Það má ekki bíða að stjórnvöld marki nýja orkustefnu

Orkukreppa í Evrópu kom mörgum í opna skjöldu eftir að Rússar hófu innrás sína í Úkraínu. Með ólíkindum þótti hvernig Þýskaland hafði gert sig háð orku frá Rússlandi, svo að það kólnaði bæði á ofnum heimila og iðnfyrirtækja. Þar og víðar um álfuna höfðu stjórnvöld vanrækt viðhald og uppbyggingu orkuinnviða, en höfðu þrátt fyrir ýmsar viðvaranir reitt sig á eilífa og ódýra orkugnótt að austan. Hún brást.

Á einni nóttu kom í ljós að orkuöryggi fjölda Evrópuríkja var í uppnámi, og til þess að gera illt verra voru þau berskjölduð fyrir kúgunartilburðum Rússa, en almenningur og atvinnulíf stóð agndofa gagnvart fordæmalausum hækkunum á orkukostnaði.

Þrátt fyrir að betur hafi úr ræst en á horfðist – aðallega vegna mildrar tíðar og atbeina Bandaríkjanna – hefur hagkerfi Evrópu borið af varanlegan skaða, sem tefur mjög fyrir efnahagsbata í álfunni og kann að hafa langvinn áhrif í stærra samhengi sem vert er að gefa gaum. Nú sem fyrr á engin þjóð sem býr við orkuskort minnstu von um að rétta úr kútnum.

Íslendingar voru ekki minna hissa en aðrir á þeim vandræðum sem meginlandsþjóðirnar höfðu komið sér í. Orkukreppunnar í Evrópu varð raunar einnig vart hér á landi með hækkunum á innfluttu jarðefnaeldsneyti, en hún fór að miklu leyti hjá okkur vegna þess að Ísland er orkuríkt og hefur orðið ákaflega ágengt í beislun og nýtingu hreinnar og endurnýjanlegrar orku.

Þess vegna urðu Íslendingar enn meira hissa á því þegar á daginn kom að raforka á Íslandi væri orðin af svo skornum skammti, að setja þyrfti neyðarlög um raforkuskömmtun til þess að tryggja orkuöryggi heimila og smærri fyrirtækja. Þeirri lagasetningu var raunar frestað, en vandinn er óleystur.

Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar reit grein í Morgunblaðið í gær um orkuskort í landinu, sem þegar er farinn að bíta, og rakti hann helst til „orkuleka“ milli markaða stórnotenda og almennra notenda, sem nýta um 20% raforku í landinu. Hörður varaði við því að hann gæti komið harkalega niður á almenningi með orkuþurrð eða margfaldri hækkun á orkuverði.

Í blaðinu í dag lætur Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS Orku, í ljós rökstuddar efasemdir um nákvæmar ástæður orkuskortsins og minnir á að einokunaraðstaða Landsvirkjunar hafi sín áhrif. Hagvöxtur hafi svo sitt að segja um aukna eftirspurn, en hins vegar hafi aukinni orkunotkun ekki verið mætt með meiri orkuframleiðslu.

Það er vitaskuld mergurinn málsins, rót vandans.

Það var því ekki lítið undrunarefni þegar orkuskorturinn var gerður opinber fyrir mánuði, að stjórnmálamenn létu margir sem hann kæmi þeim öldungis á óvart, þó að margoft hafi verið við því varað og um langt skeið að í óefni stefndi.

Værukærðin um það er í raun óskiljanleg. Öllum hefur mátt ljóst vera að fjölgun þjóðarinnar, mikill hagvöxtur, aukin orkunotkun, orkuskipti og öll önnur skilyrði leiddu til hins sama, að aukinnar orkuöflunar er þörf.

Það eru engar ýkjur að segja að sú orkunýting sé ein helsta forsenda þess velmegunarþjóðfélags, sem Íslendingum hefur auðnast að skapa í köldu og harðbýlu landi; forsenda hagvaxtar og hagsældar, fólksfjölgunar og lífskjara í fremstu röð þjóða heims.

Orkuöryggi er þjóðaröryggismál fyrir Íslendinga engu síður en aðrar þjóðir. Það er ein af frumskyldum stjórnvalda að sjá til þess að því sé ekki ógnað og enn frekar að það sé ekki vanrækt eins og nú blasir við að hefur gerst.

Fyrir því eru margvíslegar ástæður, en þar eru pólitísk mistök og tómlæti efst á blaði.

Um það réðu sjónarmið um náttúruvernd miklu, en þau mega ekki ráða öllu. Vilja menn láta áform um orkuskipti lönd og leið frekar en að virkja? Vilja menn framleiða meiri raforku með því að brenna dísilolíu?

Fyrir því er tæplega mikill stuðningur, en þá geta landverndarmenn ekki heldur lagst þvert gegn öllum virkjunaráformum. Svör þeirra um að þjóðin geti einfaldlega dregið úr neyslu eða lokað orkufrekum fyrirtækjum duga ekki til; þau eru aðeins ávísun á minni verðmætasköpun, meinlæti og verri lífskjör.

Á sínum tíma var reynt að koma á sátt um orkubeislun með því að færa slíkar ákvarðanir af hinu pólitíska sviði yfir í flókinn farveg skrifræðis rammaáætlunar, sem hefur lamað orkuöflun í landinu. Við hana og orkuskort hennar verður ekki unað lengur. Um það skulda stjórnmálamenn allra flokka þjóðinni svör.

En stóra svarið er augljóst: það þarf að virkja meira, það er okkur lífsnauðsyn.