Peningaþvætti Mesta áhættan tengist reiðufé en sýndarfé sækir á.
Peningaþvætti Mesta áhættan tengist reiðufé en sýndarfé sækir á. — Morgunblaðið/Golli
Lögreglan hefur vísbendingar um að íslenskir brotamenn nýti fjárhættuspil á erlendum vefsíðum til peningaþvættis. Áhætta af peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka í tengslum við sýndareignir er einnig metin mikil

Lögreglan hefur vísbendingar um að íslenskir brotamenn nýti fjárhættuspil á erlendum vefsíðum til peningaþvættis. Áhætta af peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka í tengslum við sýndareignir er einnig metin mikil. Með sýndareignum er átt við margs konar verðmæti á stafrænu formi.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu ríkislögreglustjóra um áhættumat vegna peningaþvættis og fjármögnunar hryðjuverka. Áhættumatið er liður í því að uppfylla staðla alþjóðlega aðgerðahópsins Financial Action Task Force.

Mikil áhætta er talin vera af skattsvikum sem frumbroti peningaþvættis. Þá er einnig áhætta af sýndareignum, reiðufé, erlendum fjárhættuspilum á netinu og einkahlutafélögum.

Mest áhætta af reiðufé

Engin staðfest mál hafa komið upp hérlendis sem tengjast fjármögnun hryðjuverka en í september 2022 tilkynnti lögregla um rannsókn á ætluðu hryðjuverkabroti, sem er fyrsta rannsókn og ákæra vegna hryðjuverkabrots á Íslandi. Í skýrslunni segir að miklar úrbætur hafi verið gerðar er varðar varnir Íslands frá árinu 2018. Lítil áhætta sé talin hér af fjármögnun hryðjuverka.

Í skýrslunni kemur m.a. fram að vísbendingar séu um að einstaklingar sem stunda brotastarfsemi hér á landi þvætti ávinning af brotastarfsemi í gegnum sýndareignir (e. crypto-assets) og komi fjármunum þannig hratt á milli landa. Reiðufé og notkun þess er sem fyrr talinn alvarlegasti einstaki áhættuþáttur peningaþvættis hér á landi sem og annars staðar í heiminum. Skattsvik eru ennþá talin algengustu frumbrot peningaþvættis á Íslandi og greind áhætta af þeim metin mikil. Áhætta vegna notkunar reiðufjár er einnig metin mikil þegar það er flutt til og frá landi.

Þar segir einnig að metin áhætta af peningaþvætti tengdu peningasendingum milli landa hafi verið lækkuð frá árinu 2021 m.a. vegna aukins eftirlits með slíkum sendingum.

Af þeim fjárhættuspilum sem heimilt er að reka á Íslandi er mesta áhættan tengd spilakössum en í ljósi aukins eftirlits og umfangsmeiri varna rekstraraðila er hún metin minni en seinast. Þó er áhættan enn veruleg.

Áhætta vegna fjárhættuspila á netinu sem rekin eru af erlendum rekstraraðilum er einnig metin og í gildandi áhættumati ESB er áhætta af veðmálum á netinu metin mikil í fyrsta sinn.