Sævar við Hrísey Vegagerðin tekur yfir reksturinn frá áramótunum.
Sævar við Hrísey Vegagerðin tekur yfir reksturinn frá áramótunum. — Ljósmynd/Vegagerðin
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Vegagerðin mun frá og með næstu áramótum sjá um rekstur ferjunnar Sævars sem siglir milli Árskógssands og Hríseyjar. Mun þetta fyrirkomulag gilda á meðan kærumál vegna útboðs á ferjuleiðinni eru óútkljáð, að sögn G. Péturs Matthíassonar upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar.

Baksvið

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Vegagerðin mun frá og með næstu áramótum sjá um rekstur ferjunnar Sævars sem siglir milli Árskógssands og Hríseyjar. Mun þetta fyrirkomulag gilda á meðan kærumál vegna útboðs á ferjuleiðinni eru óútkljáð, að sögn G. Péturs Matthíassonar upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar.

Ferjan er afar mikilvæg fyrir íbúa Hríseyjar en samfelld byggð hefur verið þar frá landnámstíð. Á sumrin er stöðugur og mikill straumur ferðamanna til eyjarinnar.

Undanfarin ár hefur fyrirtækið Andey ehf. sinnt siglingunum fyrir hönd Vegagerðarinnar. Ferjusiglingarnar verða frá 1. janúar nk.reknar undir nafni Almenningssamgangna ehf. en félagið er alfarið í eigu Vegagerðarinnar. Öllum í áhöfn ferjunnar var boðið að halda störfum sínum áfram og hefur nú verið samið við áhöfnina um áframhaldandi vinnu um borð. Siglingaáætlun ferjunnar verður óbreytt frá því sem verið hefur og mun hún sigla allt að níu ferðir á dag. Heimahöfn ferjunnar er í Hrísey eins og áður.

Þrjú tilboð bárust

Að sögn G. Péturs var rekstur ferjunnar boðinn út síðla árs 2022. Útboðið var kært og kom úrskurður kærunefndar ekki fyrr en í október 2023. „Kærumál eru ennþá í gangi vegna útboðsins og því ekki hægt að bjóða út aftur á meðan. Vegagerðin tekur því að sér reksturinn þangað til hægt verður að taka ákvörðun á ný um útboð,“ segir G. Pétur.

Þrjú tilboð bárust í rekstur Hríseyjarferjunnar fyrir árin 2023-2025, en tilboð voru opnuð hjá Vegagerðinni í lok nóvember 2022. Lægsta tilboðið átti Eysteinn Þórir Yngvason, fyrir hönd óstofnaðs hlutafélags, 296,6 milljónir króna. Var það rúmlega 50 milljónum lægra en áætlaður verktakakostnaður, sem var 347,8 milljónir. Ferry ehf. Árskógssandi bauðst til að taka verkefnið að sér fyrir 489 milljónir og Andey ehf. Hrísey fyrir 534,3 milljónir.

Um er að ræða sérleyfi fyrir Vegagerðina á ferjuleiðinni Hrísey-Árskógssandur-Hrísey, þ.e. að annast fólks- og vöruflutninga til og frá Hrísey. Bjóðandi skal nota ferjuna ms. Sævar sem er í eigu Vegagerðarinnar. Sævar er 150 brúttótonna stálbátur og getur tekið 100 farþega. Samningstími var þrjú ár með möguleika á framlengingu allt að tvisvar, eitt ár í senn.

Vegagerðin ákvað að taka tilboði lægstbjóðanda, þ.e. Eysteins. Bæði Andey ehf. og Ferry ehf. kærðu í desember sama ár þessa ákvörðun Vegagerðarinnar til kærunefndar útboðsmála. Í báðum tilvikum er kæruefnið í meginatriðum að tilboð lægstbjóðanda sé í andstöðu við kröfur og skilmála útboðslýsingar og óheimilt sé samkvæmt lögum um opinber innkaup að taka því. Tók Andey að sér reksturinn tímabundið á meðan beðið var niðurstöðu.

Kærunefndin birti úrskurð í máli Andeyjar 15. september 2023. Var ákvörðun Vegagerðarinnar um að ganga til samninga við Eystein Þóri Yngvason f.h. óstofnaðs einkahlutafélags hans á grundvelli útboðs felld úr gildi. Taldi úrskurðarnefndin að tilboð lægstbjóðanda hefði ekki verið í samræmi við útboðsgögn og þar af leiðandi ógilt og óaðgengilegt í skilningi 82. gr. laga nr. 120/2016.

„Með því að taka tilboði lægstbjóðanda vék varnaraðili í verulegum atriðum frá kröfum útboðsgagna á þann hátt að jafnræði bjóðenda var raskað sem er í andstöðu við 3. gr. reglugerðar nr. 950/2017,“ segir í úrskurðinum. Af þessari niðurstöðu leiði að óhjákvæmilegt sé að fella úr gildi ákvörðun Vegagerðarinnar.

Þegar þessi niðurstaða lá fyrir tók Vegagerðin þá ákvörðun með bréfi dagsettu 29. september að hafna öllum tilboðum sem bárust í útboðinu.

Andey kærði aftur

Ekki vildu forráðamenn Andeyjar ehf. una þessari niðurstöðu. Með bréfi dagsettu 16. október sl. til kærunefndar útboðsmála kærði lögmaður Andeyjar þá ákvörðun Vegagerðarinnar að hafna öllum tilboðum.

Krefst Andey þess að ákvörðunin verði felld út gildi og lagt verði fyrir Vegagerðina að ljúka við útboðið með gerð samnings. Þá krefst Andey þess einnig að tilboð Ferry verði úrskurðað ógilt. Þar með væri tilbðoð Andeyjar það eina sem væri gilt.

Kærunefndin hefur nú þessa kæru til meðferðar og á meðan mun Vegagerðin sjá um rekstur Sævars undir nafninu Almenningssamgöngur ehf. Það fyrirtæki rekur einnig Grímseyjarferjuna Sæfara sem siglir frá Dalvík til Grímseyjar auk þess að sigla til Hríseyjar tvisvar í viku.