— Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Árið 2023 hefur sýnt okkur enn eina ferðina að það að þekkja söguna kemur ekki í veg fyrir að hún endurtaki sig,“ segir Elín Díanna Gunnarsdóttir, starfandi rektor Háskólans á Akureyri. „Það er undarlegt núna í lok árs 2023 að…

„Árið 2023 hefur sýnt okkur enn eina ferðina að það að þekkja söguna kemur ekki í veg fyrir að hún endurtaki sig,“ segir Elín Díanna Gunnarsdóttir, starfandi rektor Háskólans á Akureyri. „Það er undarlegt núna í lok árs 2023 að vera að horfa upp á blóðug stríðsátök næstum í beinni útsendingu og upplifa sama hjálparleysið og oft áður þrátt fyrir að vera stöndug þjóð sem gæti beitt sér af enn meiri mætti bæði varðandi móttöku flóttafólks og afgerandi afstöðu gegn stríðsrekstri.“

Elín Díanna segir að fyrir sig hafi verið skemmtileg áskorun að stíga inn sem starfandi rektor HA í ágúst síðastliðnum.
„Þó að ég hafi starfað við háskólann í fjölda ára þá hefur þessi tími í rektorsstarfinu fært mér ýmis ný og áhugaverð verkefni. Háskólinn á Akureyri er á spennandi vegferð og þá sérstaklega varðandi nýtingu tækni og áframhaldandi aðgengi allra að námi, sem er ein af frumforsendum þess að jafna stöðu fólks til framtíðar. Menntun er lykillinn að framþróun samfélagsins og í nútímaheimi, þar sem þriggja mínútna myndbönd og 150 orða statusar eru ríkjandi, er gagnrýnin hugsun og ígrunduð þátttaka í samfélagslegri umræðu óendanlega mikilvæg.“

„Ég held að við finnum flest fyrir ákveðnum umskiptum í almennri umræðu og áður viðurkennd sjónarmið eru að breytast og jafnvel snúast á haus. Stuðningur við öfgafyllri skilaboð virðist vaxa og uppgangur popúlískra afla víða í Evrópu vekur mér ugg,“ segir Árni Sigurjónsson, lögfræðingur og formaður Samtaka iðnaðarins. „Á meðan á ESB í erfiðleikum og áhrif alþjóðastofnana líkt og Sameinuðu þjóðanna fara þverrandi þrátt fyrir göfug markmið og mikilvægt erindi.“

Orkumálin hafa verið mjög í brennidepli á innlendum vettvangi á árinu. Þar hefur ekki verið staðið rétt að málum á undanförnum 10-15 árum að mati Árna sem segir:

„Nú hafa stjórnvöld og almenningur vaknað til vitundar um þá alvarlegu stöðu sem komin er upp í orkuöflun. Við blasir að stjórnvöld þurfa að breyta áherslum sínum og virkja stjórnkerfið til aðgerða. Ríkisstjórn sem sérstaklega er mynduð um stöðugleika getur því miður leitt til stöðnunar og afturhalds í mikilvægum atriðum ef hún gætir ekki að sér og aðlagar sig ekki takti samtímans. Það er óhjákvæmilegt að taka erfiðar en nauðsynlegar ákvarðanir. Framfarir verða sjaldnast af sjálfu sér.“

„Draga má mikinn samfélagslegan lærdóm af jarðhræringunum í Grindavík þar sem ég hef búið síðustu ár,“ segir Kristín Linda Jónsdóttir sálfræðingur. „Að þurfa að yfirgefa heimilið til lengri tíma vegna náttúruvár er í raun fátítt á Íslandi. Gerðist þó í Vestmannaeyjum 1973, Súðavík 1995 og Seyðisfirði 2020. „Fólk er skyndilega í bílnum sínum með sængina í aftursætinu. Mér opinberaðist að það sem ég í raun þarf eru bara grunnþarfir mannsins; fæði, klæði og húsnæði.“

Atburðarásin í Grindavík að undanförnu segir Kristín Linda að veki spurningar um öryggi tilveru og öfl náttúru. Ef til vill séum við of fastheldin, þrátt fyrir nýja þekkingu um náttúruvá; að byggð sé áfram á sömu stöðum og verið hefur lengi.

