Fiskur Íslensk skip hafa veitt um sjö tonn af geirnefjum á árinu.
Fiskur Íslensk skip hafa veitt um sjö tonn af geirnefjum á árinu. — Ljósmynd/Center for Coastal Studies
Á árinu 2023 hafa tvö íslensk skip landað geirnef, einnig þekktur sem makrílsbróðir. Um er að ræða samanlagt tæp sjö tonn en þar af er Vilhelm Þorsteinsson EA-11, uppsjávarskip Samherja, með þúsund tonn og Hoffell SU-80, skip Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði, með 5,9 tonn

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Á árinu 2023 hafa tvö íslensk skip landað geirnef, einnig þekktur sem makrílsbróðir. Um er að ræða samanlagt tæp sjö tonn en þar af er Vilhelm Þorsteinsson EA-11, uppsjávarskip Samherja, með þúsund tonn og Hoffell SU-80, skip Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði, með 5,9 tonn.

Tegundinni er á vef Hafrannsóknastofnunar lýst sem mjóum, lang- og þunnvöxnum fiski. „Haus er breiður að ofan og langur því skoltar teygjast fram í langa og mjóa trjónu og er neðri skoltur aðeins lengri en sá efri. […] Tennur eru smáar, miklu smærri en í hornfiski. Augu eru allstór. Bolur er langur en stirtla stutt og mjókkar aftur. […] Geirnefur er oftast 25-35 sm en getur orðið um 50 sm.“

Um er að ræða úthafs- og uppsjávarfisk sem á það til að stökkva upp úr sjónum á flótta undan óvinum sínum, en hann gengur oft í stórum torfum. Fæða geirnefja er Ijósáta og önnur sviflæg krabbadýr og smáfiskar. Sjálf verður tegundin stærri fiskum að bráð eins og til að mynda túnfiski.

Flækingar til Íslands

Geirnefur er ekki mikið nýtt tegund við Íslandsstrendur enda eru heimkynni tegundarinnar í Miðjarðarhafi og beggja vegna Atlantshafs frá Noregi og Vestur-Evrópu og Norður-Afríku að austan yfir til Ameríku frá Nýfundnalandi suður til Brasilíu að vestan.

Flækingar koma stundum til Íslandsmiða. Fram kemur á vef Hafrannsóknastofnunar að geirnefur hefur alloft fundist rekinn á fjörur allt frá Stöðvarfirði suður fyrir land og norður fyrir Akranes á tímabilinu júlí til október en þó oftast í ágúst og september.

Fiskurinn er veiddur til manneldis víða og er framreiddur með svipuðum hætti og sardínur og makríll, en einnig hefur tegundnin verið nýtt sem beita við aðrar veiðar.