustofnun á jarðhita á Bakka og Hjallakrók í Ölfusi, en með leyfinu fá Veitur heimild til að vinna allt að 107,25 sekúndulítra af heitu vatni yfir árið og 135 sekúndulítra að hámarki á hverjum tíma úr jarðhitageyminum. Meðalvinnslan árið 2022 nam 64 lítrum á sekúndu.

„Ég tel líka að þetta sé vísbending um að samstarf sveitarfélaga og orkufyrirtækja liðki fyrir í orkumálum, þannig að ég tel að þetta séu jákvæð teikn um bjartari tíma í þeim málum. Kálið er þó ekki sopið þótt í ausuna sé komið því við þurfum að stíga miklu stærri skref og vonandi gerum við það á næstunni,“ segir Elliði.

Á heimasíðu Veitna kemur fram að tilgangur fyrirhugaðrar jarðhitanýtingar sé að tryggja Þorlákshafnar- og Ölfusveitu varma til húshitunar, iðnaðar og annarrar atvinnustarfsemi í sveitarfélaginu.

Þar kemur einnig fram að áætlanir um aukna framleiðslugetu veitunnar taki mið af fyrirsjáanlegri aukningu í almennri notkun vegna fólksfjölgunar í Þorlákshöfn sem og af aukningu eftirspurnar frá stórnotendum. Fólksfjöldaspá geri ráð fyrir 8 til 10% fjölgun íbúa í Þorlákshöfn til ársins 2029 og útlit sé fyrir stóraukna eftirspurn eftir heitu vatni vegna fiskeldis á veitusvæðinu.

„Það er okkar einlæga trú að þau sveitarfélög sem koma til með að tryggja sér og íbúum sínum aðgang að orku á næstu árum og áratugum séu sveitarfélögin sem koma til með að búa við mesta velsæld í framtíðinni,“ segir Elliði Vignisson bæjarstjóri Ölfuss.