„Ísland er dreifbýlt og stórt miðað við mannfjölda. Við höfum því val um hvar byggð er skipulögð. Hugsanlega vekja þessir atburðir okkur öll, samfélagið og ráðamenn, til nýrrar ábyrgðar hvað það varðar. Hér á ég sannarlega ekki eingöngu við Grindavík heldur almennt varðandi heimili fólksins í landinu. Erum við nógu hugrökk til að velja öryggi fyrir líf og sál fólks fram yfir efnisleg verðmæti og byggðasögu?“ spyr Kristín Linda sálfræðingur.

„Á árinu 2023 gáfu landsmenn skýr skilaboð þegar könnun Prósentu leiddi í ljós að heilbrigðis- og öldrunarmál væru þeir málaflokkar sem 60% aðspurðra fannst að stjórnmálin ættu að leggja mesta áherslu á,“ segir Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélags Íslands.

„Mörg þörf heilbrigðismálefni bíða aðgerða og eitt þeirra stærstu og mikilvægustu er fjölgun einstaklingsmiðaðra úrræða fyrir eldra fólk utan bráðasjúkrahúsa. Styrkja þarf mönnun og aðstöðu geðþjónustunnar, en aðgengi að henni er verulega ábótavant á meðan þjóðin glímir við geðrænan vanda sem aldrei fyrr. Stór liður í þeirri styrkingu þarf að vera á sviði fíknlækninga,“ segir formaður LÍ.

Af jákvæðum fréttum ársins á sviði heilbrigðismála nefnir Steinunn langþráða samninga við sjálfstætt starfandi lækna sem tryggja eiga aðgengi almennings að þjónustu sérgreinalækna óháð efnahag. „Krafa landsmanna, jafnt sem heilbrigðisstarfsfólks, á nýju ári verður stórsókn til að bæta aðstæður notenda heilbrigðisþjónustu og þeirra sem henni sinna. Til að árangur náist þarf hugrekki til að ráðast í stóru verkefnin af fagmennsku, draga úr sóun og fjárfesta myndarlega til framtíðar.“

„Tungumálið virðist vera að láta undan ógnarhraðri þróun upplýsingatækninnar. Öll tungumál þróast reyndar til einföldunar og mín kynslóð tjáir sig öðruvísi en foreldrakynslóð mín. En þessi breyting er mjög hröð og lýsir sér til dæmis í því að skáldsögur sem nemendur lásu fyrir 15 árum eru mörgum illskiljanlegar í dag,“ segir Jón Özur Snorrason, kennari við Fjölbrautaskóla Suðurlands.

„Orkuskiptin eru mér líka ofarlega í huga og þá sérstaklega umræðan. Reyndar hafa fáar sem engar ákvarðanir verið teknar aðrar en þær að veita eigendum rafbíla ívilnanir. Orkuskiptin eru knúin áfram af nauðsyn. Það er vá fyrir dyrum. Ég myndi vilja flétta ýktum neysluvenjum okkar betur saman við komandi orkuskipti,“ segir Jón Özur og bætir við:

„Svo hef ég áhyggjur af leiðtogum heimsins. Mér finnst færast í vöxt að misvitrir páfar veljist til valda. Heimurinn þarf ekki á sjálfmiðuðum og reiðum valdhöfum að halda sem ala á sundrungu og þjóðernishyggju. Þessar áhyggjur mínar haldast í hendur við flóttamannavandann og afleiðingar hans. Fólk flýr heimkynni sín vegna stríða, fátæktar og umhverfisógnar sem margir leiðtogar heimsins ýta frekar undir en draga úr.“ sbs@mbl.is