Lágmúli 2 Lóð á besta stað í borginni, á horni Suðurlandsbrautar og Lágmúla. Í fjarska eru byggingar við Bolholt.
Lágmúli 2 Lóð á besta stað í borginni, á horni Suðurlandsbrautar og Lágmúla. Í fjarska eru byggingar við Bolholt. — Morgunblaðið/sisi
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Borgarráð hefur samþykkt að ÞR Lágmúli 2 ehf., sem er dótturfélag Klasa ehf., yfirtaki vilyrði fyrir lóðinni Lágmúla 2 í Reykjavík, en Reginn hf. fékk vilyrði fyrir lóðinni fyrir tveimur árum. Þarna á að rísa umhverfisvænt verslunar- og skrifstofuhúsnæði.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Borgarráð hefur samþykkt að ÞR Lágmúli 2 ehf., sem er dótturfélag Klasa ehf., yfirtaki vilyrði fyrir lóðinni Lágmúla 2 í Reykjavík, en Reginn hf. fékk vilyrði fyrir lóðinni fyrir tveimur árum. Þarna á að rísa umhverfisvænt verslunar- og skrifstofuhúsnæði.

Það var 7. júlí 2021 sem Reykjavíkurborg og Reginn gerðu samning um lóðarvilyrði með byggingarétti vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á lóðinni Lágmúla 2. Var það með fyrirvara um samþykki nýs deiliskipulags fyrir lóðina. Lóðarvilyrðið skyldi falla niður yrði nýtt deiliskipulag ekki samþykkt innan tveggja ára. Sá tímapunktur var kominn þegar Reginn féll frá vilyrðinu.

Lagmúli 2 er hornlóð á besta stað í borginni, nálægt gatnamótum Suðurlandsbrautar og Kringlumýrarbrautar. Efnt var til samkeppni um vistvæna uppbyggingu á lóðinni og voru úrslit kynnt árið 2019. Varð tillaga Fabric hlutskörpust. Samkvæmt tillögunni á að nota lágkolefnabyggingarefni, þ.m.t. timbur, til þess að draga úr kolefnisspori og stuðla að hringrásarhagkerfi þannig að úrgangur verði minni en annars. Ein helsta sérstaða lóðarinnar er jarðhitinn undir henni.

Lóðarvilyrðið til Regins var háð því skilyrði að uppbygging á lóðinni yrði samkvæmt tillögu Fabric. ÞR Lágmúli 2 ehf. hefur skuldbundið sig til að taka við öllum réttindum og skyldum Regins hf. samkvæmt ákvæðum lóðarvilyrðisins.

Verkefnið Lágmúli 2 nær allt aftur til ársins 2017. Borgarráð samþykkti í nóvember það ár tillögu þess efnis að Reykjavíkurborg tæki þátt í verkefninu „Reinventing Cities“ á vegum C40 og legði fram þrjár lóðir þar sem kallað yrði eftir framúrskarandi uppbyggingarverkefnum, bæði frá sjónarmiðum borgarþróunar og loftslags- og umhverfismála.

Lóðirnar sem um ræðir eru við Frakkastíg/Skúlagötu, á Ártúnshöfða og við Lágmúla 2 við Suðurlandsbraut.

Í greinargerð með tillögunni kom fram að C40 væru samtök yfir 90 stórborga sem ynnu saman í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Í þessum borgum byggju yfir 650 milljónir manna og þær stæðu fyrir fjórðung alls fjármagns heims.