Bergþór Ólason
Bergþór Ólason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bergþór Ólason þingmaður Miðflokksins segir að staðan í orkumálum í dag sýni hversu langan tíma það taki fyrir áhrifin af völdum orkupakka Evrópusambandsins (ESB) að koma í ljós. Spurður út í viðbrögð við grein Harðar Arnarsonar forstjóra…

Hermann Nökkvi Gunnarsson

hng@mbl.is

Bergþór Ólason þingmaður Miðflokksins segir að staðan í orkumálum í dag sýni hversu langan tíma það taki fyrir áhrifin af völdum orkupakka Evrópusambandsins (ESB) að koma í ljós. Spurður út í viðbrögð við grein Harðar Arnarsonar forstjóra Landsvirkjunar, sem hann skrifaði í Morgunblað gærdagsins, segir hann:

„Þetta segir okkur tvennt. Í fyrsta lagi þurfum við að framleiða miklu meiri græna orku og í öðru lagi hvað orkupakkar ESB geta tekið langan tíma í að bíta okkur í skottið. Þetta er auðvitað tilkomið vegna innleiðingar á raforkuregluverki ESB í byrjun aldarinnar, þegar þessi ábyrgð Landsvirkjunar var slitin úr sambandi,“ segir Bergþór.

Þórunn Sveinbjarnardóttir þingmaður Samfylkingarinnar segir í samtali við Morgunblaðið að lögfesta þurfi forgangsröðun á afhendingu raforku, eins og Bergþór minntist á líka.

„Mín spurning er: Hvað hyggst umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra gera fyrst honum mistókst að fá afgreitt frumvarp sem hefði tryggt forgangsröðun og raforkuöryggi almennings?“ spyr Þórunn.

Ingibjörg Isaksen þingflokksformaður Framsóknar tekur undir að lögfesta þurfi forgangsröðun afhendingar raforku. Hún segir ljóst að það þurfi að virkja meira og gera langtímaáætlanir um orkuöflun og orkunotkun heimilanna.

„Það þarf líka að vinna að því að minnka töp í kerfinu og byggja upp flutningskerfið svo hægt sé að nýta betur orkuna sem fyrir er í landinu.“