Sigurjón Sighvatsson
Sigurjón Sighvatsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kvikmyndaframleiðandinn Sigurjón Sighvatsson hefur tryggt sér réttinn á spennusögunni Blóðmjólk eftir Ragnheiði Jónsdóttur. Bókin vakti mikla athygli í jólabókaflóðinu en hún er frumraun Ragnheiðar á rithöfundasviðinu og hlaut glæpasagnaverðlaunin Svartfuglinn fyrir skemmstu

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Kvikmyndaframleiðandinn Sigurjón Sighvatsson hefur tryggt sér réttinn á spennusögunni Blóðmjólk eftir Ragnheiði Jónsdóttur. Bókin vakti mikla athygli í jólabókaflóðinu en hún er frumraun Ragnheiðar á rithöfundasviðinu og hlaut glæpasagnaverðlaunin Svartfuglinn fyrir skemmstu.

Sigurjón segir í samtali við Morgunblaðið að hann hafi ekki ákveðið hvort gerð verði sjónvarpsþáttasería upp úr bókinni eða kvikmynd. Hún sé aðlaðandi sem sjónvarpsefni því sjónarhorninu sé skipt á milli nokkurra persóna en það gæti verið skemmtileg áskorun að gera hana sem bíómynd. Sigurjón segir að Blóðmjólk sé í sínum huga miklu meira en spennusaga. Líf hinna ungu kvenna í sögunni standi honum ljóslifandi og raunverulegt fyrir augum. „Ég þekki fullt af þessu fólki,“ segir hann.

Í Blóðmjólk segir af vinkvennahópi sem verður fyrir miklu áfalli þegar ein þeirra deyr með voveiflegum hætti. Sjónarhornið flakkar á milli kvennanna þannig að lesandinn kynnist persónunum frá ýmsum hliðum og fær um leið upplýsingar um hvað hafi gerst. „Þetta er einstaklega raunsæ lýsing á lífi ungra kvenna úr ákveðinni stétt á Íslandi sem dýpkar. Hér er glæpurinn alls ekki aðalatriðið og í raun ekki heldur hver framdi glæpinn, heldur innra og ytra líf sögupersónanna en um leið er það glæpurinn sem skilur þessa sögu frá svokölluðum skvísubókmenntum, „chick-lit“. Þetta greinir hana með frumlegum hætti frá sögum af sömu tegund sem eiga það til að vera klisjukenndar og óraunverulegar. Hinn óraunverulegi glæpur er því einmitt það sem gerir söguna og sögupersónurnar raunverulegar,“ segir Sigurjón sem kveðst ekki geta sagt til um hvenær sagan verður mynduð. „Ég átti réttinn að Kulda í tíu ár. Þetta getur oft tekið langan tíma. Efnið liggur vel fyrir og næsta atriði er að finna rétta fólkið með mér.“