Signý Hún prjónar oft blindandi.
Signý Hún prjónar oft blindandi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Amma Guðný, mín kærasta fyrirmynd í lífinu, kenndi mér að prjóna þegar ég var fimm ára,“ segir Signý Gunnarsdóttir sem allar götur síðan hefur verið mikil prjónamanneskja. „Ég man þessa kennslustund mjög vel, garnið var dökkblátt og ég…

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Amma Guðný, mín kærasta fyrirmynd í lífinu, kenndi mér að prjóna þegar ég var fimm ára,“ segir Signý Gunnarsdóttir sem allar götur síðan hefur verið mikil prjónamanneskja.

„Ég man þessa kennslustund mjög vel, garnið var dökkblátt og ég prjónaði mjög gróft garðaprjón með ömmu við hlið mér til aðstoðar. Afraksturinn varð trefill. Ég hef ekki lagt frá mér prjónana síðan og þegar ég var fjórtán ára prjónaði ég jólagjafir handa börnum í fjölskyldunni, húfur með marglitu munstri sem ég teiknaði sjálf,“ segir Signý sem þetta árið prjónaði líka nokkrar jólagjafir. Hún tók sig til og prjónaði fimm pör af Múmínsokkum í beit.

„Ég rakst á nýju Múmínprjónabókina í bókabúð á Ísafirði, en þangað fer ég reglulega í tengslum við starf mitt sem talmeinafræðingur. Ég á margar vinkonur sem elska Múmínálfana svo ég sá strax tækifæri fyrir mig til að gleðja þær með því að prjóna á þær Múmínsokka. Ég keypti bókina og hófst handa og tvær fengu sokka afhenta fyrir jól en þrjár fengu Múmínsokka í jólapakka,“ segir Signý og rifjar upp sanna jólasögu af eigin jólaprjóni. „Ég prjónaði fyrir margt löngu lopapeysu á ömmu Guðnýju sem átti að vera jólagjöfin mín til hennar, en eins og oft vill gerast hjá okkur prjónurum þá vanmat ég tímann sem fór í fráganginn. Seint á Þorláksmessukvöld var ég að þvo, pressa og klappa peysunni og ég rúllaði henni í handklæði og setti á ofn yfir nóttina. Daginn eftir, á aðfangadag, var hún enn mjög blaut. Þá var ekkert annað að gera en að berhátta sig að ofan og klæðast blautri peysunni til að flýta fyrir þornun. Þennan aðfangadag var ég því að undirbúa jólamatinn í engu undir lopapeysunni sem amma mín átti að fá að gjöf nokkrum tímum seinna, og það tókst svona ljómandi vel,“ segir Signý og hlær.

Grét þegar hún opnaði pakka

„Amma Guðný var mikil handavinnukona og allt sem hún skóp var fallegt, þannig er það ekki hjá mér, en mér er alveg sama, af því að það má vera mistækur prjónari. Það má prjóna bæði fallegt og minna fallegt, af því að lokaniðurstaðan er ekki það sem skiptir öllu máli, heldur gjörningurinn að prjóna og hugsa á meðan til þess einstaklings sem ég prjóna eitthvað handa,“ segir Signý sem prjónar aðallega handa öðrum.

„Mér finnst meira gefandi að prjóna handa öðrum. Hjá mér snýst prjónaskapurinn um að langa til að gleðja einhvern með því að búa eitthvað til. Ef einhver sem ég þekki á til dæmis erfitt, þá er það mín leið til að sýna viðkomandi ást í verki. Mig langar ekki til að prjóna fyrir einhvern sem skiptir mig ekki máli,“ segir Signý og bætir við að aðrir prjónarar skilji hvað liggur að baki prjónaðri gjöf.

„Fyrir mörgum árum prjónaði vinkona mín sokka handa mér og ég fór að gráta þegar ég opnaði pakkann, af því að ég veit um ástina og vinnuna að baki gjöfinni. Ég fann alltaf fyrir vinkonu minni þegar ég var í þessum sokkum og ég notaði þá svo mikið að ég gatsleit þeim og gerði margsinnis við þá, þar til þeir voru alveg búnir.“

Prjónar í flugi og í útilegum

Signý getur auðveldlega prjónað blindandi, til dæmis horft á sjónvarpsþátt og prjónað á meðan.

„Ég mundi aldrei horfa á sjónvarp án þess að vera með eitthvað í höndunum, mér finnst það tímasóun. Auk þess er það að prjóna fullkomin slökun fyrir mig. Ég hef prófað jóga en mér finnst það stressandi og í göngutúrum fer hausinn á mér á flug, en á meðan ég prjóna slaka ég algerlega á. Þegar sonur minn fór í gegnum krabbameinsmeðferð gat ég ekki einbeitt mér að neinni afþreyingu, ég gat hvorki lesið bækur né horft á sjónvarp, það eina sem ég gat gert til að slaka á og hvílast var að prjóna,“ segir Signý sem tekur prjónana með sér hvert sem hún fer. „Ég tek upp prjónana þegar ég fer út að borða, um borð í flugvélum á leið til útlanda og þegar ég fer í útilegur. Ég á það til í útilegum þegar fólk sest saman til að syngja eða spjalla að sitja í dúnúlpunni með vettlinga á höndunum og prjóna. Það er smá erfitt, en alveg hægt. Því miður má ég ekki taka upp prjónana í leikhúsi og bíói,“ segir Signý sem hefur verið í nokkrum prjónahópum en núna er hún einvörðungu í einum slíkum.

„Við erum þrjár og við hittumst einu sinni í viku á kaffihúsi og prjónum saman, köllum það prjónakaffi. Við hjálpum hver annarri við prjónaskapinn, ef upp kemur munsturvandi, þarf að festa ermar eða annað. Við kynntumst þegar við vorum í grunnskóla en höfðum ekki verið í sambandi frá því við vorum tvítugar, eða þar til ein okkar flutti heim frá Danmörku fyrir ári. Þá stofnuðum við prjónakaffið, sem er leið til að endurnýja kynnin.“