[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
  • Sænska knattspyrnufélagið Öster hefur ráðið Englendinginn Martin Foyston sem nýjan þjálfara karlaliðsins. Tekur hann við af Íslandsvininum mikla Srdjan Tufegdzic sem yfirgaf félagið eftir síðustu leiktíð
  • Sænska knattspyrnufélagið Öster hefur ráðið Englendinginn Martin Foyston sem nýjan þjálfara karlaliðsins. Tekur hann við af Íslandsvininum mikla Srdjan Tufegdzic sem yfirgaf félagið eftir síðustu leiktíð. Jóhannes Karl Guðjónsson aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins var m.a. orðaður við stöðuna hjá Öster og sænski miðillinn Fotbolskanalen segir að félagið hafi haft augastað á Jóhannesi. Foyston yfirgaf Häcken, þar sem hann var aðstoðarþjálfari, til að taka við Öster. Þar mun hann m.a. stýra Þorra Mar Þórissyni.
  • Henning Fritz, sem varði mark Þýskalands þegar liðið varð heimsmeistari í handknattleik árið 2007, hefur tekið fram skóna á ný, 49 ára gamall, til að leika með Bozen á Ítalíu. Fritz lék með stórliðum Kiel, Rhein-Neckar Löwen og Magdeburg en með síðastnefnda liðinu varð hann þýskur meistari árið 2001 ásamt Ólafi Stefánssyni og Sigfúsi Sigurðssyni undir stjórn Alfreðs Gíslasonar.
  • Detroit Pistons varð í fyrrinótt fyrsta liðið í sögu NBA-deildarinnar til að tapa 27 leikjum í röð á sama tímabilinu þegar það beið lægri hlut fyrir Brooklyn Nets á heimavelli, 118:112. Fyrra metið átti Cleveland Cavaliers (2010-11) og Philadelphia 76ers (2013-14). Frábær frammistaða Cade Cunningham dugði ekki fyrir Detroit en hann skoraði 41 stig í leiknum, 18 þeirra í þriðja leikhluta.
  • Argentínski knattspyrnumaðurinn Cristian Romero leikur ekki með enska liðinu Tottenham næstu vikurnar vegna meiðsla. Varnarmaðurinn tognaði aftan í læri í leik liðsins við Everton á laugardaginn og verður frá keppni næstu fjórar til fimm vikurnar. Hann hefur skorað þrjú mörk í 15 leikjum í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni.
  • Bandaríski knattspyrnumaðurinn Antonee Robinson er undir smásjá Liverpool, en hann var orðaður við félagið í mörgum enskum fjölmiðlum í gær. Liverpool er í vandræðum með stöðu vinstri bakvarðar en Andy Robertson hefur verið frá keppni síðan í október vegna meiðsla á öxl og Kostas Tsimikas viðbeinsbrotnaði í leik liðsins gegn Arsenal á Þorláksmessu. Robinson, sem er 26 ára gamall, hefur leikið 39 landsleiki fyrir Bandaríkin
  • Elmar Dan Sigþórsson, fyrrverandi fyrirliði KA í knattspyrnu, hefur verið ráðinn inn í þjálfarateymi meistaraflokks karla hjá félaginu. Elmar, sem lék yfir 100 leiki með KA frá 2001 til 2012, hefur undanfarin ár verið í stjórn félagsins.
  • Newcastle vill fá enska knattspyrnumanninn Kalvin Phillips, miðjumann Manchester City, til liðs við sig á lánssamningi í janúar. Undanfarna daga hefur áhugi Newcastle á miðjumanninum aukist eftir slæmt gengi liðsins í ensku úrvalsdeildinni. Félagið vonast til þess að geta gengið frá lánssamningnum sem fyrst í janúar.