Mikilvægur Ómar Ingi Magnússon er í lykilhlutverki í íslenska landsliðinu. Hann er búinn að ná sér af meiðslum sem höfðu áhrif á þátttöku hans á HM í Svíþjóð í byrjun árs og klár í slaginn fyrir Evrópumótið í Þýskalandi.
Mikilvægur Ómar Ingi Magnússon er í lykilhlutverki í íslenska landsliðinu. Hann er búinn að ná sér af meiðslum sem höfðu áhrif á þátttöku hans á HM í Svíþjóð í byrjun árs og klár í slaginn fyrir Evrópumótið í Þýskalandi. — Morgunblaðið/Eyþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Við verðum að gera betur en á síðasta móti,“ sagði landsliðsmaðurinn Ómar Ingi Magnússon, sem undirbýr sig núna ásamt landsliðinu fyrir Evrópumótið í handknattleik sem hefst í Þýskalandi 10

EM í handbolta

Jökull Þorkelsson

jokull@mbl.is

„Við verðum að gera betur en á síðasta móti,“ sagði landsliðsmaðurinn Ómar Ingi Magnússon, sem undirbýr sig núna ásamt landsliðinu fyrir Evrópumótið í handknattleik sem hefst í Þýskalandi 10. janúar, í samtali við Morgunblaðið í Safamýrinni í gær.

Mótið hefst tíunda janúar en fyrsti leikur Íslands er gegn Serbíu þann tólfta. Áður en Ísland hefur leik á mótinu leikur liðið tvo vináttuleiki við Austurríki ytra, 6. og 8. janúar.

Ómar Ingi segir mikla stemningu vera í landsliðshópnum sem er til alls líklegur á Evrópumótinu.

„Andinn í liðinu er góður líkt og yfirleitt, gott er að byrja þetta, við hlökkum mikið til. Undirbúningur fyrir stórmót er alltaf skemmtilegur og það er ávallt gaman að hitta strákana,“ sagði Ómar Ingi.

Byrjar vel með Snorra Steini

Snorri Steinn Guðjónsson stýrir íslenska liðinu á sínu fyrsta stórmóti sem þjálfari í janúar. Ómar Ingi tók þátt með íslenska liðinu í vináttulandsleikjum þess gegn Færeyjum í haust og sagði hann liðið hafa náð ágætis árangri þar.

„Síðasta verkefni var fínt. Við gerðum fína hluti, æfingarnar voru góðar og leikirnir ágætir. Við erum að aðlagast hans taktík og því sem hann vill. Það gengur vel og við verðum að sjá hvernig æfingarnar spilast og loks leikirnir í janúar,“ bætti Ómar við.

Landsliðsmaðurinn segist sjá mun á þjálfarastíl Snorra Steins og fyrrverandi landsliðsþjálfara, Guðmundar Þórðar Guðmundssonar, en þetta sé þó bara handbolti. „Munurinn er aðallega alls konar lítil atriði en þetta er enn sama íþrótt. Við þurfum að spila vel og vinna leiki, þar er einbeitingin.“

Fór ryðgaður af stað

Ómar kom aftur inn í lið Magdeburg á þessu tímabili en hann var meiddur seinni hluta síðasta tímabils, eða eftir heimsmeistaramótið sem honum tókst ekki að ljúka með íslenska landsliðinu. Ómar segir núverandi tímabil hafa verið fínt en Magdeburg deilir toppsæti þýsku deildarinnar með Füchse Berlin.

„Tímabilið hefur verið ágætt. Fyrstu vikurnar voru erfiðar og ég var svolítið ryðgaður. En ég er á fínum stað núna, í góðu standi og hef spilað ágætlega,“ sagði Ómar.

Vona að ég haldist heill

Ómar Ingi var hálftæpur fyrir heimsmeistaramótið og meðan á því stóð í janúar á þessu ári. Fór svo að hann gat ekki lokið mótinu með íslenska liðinu og var meiddur það sem eftir var af tímabilinu. Ómar Ingi segist vera í mun betra standi núna og betur tilbúinn til að takast á við andstæðingana.

„Ég er miklu betri núna en í fyrra. Ég var eiginlega ekkert
búinn að æfa síðast og spilaði aðeins leiki. Líkaminn er miklu betri núna og ég er jákvæður. Ég er ánægður með að þetta gangi vel og vona að ég haldist heill,“ bætti Ómar Ingi við.

Markmið íslenska landsliðsins fyrir Evrópumótið er skýrt – að komast á Ólympíuleikana. Til þess þarf liðið að ná afar góðum árangri og gera betur en í janúar á þessu ári.

„Við þurfum að spila vel og gera betur en á síðasta móti. Fyrst verðum við að vinna riðilinn, þar er aðaláherslan núna.

Við viljum gera vel á þessu móti til að veita okkur sem mestan möguleika á að komast á Ólympíuleikana. Hvað það nákvæmlega þýðir verður að koma í ljós en við þurfum að spila vel og vinna okkar leiki,“ sagði landsliðsmaðurinn Ómar Ingi Magnússon í samtali við Morgunblaðið í Safamýrinni í gær.